140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rangt að lyfjaverð hafi hækkað mikið undanfarin ár, hvað þá mjög mikið. Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í nóvember 2011 um þróun lyfjakostnaðar 2008–2010 sýnir þvert á móti að vegna aðgerða stjórnvalda hefur náðst verulegur árangur í lækkun lyfjakostnaðar frá hruni. Í kjölfar hrunsins varð 36% gengisfelling milli áranna 2008 og 2009 og þá gripu stjórnvöld eðlilega til ýmissa ráðstafana. Meðal annars voru takmörkuð innkaup á nýjum S-merktum lyfjum og niðurgreiðslur voru takmarkaðar við ódýrustu lyfjaflokkana. Ríkisendurskoðun metur það svo að árangur af þessum aðgerðum stjórnvalda sé ótvíræður og hann hafi skilað 3,5 milljarða kr. sparnaði á þessum tveimur árum, 2,6 milljörðum á árinu 2009 og 900 millj. kr. á árinu 2010. Skýrslan leiðir enn fremur í ljós að þótt lyfjamarkaðurinn á Íslandi sé mjög lítill og úrvalið sé miklu minna en á Norðurlöndunum eru almenn lyf nú á sambærilegu verði og þar, þveröfugt við það sem var á árinu 2007. Það er athyglisvert og áreiðanlega í fyrsta skipti um alllangan tíma.

Frú forseti. Það má alltaf gera betur og Ríkisendurskoðun hvetur til þess að leitað verði leiða til að fá aðgang að stærri mörkuðum. Sérstaklega þarf að bæta aðgengi að ódýrum samheitalyfjum. Þetta er sameiginlegur vandi smærri markaða, þ.e. hærra verð og minna úrval. En það eru ekki alltaf dýrustu lyfin sem vantar heldur líka þau ódýrustu. Lyfjaframleiðendur sem bjóða upp á ódýr lyf sjá sér ekki hag í að sækja um markaðsleyfi hér á landi eða nýta þau og afleiðingin er sú að oft vantar einföldustu og ódýrustu lyfin, jafnvel magnyl og íbúfen.

Hvað er til ráða? Við getum leitað eftir samstarfi, tvíhliða samningum við önnur lönd, við getum eins og hæstv. ráðherra sagði lækkað lyfjakostnað verulega með tvíhliða samningum en við getum líka fetað í fótspor ríkja eins og Liechtensteins, Kýpur og Möltu eða Lúxemborgar (Forseti hringir.) sem nýta sér markaðsleyfi annarra landa til að flytja inn ódýr lyf og lækka lyfjakostnað hjá sér.