140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[14:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Kallað var eftir skapandi hugsun hér áðan og minnst á hreyfiseðlana sem sannarlega gætu orðið til þess að draga úr lyfjakostnaði landsmanna og bæta líðan þeirra. Ég vil koma inn í þessa umræðu um skapandi hugsun hugmyndinni um að ríkið framleiði sjálft ódýr samheitalyf, eins og gert var í Lyfjaverslun ríkisins með ágætum árangri á árum áður og eins og Færeyingar gera enn þann dag í dag með góðum árangri. Þá þyrftum við kannski ekki að standa frammi fyrir því að magnyl og íbúfen, ódýr handkaupsverkjalyf, fáist ekki vikum og jafnvel mánuðum saman.

Frú forseti. Það má alltaf gera betur í þessum efnum og ég vil víkja aðeins að stærðunum í lyfjaútgjöldunum því að almenn lyf kosta ríkissjóð núna um 9 milljarða á ári, S-merktu lyfin um 6 milljarða og 4–5 milljarðar bætast við í lyfjakostnað á heilbrigðisstofnunum. Samtals eru þetta tæpir 20 milljarðar kr., þ.e. um fimmtungur af útgjöldum til heilbrigðismála. Það þarf virkilega að horfa í hverja einustu krónu og í allar matarholur til að draga úr þessum kostnaði.

Það er athyglisvert að á bak við notkun S-merktu lyfjanna eru ekki nema um 5 þús. sjúklingar sem þýðir að kostnaður er að meðaltali 1,2 milljónir á sjúkling. Þetta er vert að skoða nánar því að ástæðurnar geta sannarlega verið margþættar, ekki aðeins val á lyfjum eða fjöldi sjúklinga heldur vil ég nefna þriðja möguleikann og þann eina sem ekki krefst siðferðilegra svara um val á lyfjum eða val á sjúklingi sem er markaðurinn og markaðsaðstaðan. Lyfjarisarnir eru gríðarlega sterkir hagsmunaaðilar og mikil pressa er á að upp séu tekin ný og dýr lyf. Þess vegna er mikilvægast í mínum huga að virkja nú lagaákvæðið sem var sett í fyrra inn í lög um opinber útboð til að tryggja að Landspítalinn geti tekið þátt í sameiginlegum útboðum, til að mynda í Noregi, og notið kjara sem heilbrigðisstofnanir þar fá. Ef ákvæðin duga ekki sem mér sýnist verður einfaldlega að breyta þeim.