140. löggjafarþing — 71. fundur,  13. mars 2012.

lyfjaverð.

[15:01]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og margar af þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram. Það er í sjálfu sér búið að koma fram og er forvitnilegt að heyra að hv. málshefjandi kallar eftir því að við vinnum betur innan EES-samstarfsins og nýtum okkur það þar af því að lyfin hafa verið tekin þar út úr. Ég geri þá játningu um þær athugasemdir sem hér eru eignaðar undirrituðum, að vilja ekki taka við tillögum sjálfstæðismanna, að þá er verið að bera hér fram tillögu sem ég hef aldrei heyrt varðandi norræna markaðinn og er ágætt að það komi hér fram. Ég neita því að hafa sagt að ég hafi óskað eftir því að það mál yrði ekki keyrt áfram.

Hið sama gildir um tillögur (Gripið fram í.) hv. þm. Pétur H. Blöndals, að þær hafi verið felldar, það er bara hreinlega rangt. Pétur H. Blöndal er að vinna í lyfjafrumvarpinu með þeim sem eru í velferðarnefnd, hann hefur unnið þar. Við höfum sagt að við ætlum að fara áfram í að vinna með lækniskostnaðinn því að það skiptir gríðarlega miklu máli. En við vildum byrja á lyfjunum í staðinn fyrir að bíða þar til hægt er að taka allt undir í einu. Það er gríðarlega stórt verkefni og hefur ekkert með það að gera hvaðan tillögurnar koma og ég biðst undan því að vera ásakaður um það að vera að flokka tillögur eftir því hvaðan þær koma, (Gripið fram í.) enda lít ég þannig á og hef sagt ítrekað úr þessum ræðustóli að ég lít svo á heilbrigðismálin, sem eiga að vera ríkisrekin, að sátt verði að vera um þau í samfélaginu og að við ætlum að reyna að reka þau saman á sem hagkvæmastan hátt. Og þar hafa allir stjórnmálaflokkar reynt að koma að með sínar tillögur eins og þessi umræða ber vitni um. Hér hefur komið fullt af ágætisábendingum, ábendingar sem hafa verið í gangi og eru í vinnslu. Það er í sjálfu sér gagnrýnisvert þegar menn nálgast umræðuna þannig að ef þeir eiga ekki hugmyndina sjálfir sé ekki ástæða til að fylgja henni eftir. Ég vona að við eigum málefnalegri umræðu en það í framhaldinu.

Hér láðist mér að svara um skráningarkostnaðinn og umfang Lyfjastofnunar. Ég vona að ég fái tækifæri til að svara því síðar. Hv. þingmaður nefndi fleiri spurningar. Sem betur fer svarar Ríkisendurskoðun mjög mörgum þessara spurninga sjálf í skýrslu sinni og það hefur komið fram í umræðunni hvaða hugmyndir og vangaveltur eru í vinnunni og við munum ekkert láta staðar numið hér í baráttunni fyrir því að halda lyfjakostnaði niðri og hindra það að fólk þurfi að nota lyf í auknum mæli eins og því miður hefur verið reyndin þrátt fyrir allt það (Forseti hringir.) sem við höfum verið að gera í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum.