140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál.

Þessi síðari efnistök bar að með nokkuð óvæntum hætti. Þar sem málið var komið í atkvæðagreiðslu hér fyrir stuttu spratt upp þingmaður utan úr sal og óskaði eftir því að málið yrði kallað inn milli 2. og 3. umr. til að hægt væri að fara yfir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið. Þess má geta að sú umsögn lá alls ekki fyrir þegar beiðnin var borin upp en lögum samkvæmt ber að taka tillit til svona beiðna. Málið var tekið aftur inn í nefnd og hefur nú verið afgreitt þaðan með auknum meiri hluta því að í fyrra nefndaráliti var 1. minni hluti á afgreiðslu málsins en nú er kominn meiri hluti fyrir því.

Frumvarpinu var sem sagt vísað til nefndar sem hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en einnig barst formleg umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það atriði sem hlaut mesta umfjöllun í nefndinni að þessu sinni var frumkvæðisskylda stjórnvalda í umhverfismálum.

Þess má geta að í eldra nefndaráliti um málið hafði verið tekið tillit til ábendinga í umsögnum og gerð tillaga um breytingu á frumvarpinu. Meðal annars hafði verið fallið frá því að orðin „sé þess óskað“ féllu brott úr lagatexta núgildandi laga en á móti kæmi styrking á 3. gr. frumvarpsins með orðalagsbreytingu sem þar má sjá og felur í sér breytingu á 10. gr. gildandi laga.

Meiri hluti nefndarinnar bendir á, eins og kemur fram í nefndaráliti, að með frumvarpi til upplýsingalaga sem nú liggur fyrir á þskj. 442 sé stefnt að því að efla og styrkja upplýsingarétt almennings. Að sama skapi felast í ákvæðum frumvarpsins tillögur um auknar skyldur stjórnvalda, eins og fram kemur í 13. gr. þess. Þar er meðal annars lagt til að stjórnvöld skuli leitast við að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf gerð aðgengileg með rafrænum hætti.

Það er skilningur meiri hluta nefndarinnar að með frumvarpi þessu og þeim breytingum sem lagðar voru til á því við 2. umr. sé ekki verið að leggja til nýja almenna meginreglu á sviði umhverfisréttar um að skylda stjórnvöld til að birta opinberlega að eigin frumkvæði lista yfir öll mál eða málsskjöl sem þau hafa undir höndum. Það hefði hugsanlega mátt túlka sem svo að frumvarpinu óbreyttu en að gerðum þeim breytingum sem lagðar eru til á það að vera alveg skýrt að hér er ekki verið að leggja til nýja meginreglu.

Frumkvæðisskylda stjórnvalda á einvörðungu við samkvæmt breytingunum og upphaflega frumvarpinu þegar ástæða er til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Meiri hlutinn áréttar einnig að með ákvæðum frumvarpsins er skerpt á upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings í samræmi við Árósasamninginn, samanber lög nr. 131/2011, og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu. Við þetta má bæta því að í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er einnig gert ráð fyrir nýju ákvæði, 35. gr., um upplýsingaskyldu stjórnvalda um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Í því umrædda ákvæði eru stjórnvöld skylduð með beinum hætti til þess að upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun. Ég vil geta um þetta hér því að þetta styður enn frekar við það að lagaumhverfið verði lagað að þessum meginsjónarmiðum.

Við afgreiðslu málsins voru þær breytingartillögur sem gerðar voru kallaðar til 3. umr., eins og fyrr segir, og því voru ekki greidd atkvæði um þær. Af þeim sökum eru þær lagðar hér fram óbreyttar og eins og ég segi með auknum meiri hluta í nefndinni. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem um getur í nefndaráliti á þskj. 934.

Ég vek þar sérstaklega athygli á að 3. gr. orðist svo:

„Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er stjórnvöldum ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Ráðherra er heimilt að afmarka nánar í reglugerð hvað teljist skaðleg eða hættuleg frávik.“

Undir þetta rita Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, sem hér stendur, Þuríður Backman, Mörður Árnason, Atli Gíslason og Róbert Marshall. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi nefndarinnar, hefur lýst sig samþykkan áliti þessu.