140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta nægja að svara þessu með þeim hætti að þrátt fyrir þá breytingu sem meiri hlutinn í nefndinni leggur til er enn um að ræða býsna víðtæka skyldu á stjórnvöld. Ég hef áhyggjur af því að þetta mál, ásamt með ýmsum matskenndum ákvæðum í því og hugtakanotkun sem er matskennd, verði erfitt í framkvæmd. Ég vek athygli á því að enginn hefur gert neina tilraun til að meta hvað þetta kostar, svo dæmi sé tekið, hver fyrirhöfnin er eða kostnaðurinn. Það sem ég er að segja, hæstv. forseti, er að þrátt fyrir að við getum verið sammála um þau markmið að stjórnvöldum beri að upplýsa um frávik sem eru þannig að heilsu manna eða umhverfi stafar raunveruleg hætta af þeim, felur breytingin í þessu frumvarpi í sér miklu víðtækari skyldur en nákvæmlega bara það.