140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekkert í efa hin jákvæðu markmið sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir talar hér fyrir. Ég dreg ekki í efa að ástæða sé til að efla skyldu stjórnvalda til upplýsingagjafar á þeim sviðum sem hér um ræðir.

Athugasemdir mínar lúta hins vegar að því að frumvarpið, eins og það lítur út með þeim breytingum sem hér eru lagðar til, feli í sér það víðtækar skyldur, það miklar kvaðir að það geti valdið vandræðum í framkvæmd. Ég hef áhyggjur af því að þegar lengra líður, ef þetta verður að lögum, muni menn reka sig á vandamál í framkvæmdinni. Mér finnst réttara að nefna það meðan málið er enn í meðferð á þinginu, frekar en að koma eftir á og segja: Við hefðum átt að hugsa þetta betur.