140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á áðan í andsvari átti ég ekki þess kost að taka þátt í 2. umr. um málið, en ég ætla að koma aðeins inn í umræðuna í dag.

Eins og fram kom bæði hjá framsögumanni og hv. þm. Birgi Ármannssyni, eru markmið laganna bæði háleit og falleg og þar er fullt af fögrum fyrirheitum. Í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á löggjöf er snertir umhverfis- og mengunarmál. Í kjölfar frétta um mikla díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa í Skutulsfirði í Engidal í janúar 2011 ákvað umhverfisnefnd Alþingis að skoða nánar þá löggjöf um umhverfismál og upplýsingaskyldu stjórnvalda er snýr að mengunarmálum. Niðurstaðan var sú að kveða þyrfti skýrar á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana í íslenskri löggjöf og um rétt almennings til þess að vernda heilsu sína og lífsgæði.“

Hv. framsögumaður sagði áðan í andsvari að tilefnið að frumvarpinu hefði verið díoxínmálið sem talað er um í greinargerðinni.

Mig langar að ræða um af hverju menn vilja skerpa á þessum hlutum í stjórnsýslunni. Ég tek undir þau álitamál sem fram koma í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hv. þm. Birgir Ármannsson reifaði ágætlega í ræðu sinni, að menn þurfa að vita hvernig þeir ætla að ná fram markmiðum sínum og hvort þeir hafi gefið sér réttar forsendur fyrir því að fara af stað með málið. Díoxínmálið í Skutulsfirði var alvarlegt og olli talsverðu fjaðrafoki. Menn brugðust alvarlega við því víða í stjórnkerfinu. Matvælastofnun brást til að mynda við með mjög óeðlilega kröftugum hætti og sendi út boð um alla heimsbyggðina um að íslenskt lambakjöt væri díoxínmengað. Það var byggt á ákaflega veikum grunni, á einu sýni sem var rétt yfir viðmiðunarmörkum en innan skekkjumarka. Það voru sem sagt óeðlilega hörð viðbrögð sem ollu verulegu tjóni í samfélaginu.

Menn héldu áfram á þeim nótum vegna þess að þeir óttuðust og fullyrtu að ekki yrði búið í Skutulsfirði í áratugi, í 30, 40, 50 ár, og búsmala bóndans í Skutulsfirði var slátrað. Menn gengu mjög hart fram í stjórnsýslunni. Nú, einu ári eftir að mælingum var lokið, hefur komið í ljós að náttúran hefur hreinsað sig af öllu þessu. Engin þörf var á þessu banni nema um eins árs skeið og ekki var heldur þörf á innköllun Matvælastofnunar á íslensku lambakjöti og öllum látunum í kringum það mál.

Það er því varasamt að hvetja stjórnsýsluna til að ganga enn djarfar fram og vekja upp óþarfaótta því að það er hættulegt.

Aðalatriðið er kannski þetta; af hverju varð þetta díoxínmál til? Af hverju varð þetta Becromal-mál til? Er hugsanlegt að við séum búin að byggja upp miðstýrt eftirlitskerfi í ríkisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu sem gerir það að verkum að það er ekki nógu skilvirkt, að það sé aðalvandinn við eftirlitið? Veigra menn sér við að fara langt út á land til að sinna því eftirliti sem þeir eiga að sinna? Er hugsanlegt að við höfum byggt upp stofnanir, hvort sem þær heita Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, eða Lyfjastofnun, sem við nefndum í sérstakri umræðu um lyfjamál og lyfjaverð áðan, sem stækka alveg gríðarlega, draga til sín margt fólk og verkefni og síðan sé niðurstaðan alltaf sú að til þess að styrkja eftirlitið þurfum við að draga enn meira vald inn í stofnanirnar og fjölga starfsmönnum, en að fólk fari ekki á staðinn vegna þess að það er svo langt? Er sveigjanleikinn horfinn? Er hugsanlegt að í stað þess að ræða þessi mál til að ná fram þessum göfugu markmiðum, og ég tek undir þau, hefðum við frekar átt að velta því fyrir okkur að skipta þessum stofnunum upp sem við höfum verið að byggja upp að fyrirmynd milljónaþjóða? Er þetta kannski allt of stórt kerfi fyrir 320.000 manna þjóð? Hefðum við átt að skipta stofnununum upp í minni stjórnsýslustofnanir, hugsanlega hér á höfuðborgarsvæðinu eða einhvers staðar á landsbyggðinni þar sem þær gætu líka auðveldlega verið, en síðan væri eftirlitsþættinum vísað lengra út í samfélögin, út í nærumhverfið til að eftirlitið ætti auðveldara með að fara á staðinn og fylgjast með, vita meira um staðinn, vera sveigjanlegra í eftirlitinu og þeim þáttum þegar taka þarf á málum, en þegar alvarlegir atburðir ættu sér stað tæki stjórnsýslustofnunin yfir og gripi til aðgerða. Sama stofnunin getur ekki haft allt á sinni könnu, stjórnsýslu, eftirlit og brugðist við því sem gerist og jafnvel verið með einhvers konar refsivönd. Er hugsanlegt að í þessu felist hærra flækjustig vegna þess sem við viljum tryggja? Er hugsanlegt að við séum búin að byggja upp svo stórar stofnanir sem hafa alla þessa þætti á sinni hendi, á einum stað, í stað þess að hafa það ágæta göfuga markmið að færa frumkvæðis- og upplýsingaskyldu meira til stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga? Mér finnst það vera áleitin spurning.

Fyrir nokkru var stofnunum innanríkisráðuneytisins, Vegagerðinni, Siglingastofnun, Flugmálastofnun og öðrum, skipt upp í annars vegar stjórnsýslustofnun og hins vegar framkvæmda- og eftirlitsstofnun. Þar voru fjórar stofnanir sameinaðar í tvær stofnanir.

Einhverra hluta vegna guggnuðu menn á því verki á miðri leið og leyfðu Vegagerðinni að ráða áfram yfir öllum sínum verkþáttum en skiptu upp öðrum þáttum. Mér fannst sú hugmynd góð að skipta upp þessum stofnunum, að hafa annars vegar stjórnsýslustofnun og hins vegar stofnun sem sér um framkvæmd og eftirlit. Það sama ætti að eiga við um umhverfiseftirlit, mengunareftirlit, matvælaeftirlit og allt það eftirlit sem við erum að byggja upp. Hugsanlega væri það miklu skynsamlegri og árangursríkari leið og mundi ná betur fram þeim markmiðum sem við viljum ná vegna þess að frumkvæðis- og upplýsingaskylda er fyrir hendi í upplýsingalögum og öðrum lögum. Ég velti því upp hvort ekki sé hugsanlegt, vegna þess að þetta er allt inni í sömu stofnuninni, að menn séu, eins og komið hefur fram í nokkrum af þeim málum sem við höfum nefnt hér, svolítið að fela eigin skít og sópa undir teppið, því að þeir áttu sjálfir að sjá um eftirlitið og refsingarnar. Þeir áttu líka að hafa stjórnsýsluna á sinni könnu. Er það ekki gallinn í kerfinu?

Er ekki spurning hvort við séum kannski að byggja upp of stórt kerfi í landinu hvað þetta varðar, kerfi sem við höfum ekki efni á, og það sem verra er, kerfi sem ekki er nógu skilvirkt og mun ekki ná fram þeim háleitu markmiðum sem hér eru höfð að leiðarljósi? Það er kannski aðalatriðið.