140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður rekur hér ýmsar hugleiðingar sínar um hvað betur mætti fara í stjórnsýslunni varðandi upplýsingagjöf til almennings og ábyrgð eftirlitsaðila. Ég geri engan ágreining við þingmanninn um þær hugleiðingar hans. Þær eru ágætar svo langt sem þær ná. Ég hnaut hins vegar um að þingmaðurinn sagði að frumkvæðis- og upplýsingaskylda væri nú þegar til staðar varðandi upplýsingagjöf hjá stjórnvöldum.

Ég spyr hv. þingmann: Í hvaða lögum? Á bak við það frumvarp sem við erum að afgreiða núna liggur nefnilega heilmikil rannsóknarvinna sem ég gerði mér í raun lítið grein fyrir og fór í sjálf ásamt einum af lögfræðingum Alþingis. Sú vinna stóð í nokkuð margar vikur. Út úr henni kom 40 blaðsíðna greinargerð sem ég lagði fyrir hv. umhverfisnefnd og kynnti í þinginu. Ég ræddi við á bilinu 10–20 lögfræðinga á meðan ég var að átta mig á því hvaða orðalag og lagagreinar það væru sem taka þyrftu breytingum og hvernig farsælast væri að koma þeim breytingum inn.

Menn tala hér eins og þetta hafi verið hrist fram úr erminni og sé jafnvel vanhugsað, en ef sá misskilningur er á floti og menn trúa því virkilega vil ég í fullri hógværð leiðrétta þann misskilning.

Niðurstaða mín eftir þessa allítarlegu athugun leiddi í ljós að það er engin frumkvæðisskylda um upplýsingagjöf stjórnvalda í umhverfismálum, alls ekki í upplýsingalögunum eins og þau eru núna og ekki heldur í því frumvarpi til upplýsingalaga sem liggur fyrir þinginu.

Ég bið því hv. þingmann endilega um að mennta mig og segja mér hvar þessi frumkvæðisskylda er.