140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[16:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli en ég get ekki orða bundist eftir að hafa hlustað á málflutning hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þetta hefur verið mjög sérkennilegur málflutningur. Að vissu leyti er hann eðlilegur fyrir þingmenn sem standa mjög fast í báða fætur í íhaldssemi. Í þeim ranni eru breytingar af hinu illa og upplýsingar til almennings af hinu illa því að þá gætu menn þurft að fara að bregðast við.

En það er eitt að vera með íhaldssöm sjónarmið í þá veru en allt annað að styðja ekki þingmál eins og þetta þar sem verið er að leggja til að stjórnvöldum verði skylt að upplýsa um hættuleg efni og eiturefni í umhverfi þar sem almenningur býr. Það er afturhald sem ég bara átta mig ekki á og er illskiljanlegt. Það hefur líka verið athyglisvert að sjá að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson er sömu skoðunar.

Þetta eru 19. aldar viðhorf til upplýsinga til almennings, að það sé óþarfi að upplýsa almenning og yfirvöld eigi bara að hafa alls kyns baks fyrir sig og almenningi komi það ekki við. Það er skrýtið að verða vitni að slíkum málflutningi hér í dag. Málatilbúnaður fulltrúa Sambands sveitarfélaga og annarra varðandi þetta mál, þeirra sem voru andsnúnir því, er einfaldlega klassískur kerfismálflutningur um að hitt og þetta varðandi málið sé of flókið eða of dýrt eða of illframkvæmanlegt eða kalli á mannafla. Þetta eru bara viðbrögð kerfis sem vill ekki sinna vinnu sinni, upplýsa almenning og gæta almannahagsmuna. Þetta eru viðbrögð stjórnkerfis og stjórnsýslu sem heldur að hún sé bara til fyrir sjálfa sig en ekki fyrir almenning í landinu.

Þetta er viðhorf sem þarf að breyta því að það er þetta viðhorf sem meðal annars leiddi til þess hruns sem varð hér, þar sem eftirlitsstofnanir upplýstu ekki um það sem var að gerast vegna þess að upplýsingarnar hefðu sennilega orðið of hættulegar fyrir samfélagið. Við heyrum þetta á hverjum einasta degi í málflutningi fyrir landsdómi. Það á ekki upplýsa um mál því að það er of hættulegt. Það skiptir þá ekki máli þó að þúsundir manna verði fyrir gríðarlegu fjárhagslegu tjóni, okkar eigin hagsmunir skipta meira máli, segja þeir. Þetta er alveg fáránlegt.

Herra forseti. Fyrir 15 árum hóf ég störf í Seðlabankanum. Starf mitt þar var að taka tölfræðigögn Seðlabankans og setja þau á vefinn til upplýsingar. Fjöldi manns starfaði þá við það í Seðlabankanum að svara í símann spurningum frá fólki úti í bæ, og frá stofnunum og fyrirtækjum, um hinar og þessar tölur hingað og þangað. Sem betur fer var einn af þeim bankastjórum sem þá voru í Seðlabankanum nógu framsýnn til að sjá að þetta var ófremdarástand og gera þyrfti bragarbót á. Ég var meðal annars ráðinn inn í bankann á þeim forsendum. Tillögur mínar voru í þá átt að hætta að gefa þessi tölfræðigögn út í bókarformi einu sinni í mánuði en setja þau í staðinn á netið.

Mótbárurnar sem ég fékk frá mjög mörgum ef ekki flestum yfirmönnum og starfsmönnum í bankanum voru nákvæmlega í þessa veru: Þetta er of dýrt, þetta er ekki hægt, þetta er ekki tæknilega framkvæmanlegt, þetta eru mín gögn, ég set þau ekki neitt á netið eða í neitt gagnagrunnskerfi. Það hvarflar ekki að nokkrum einasta manni í Seðlabankanum í dag að hugsa á þessum nótum og það er enginn starfsmaður í Seðlabankanum í því að svara símanum og skaffa einhverjum upplýsingar því að þær liggja allar fyrir á netinu. Þannig mun þetta verða með sveitarfélögin líka. Það er ótrúlegt að þingmenn skuli ekki skynja þær breytingar sem eru að verða á upplýsingakerfum og upplýsingum í nútímasamfélagi.

Fyrir um átta árum hóf ég störf hjá Lánasýslu ríkisins við að koma upplýsingum um ríkisábyrgðir stjórnvalda í skiljanlegt form því að enginn vissi hverjar þær voru eða hvað þær voru miklar. Það var mjög merkilegt verk því að þar kom í ljós að laxeldið og minkabúin og allt það ævintýri hafði átt sér stað með mjög einkennilegum hætti. Þessar upplýsingar voru síðan gerðar opinberar og þar kom meðal annars í ljós að veittar höfðu verið ríkisábyrgðir til manna með sérstök áhugasvið, t.d. til byggingar á tennishöllum. Það kom meðal annars í ljós að prófessor við Háskóla Íslands var með ríkisábyrgð á kreditkortinu sínu sem var einsdæmi.

Auðvitað á almenningur að fá upplýsingar af þessu tagi. Það er óeðlilegt að ekki sé upplýst um svona stjórnsýslu og stjórnhætti. Þetta er eðlileg þróun. Víða um heim eru dæmi um að stjórnvöld hafi ekki upplýst mál sem valdið hafa manntjóni. Díoxínmengun er gott dæmi. Díoxín er baneitrað og þrávirkt efni. Það eyðist ekki úr umhverfinu heldur safnast það upp.

Fyrir nokkrum áratugum var byggður heill bæjarhluti í New York fylki í Bandaríkjunum á landsvæði þar sem díoxínmengað efni hafði verið grafið, heitir því sérkennilega nafni Love Canal. Ég veit ekki hvort þingmenn muna eftir því máli en tugir ef ekki hundruð manna, og þar á meðal börn, biðu stórskaða af vegna þess að yfirvöld upplýstu ekki um það sem hafði verið urðað þarna. Það er meðal annars þetta sem þetta mál snýst um, að sveitarfélögum verði skylt að upplýsa um alla svona staði á þeirra vegum sem hugsanlega geta valdið fólki tjóni. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að gera þessa kröfu.

Andstaða manna við þetta mál virðist stafa af vanþekkingu á upplýsingakerfum, gagnagrunnum og skjalastjórnun. Í nútímatæknisamfélagi er hröð og góð miðlun upplýsinga einfaldlega eðlileg og nærri því grundvallaratriði í rekstri sveitarfélaga. Það að tala um að það eigi að gera eitthvað annað en að koma fram með svona frumvarp, það eigi fyrst og fremst að gera einhverjar breytingar á stjórnsýslunni og skipta upp stofnunum — það má vel vera og það er ekkert óeðlilegt að hugsa þannig og velta því fyrir sér hvort ekki megi gera bragarbót á því. En að vera ekki sammála þessu frumvarpi vegna þess er náttúrlega bara fyrirsláttur.

Hægt er að hafa mörg orð um afstöðu manna til þessa máls, hve hún er einkennileg. Ég leyfi mér líka að benda á eitt, sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, að eftirlitsstofnanir og eftirlitshlutverk sveitarfélaga í litlum nærsamfélögum er mjög erfitt fyrir þá sem starfa að því. Mýmörg dæmi eru um það um allt land að eftirlitsaðilar með hinu og þessu í litlum sveitarfélögum verða fyrir aðkasti og hótunum frá nágrönnum, vinum eða ættingjum vegna eftirlits sem þeir eiga að framkvæma. Einmitt eftirlitsins vegna þarf það að vera í ákveðinni fjarlægð til að þessi vandkvæði skapist ekki. Nánd í þessum efnum getur verið ágæt, sveigjanleiki er ágætur en það þarf einnig að vera fjarlægð í þessum málum.

Málflutningur þeirra sem hafa talað gegn þessu máli er ekki einhlítur. Eins og ég segi ætlaði ég ekki að tala mikið um það sjálfur en ég gat ekki orða bundist að benda á hvað afstaða sumra þingmanna til þess að upplýsa almenning um hugsanlegar hættur — að menn skuli vera með fæturna þvílíkt fasta í 19. öldinni að almenningi komi hreinlega ekki við hvort aðstæður geti valdið hættu. Þetta er sérkennilegt og ég vona að við séum að sjá fyrir endann á þessum hugsunarhætti nú þegar komið er fram á árið 2012.