140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, formanni nefndarinnar, Álfheiði Ingadóttur.

Mig langaði að koma inn á það sem hún nefndi um aldursmörkin, og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta. Ég spyr hversu ítarlega nefndin hafi rætt þetta. Þetta á náttúrlega ekki bara við um heilbrigðisstarfsmenn heldur er þetta mjög víða hjá opinberum starfsmönnum að þeir mega ekki vinna nema til ákveðins aldurs. Þau aldursmörk eru mjög forn og gömul, hafa verið í gildi í hálfa öld eða lengur.

Nú er það þannig að ævin hefur lengst, þökk sé góðri heilbrigðisþjónustu um allan heim. Menn eru miklu sprækari í dag en þeir voru fyrir kannski hálfri öld eða einni öld þegar þessi mörk voru ákveðin. Er ekki ástæða til að skoða það að hækka þessi mörk en hafa kannski meira eftirlit með viðkomandi, hann þurfi að sækja um leyfi eins og hér er gert ráð fyrir. Ég spyr hvort ekki sé ástæða til að hafa það lengur en til 76 ára, því að fólk er mjög misjafnt. Sumir eru mjög sprækir alveg fram undir áttrætt, nírætt, og gætu vel sinnt störfum sínum ef þeir hefðu áhuga á, fyrir utan það að nám verður sífellt lengra, auk þess sem menn klára ekkert nám. Menn eru sem sagt í starfsnámi eftir að hafa lokið embættisprófi, þannig að nám og starf blandast æ meira saman. Um leið er hæfileiki mannsins til að vinna langt fram yfir þessi mörk sem við tölum um, 70 ár, greinilegur hjá mjög mörgum. Er ekki ástæða til að skoða þetta enn frekar og lengja þennan tíma?