140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta að við erum ekki að breyta lögum um opinbera starfsmenn, þau lagaákvæði eru alveg skýr. Já, það er rétt sem hv. þingmaður segir að allflestir heilbrigðisstarfsmenn eru opinberir starfsmenn og eru ráðnir til opinberra aðila á þeim grunni. Það sem hér er verið að fjalla um er eingöngu leyfisveiting, starfsleyfi, sem tekur til þess hvort menn geti rekið eigin starfsstöð. Það eru ekki tekin af þau sérleyfi sem menn hafa á grunni menntunar sinnar og sérþekkingar. Þeir geta því, og það er kannski bara með tilvísun til atvinnuréttarákvæða stjórnarskrárinnar, unnið áfram hjá öðrum við sína sérgrein. Það er um það sem málið snýst. Þeir hafa frelsi til að vinna úti á hinum almenna markaði á ábyrgð annars heilbrigðisstarfsmanns á sínu sviði, en ekki til að reka eigin starfsstöð.

Það er sem sagt verið að fjalla um starf heilbrigðisstétta úti á markaðnum en ekki inni í hinu opinbera kerfi, enda, eins og ég segi, erum við ekki að breyta lögum um opinbera starfsmenn.