140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:06]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn sem verið hefur til umræðu í þinginu á mörgum þingum en þetta er þriðja þingið sem ég tek þátt í að ræða frumvarpið og ég vona svo sannarlega að við náum að ljúka þessu máli. Það er oft svo að það getur verið ágætt að frumvörp séu lengi í meðförum þingsins því að við það koma fleiri aðilar að og að öllum líkindum batna þá málin.

Mig langar til þess að taka örfá atriði fyrir. Ég tek heils hugar undir allt sem hv. framsögumaður og formaður nefndarinnar, Álfheiður Ingadóttir, sagði áðan, ég er algjörlega sammála henni. Mig langar einnig til að taka undir þær þakkir sem komið hafa fram fyrir gott samstarf í nefndinni. Það er nefnilega þannig með velferðarnefnd að hún vinnur mjög lausnamiðað og þar eru flokkspólitískar línur gjarnan mjög óskýrar sem ég held að sé verulega af hinu góða.

Ég vil byrja á því að fara svolítið yfir hver eru í raun og veru markmið þessara laga og ætla, með leyfi forseta, að lesa markmiðsgreinina en hún hljóðar svo:

„Markmið laga þessara er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.

Um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu gilda lög þessi, lög um réttindi sjúklinga, lög um landlækni og lýðheilsu, lög um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.“

Mér finnst seinni hluti þessarar greinar skipta mjög miklu máli þar sem kemur fram að við erum ekki eingöngu að fjalla um þessi lög, það gilda mörg önnur lög um heilbrigðisstarfsmenn.

Þá langar mig einnig til að fara aðeins yfir skilgreiningar sem mér finnst skipta máli. Í 2. gr. er heilbrigðisstarfsmaður skilgreindur sem sá einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar. Síðan er talað um löggilta heilbrigðisstétt sem er heilbrigðisstétt sem öðlast hefur löggildingu samkvæmt sérlögum sem í gildi voru við gildistöku laga þessara og reglugerðum sem settar voru með stoð í lögum um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Mér finnst skipta svolitlu máli í umræðunni að við vitum að markmiðin eru þessi og að ákveðin skilgreining liggur þar að baki.

Það hafa lengi verið uppi áætlanir um að búa til ein heildarlög um heilbrigðisstarfsmenn. Hér hafa lengi verið í gildi læknalög og fleiri lög en meiningin er að reyna að samræma þetta einmitt í ljósi nýrra vinnubragða í heilbrigðisþjónustu þar sem teymisvinna og mikið samstarf hefur orðið ofan á. Ákveðin andstaða hefur verið við þessa framkvæmd, að búa til eina rammalöggjöf eða eina heildarlöggjöf um heilbrigðisstéttir, og verður að segjast eins og er að það eru ekki síst læknar, sem hafa haft góða löggjöf, sem hafa verið því andsnúnir en eftir því sem okkur hefur skilist hafa nákvæmlega sömu mótbárur eða sama andstaða verið uppi annars staðar. Síðan hefur lögfesting rammalöggjafar orðið að veruleika og eftir það hefur lítið borið á gagnrýni. Við áréttum það í áliti 1. minni hluta að markmiðum frumvarpsins verður ekki náð nema fram sé sett ein heildarlöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn.

Mig langaði sérstaklega til að fara yfir í raun og veru kannski eina álitaefnið sem er alla vega á milli 1. og 2. minni hluta um hvort eðlilegt sé að tiltaka sérstaklega eina heilbrigðisstétt umfram aðrar. Eins og ég gat um hefur þetta mál farið í gegnum margar umferðir og þetta er í fyrsta sinn sem læknarnir eru tilteknir sérstaklega og er það í raun og veru gert til að ná ákveðinni sátt við lækna. En við í 1. minni hluta lítum svo á að skilgreining á réttindum og skyldum heilbrigðisstarfsmanna og 13. gr. um faglegar kröfur og ábyrgð sé þess eðlis að það sé algjörlega óþarft að læknar séu tilteknir sérstaklega.

Eftir að þetta ákvæði kom inn í lögin í þessari umferð komu hjúkrunarfræðingar fram með mjög ákveðnar ábendingar um að úr því að talað væri sérstaklega um læknisfræðilega meðferð og greiningu fyndist þeim mjög eðlilegt að líka væri talað um hjúkrunarfræðilega meðferð og greiningu. Þannig kom hver starfsstéttin á fætur annarri. En lagaramminn er ekki eingöngu þessi lög, svo ég árétti það frekar, heldur ýmis önnur lög sem gilda um réttindi sjúklinga, um landlækni og lýðheilsu o.s.frv. og við álítum því að við eigum ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af þeirri hræðslu sem hér kom fram í máli þingmanna að það sé ekki skýrt hver beri ábyrgðina og annað slíkt. Eins og formaður nefndarinnar áréttaði hér ágætlega er alls staðar á Norðurlöndunum sú regla í löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn að engin stétt er tiltekin sérstaklega, heldur er staðan þannig að allir heilbrigðisstarfsmenn sitja við sama borð. Ég tel að við eigum að læra af nágrannaþjóðum okkar sem hafa ekki lent í neinum vandræðum út af því að hafa sett allar stéttir undir sama hatt. Og mig langar til að árétta það að ég held líka að í ljósi breyttra vinnubragða þar sem heilbrigðisstarfsmenn vinna saman sé eðlilegt að við jafnsetjum þessar stéttir þó að sjálfsögðu beri læknar oft og tíðum öðruvísi ábyrgð vegna þeirra miklu menntunar og sérþekkingar.

Það eru eitt eða tvö atriði sem mig langaði að tiltaka til viðbótar. Annað ræddum við heilmikið í nefndinni eins og fram hefur komið og það er hvort ekki þyrfti að tiltaka sérstaklega einhvers konar hagsmunaskráningu heilbrigðisstétta eða heilbrigðisstarfsmanna þannig að traust sem er svo nauðsynlegt á milli heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings væri gulltryggt. Að sjúklingur þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að heilbrigðisstarfsmaður hefði fjárhagslegan ávinning af því að selja honum einhver tæki eða tól eða jafnvel eitthvað sem hefði mun meiri inngrip í líkama hans, að settur sé inn í líkama hans einhver aðskotahlutur sem heilbrigðisstarfsmaður gæti hugsanlega haft ákveðna hagsmuni af að selja honum. Þetta var rætt fram og til baka og við í 1. minni hluta töldum að við þyrftum að ræða þetta mál frekar og finna því stað hvort slíkt yrði hugsanlega sett inn, eins og við bendum hér á, þegar endurskoðuð verða lög um lækningatæki, að ráðuneytið skoði það vel að hugsanlega verði sett upp einhvers konar hagsmunaskráning til dæmis hjá landlækni. Við teljum að við verðum að skoða þetta og sjá hver lagastoðin fyrir því er, en þetta er eitthvað sem skiptir mjög miklu máli að sjúklingur geti treyst því fullkomlega að sá heilbrigðisstarfsmaður sem hefur hann til meðferðar eða greiningar eða er að vinna með honum hafi engan fjárhagslegan ávinning af því.

Síðan langar mig til að ítreka það sem fram kemur hér um trúnað, þagnarskyldu, eftirlit landlæknis og upplýsingagjöf til landlæknis að það er náttúrlega ljóst að landlæknir verður að fá þau gögn sem til þarf til að hann geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Það skiptir öllu máli. Í raun og veru þarf sérstakan vilja til þess að túlka lögin öðruvísi en að landlæknir hafi til þess fullan rétt og það verður að teljast sérstakt að læknir veiti viðeigandi upplýsingar til yfirvalda þegar um er að ræða læknisverk með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga en beri svo fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum þegar kemur að upplýsingum um þjónustu og læknisverk sem ekki eru gerð með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Þarna verður að vera ákveðin samfella og menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir. Það skiptir afar miklu máli að landlæknir hafi allar þær heimildir sem hann þarf til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu. Ef í ljós kemur að eitthvað vantar upp á það þarf að sjálfsögðu að skoða það sérstaklega.

Ég er aðili að nefndaráliti 1. minni hluta nefndarinnar og legg til að þetta frumvarp verði gert að lögum með þeim breytingum sem við leggjum til sem framsögumaður hefur farið ágætlega í gegnum. Við munum síðan taka málið til nefndar milli 2. og 3. umr. og skoða þar sérstaklega úrskurð Persónuverndar og hugsanlega önnur álitamál sem uppi eru.