140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

umboðsmaður skuldara.

576. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef hér framsögu fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt af velferðarnefnd og er sérstakt að því leyti til.

Hér er í raun og veru um veigalítið mál að ræða sem fyrst og fremst lýtur að samræmingu. Þannig var að í desember sl. samþykkti Alþingi sérstök lög um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Rétt þótti að setja skýrari, afmarkaðri og greinarbetri ákvæði í lög um það hvernig bæri að standa að kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara. Alþingi afgreiddi þau lög í desember og tóku þau lög gildi þann 1. janúar sl.

Í heildarlöggjöfinni um umboðsmann skuldara eru hins vegar ekki inni ákveðin lykilákvæði sem eru í hinum nýju lögum og þar sem ljóst er að hin nýju sérlög ganga framar hinum eldri er þar ákveðið misræmi milli ákvæðanna sem hafa að vísu ekki áhrif á framkvæmd álagningar gjaldsins til innheimtu fyrir kostnaði við rekstur umboðsmanns. Hins vegar er talið rétt að til að tryggja skýrleika og samræmi í lögum sé þetta ákvæði sem var sett inn í sérlögin í desember fært inn í heildarlögin um umboðsmann skuldara frá 2010. Það snýr að 1. mgr. í 5. gr. laganna, sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Aðilar sem hafa leyfi til að stunda starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög skulu standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds í samræmi við ákvæði laga þessara.“

Viðbótin sem er í sérlögunum sem tóku gildi um síðustu áramót og lagt er til að komi inn í lögin um umboðsmann skuldara er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hið sama á við um fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga.“

Þetta er viðbótarákvæðið sem velferðarnefnd leggur til með þessu frumvarpi að verði fært inn í lögin um umboðsmann skuldara til að fyllsta samræmis sé gætt í þessari löggjöf.

Þar sem frumvarpið er lagt fram í heild sinni af nefndinni og enginn ágreiningur um þetta tæknilega atriði legg ég til við forseta að frumvarpinu verði vísað áfram til 2. umr.