140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn kom réttilega inn á það sem kom frá Evrópuþinginu nýlega og sneri að því hvernig Evrópuþingið fagnaði því að orðið hefði uppstokkun í ríkisstjórninni og nú mundu þessi mál ganga hæglegar fyrir sig.

Hv. þingmaður kom líka inn á þá fyrirvara sem hann setti meðan hann gegndi starfi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrirvara sem átti síðan að fylgja eftir að mig minnir með ferð til Brussel og fá úr því skorið hvaða kröfur Evrópusambandið væri að setja okkur Íslendingum. Það sem mig langaði að fá upplýsingar um er í hverju þessir fyrirvarar voru fólgnir. Hverjir voru þessir fyrirvarar og hvað fólu þeir í sér? Getur hv. þingmaður skýrt það aðeins betur út fyrir okkur? Ég held að það hafi ekki komið ítarlega fram í umræðum um þetta mál hvaða fyrirvarar það voru og hvaða skilyrði hv. þingmaður setti meðan hann gegndi starfi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.