140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:10]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar lokið var rýnivinnu um landbúnaðar- og byggðaþróun spurðist Evrópusambandið fyrir um hvenær og hvernig Ísland ætlaði að aðlaga ramma sinn hvað varðar lögbært stjórnvald, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu og tilnefningar vottunaraðila. Hluti af svari mínu sem ráðherra var að tilgreina að við mundum ekki hefja neinar breytingar á lagaramma, við mundum ekki vinna að undirbúningi að stofnun greiðslustofu, við mundum ekki vinna að tilnefningum vottunaraðila meðan ekki væri búið að semja og greiða atkvæði um það, við mundum ekki fara að vinna að slíkri aðlögun.

Eins og segir í lokasvari sem ég sendi til Evrópusambandsins hvað þetta varðaði, með leyfi forseta:

„Af áðurnefndum ástæðum mun Ísland hvorki hefja undirbúning að skipulags- og lagabreytingum né aðlaga sinn lagaramma fyrr en að lokinni samningagerð takist samningar um aðild og fullgildingu aðildarsamnings að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi og samþykkt hans af samningsaðilum á formlegan hátt.“

Þarna er sem sagt skýrt kveðið á um að við mundum ekki fara í neina slíka vinnu fyrr en — og ef — þetta yrði þá samþykkt af báðum aðilum. Þetta fannst Evrópusambandinu algjörlega óaðgengilegt og krafðist nákvæmari útlistunar á því hvernig við ætluðum þá að vera tilbúin á fyrsta degi til að yfirtaka lög og reglur Evrópusambandsins og starfa innan þess.

Síðan getum við nefnt einstök atriði eins og bann við innflutningi á hráu kjöti, nýsamþykkt lög frá Alþingi sem ekki mundi þýða að bera fram fyrir Evrópusambandið. Það þýddi ekki að bera fram þá tollvernd sem íslenskur landbúnaður nýtur, og reyndar fleiri vörur, o.s.frv. (Forseti hringir.) Þessi skilyrði voru svo sem býsna skýr en ég vildi fá þetta skriflegt frá þeim í Brussel og þess vegna óskaði ég eftir að fá að hitta þá en þeir sluppu fyrir horn í þeim efnum.