140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og nú í andsvarinu voru að því er ég fæ best séð og kom fram í máli hv. þingmanns þau skilyrði og þær spurningar sem settar voru fram af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á þessum tímapunkti fullkomlega eðlilegar. Í framhaldinu urðu að verða ákveðnar breytingar á ríkisstjórn. Hv. þingmanni var kastað út úr ríkisstjórn að kröfu Evrópusambandsins, Evrópusambandið fagnaði þessum ráðuneytisbreytingum. Eftirmaður hans fór síðan ferð til Brussel, þá ferð sem hv. þingmaður átti að fara í. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um hvernig mál hafi þróast í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eftir að hann vék þaðan. Eru sömu kröfur uppi í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í dag og voru þegar hv. þingmaður gegndi því starfi?