140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir. Það kemur fram í þingsályktunartillögunni, og kom fram í ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, 1. flutningsmanns tillögunnar, að það er mjög mikilvægt að Alþingi fái málið í sínar hendur og Alþingi taki málið upp. Þess vegna tók ég það fram í ræðu minni að það er mjög mikilvægt, og vil sérstaklega beina því til hæstv. forseta þingsins, að hún tryggi að þetta mál verði ekki svæft í nefnd með klækjabrögðum, að það verði tryggt að þetta mál verði tekið til skoðunar í utanríkismálanefnd þingsins og að því verði skilað aftur inn í þingið fyrir vorið.

Það á að takast á þeim tíma, frú forseti, því það er það langt þar til þingi verður slitið. Alþingi á að gefast tækifæri fyrir vorið til að taka málið til endurskoðunar, hvort sem það er nákvæmlega sú tillaga sem hér er eða með áorðnum breytingum í utanríkismálanefnd. Málið þarf að komast hingað inn til þingsins og það þarf að taka formlega afstöðu til þess hver pólitísk staða Evrópusambandsumsóknarinnar er, hver stuðningurinn við umsóknina er.

Eins og ég rakti hér áðan þá hafa í það minnsta einn hæstv. ráðherra og annar hv. þingmaður úr stjórnarandstöðuliði að undanförnu verið að viðra skoðanir um breytta afstöðu til þess á hvaða vegferð þetta mál er. Þá veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvort fleiri hv. þingmenn og jafnvel fleiri hæstv. ráðherrar kunni að hafa skipt um skoðun í þessu máli, hafi séð á hvaða villigötum málið er og vilji taka það til endurskoðunar á vettvangi þingsins.