140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur að undanförnu að eigin sögn unnið að því að hægt verði að afnema hér gjaldeyrishöft en til stendur að afnema þau á næsta ári. Til að svo megi verða verða menn að vilja eiga krónur, vera tilbúnir að halda hér krónueign í stað þess að nota fyrsta tækifæri til að skipta öllum krónum í erlenda mynt. Það hefur hins vegar ekki gengið nógu vel hjá ríkisstjórninni að vinna að afnámi hafta og sést best á því að nú er enn verið að herða á höftunum.

Það sem er þó hvað alvarlegast í þessu er að hjá ríkisstjórninni og í yfirlýsingum ráðherra, m.a. hæstv. forsætisráðherra, birtist ekki neinn vilji til að afnema höftin. Þvert á móti má segja að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu hvað eftir annað að eyðileggja möguleikana á því að höft verði afnumin. Yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra fyrir nokkrum dögum um að gjaldmiðill landsins væri ónýtur eru með stökustu ólíkindum. Að forsætisráðherra lands skuli halda slíku fram um eigin gjaldmiðil hlýtur að vera einsdæmi í heiminum öllum og því miður er hæstv. forsætisráðherra ekki sá eini sem hefur gefið út slíkar yfirlýsingar. Það hafa aðrir ráðherrar gert.

Telja menn að þegar forsætisráðherra lands segir eigin gjaldmiðil ónýtan sé það til þess fallið að auka trú á gjaldmiðlinum, gera menn líklegri til að vilja halda krónueignum, þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja að þeir geri ekki ráð fyrir að hægt verði að standa við fyrirheit um afnám gjaldeyrishafta og að hér verði líklega gjaldeyrishöft um ókomna tíð af því að gjaldmiðillinn sé ónýtur? Telja menn að það hjálpi íslenskum heimilum, dragi úr verðbólgu, styrki gengið eða geri það sem ríkisstjórnin hefur því miður verið að gera frá því að hún tók við, haldi áfram að skerða kjör íslenskra heimila og gera stöðu landsins verri?