140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Rót krónukreppunnar er að virði eigna þjóðarinnar er mun minna en virði skuldbindinga hennar. Lausn stjórnarflokkanna á vandanum er að herða höftin og taka upp evru. Höftin magna upp vandann og upptaka evrunnar lagar ekki þetta ójafnvægi. Höftin virka eins og virkjun sem lokar á útstreymið og bak við hana safnast upp uppistöðulón peninga á leið úr landi. Stöðugt þarf að herða höftin til að varna leka og sífellt erfiðara verður að standa við skuldbindingar okkar.

Tillaga mín um skatt á útstreymi fjármagns var strax slegin út af borðinu. Skatturinn hefði aflað ríkinu mikilla tekna og minnkað snjóhengjuna strax. Kostnaður okkar af gjaldeyrishöftum er gífurlegur og brýnt að afnema þau. Lausn stjórnarflokkanna er upptaka evrunnar án þess að nokkur hafi fengið upp úr þeim á hvaða gengi eða hvort skipt verði um gjaldmiðil með nokkrum skiptigengisleiðum. Gengi krónunnar mun hafa áhrif á það hvort þjóðin fari fátæk eða rík inn í Evrópusambandið.

Þegar ójafnvægi ríkir í hagkerfinu milli virðis eigna og skuldbindinga þjóðarinnar verður að skrifa niður skuldir. Ef ekki verður gripið til þessarar aðgerðar við upptöku evrunnar mun þeim fjölga gífurlega sem fara í þrot.

Frú forseti. Ríkisstjórn sem tekur upp annan gjaldmiðil án þess að leiðrétta ójafnvægið í hagkerfinu leiðir þjóðina í þrot.