140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gaman að heyra hversu mikla trú framsóknarmenn hafa á forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem að sögn þeirra talaði, eftir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar um síðustu helgi, krónuna niður. (REÁ: Hún er forsætisráðherra, hvort sem okkur líkar betur eða verr.) (Gripið fram í: Hefur þú ekki …?) Ég held að tími sé til kominn að Framsóknarflokkurinn fari að horfast í augu við veruleikann [Kliður í þingsal.] en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var að lýsa honum. Hún sagði: Það eru tveir kostir í stöðunni, annars vegar einhliða upptaka nýs gjaldmiðils og hins vegar að þjóðin taki þá ákvörðun að ganga í Evrópusambandið og taka upp nýja mynt, þ.e. evru.

Samþykki þjóðin aðild að Evrópusambandinu getur hún strax gengið inn í ERM II samstarfið og um leið tengt gengi krónu við evru (Gripið fram í.) með stuðningi Evrópska seðlabankans. Það er ekki svo langt þangað til, taki þjóðin þá afstöðu að segja já. Einhliða upptaka er á hinn bóginn ansi slæmur kostur því að þá þyrfti að nota skuldsettan forða ríkisins af evrum og dollurum til að kaupa upp krónur Íslendinga og svo þyrfti að koma verðlausu krónuseðlunum fyrir kattarnef. Það er mjög dýr leið.

Forsætisráðherra var þarna fyrst og fremst að lýsa þeim veruleika sem Íslendingar horfa fram á í dag og ég held að það sé kominn tími til að Framsóknarflokkurinn fari að opna augun og átti sig á þeirri stöðu sem heimilin standa frammi fyrir. [Kliður í þingsal.] Ef ég man rétt setti Framsóknarflokkurinn fyrir tíu dögum á ráðstefnu um það hvort Íslendingar ættu að taka upp einhliða kanadískan dollar. Voru framsóknarmenn þá að tala krónuna upp eða niður, bara svo það sé á hreinu? (Gripið fram í: Þetta er rangt.)

Hér er haldið uppi fölsku gengi krónunnar. Ef ekki væru höft mundi krónan sökkva eins og steinn með tilheyrandi verðbólguskoti fyrir hin íslensku heimili sem eru nú þegar í erfiðri stöðu. Þess vegna tel ég mikilvægt að við förum að horfast í augu við veruleikann, stjórnmálamenn sem hér eru staddir inni, og förum að átta okkur á því að í raun og veru þurfum við að hafa skýra valkosti til handa þjóðinni til að taka afstöðu til þess hvaða framtíðarmöguleikar gefist, hvort sem það er einhliða upptaka nýrrar myntar eða við tökum upp evru í samstarfi (Forseti hringir.) við Evrópusambandið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (SER: Skýra framtíðarsýn.) (Gripið fram í: Það er rétt.) (LMós: Evran leysir engan vanda.)