140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Út af orðum síðasta hv. ræðumanns er rétt að rifja upp að sumarið 2009 voru hann og ýmsir flokksfélagar hans þeirrar skoðunar að það mundi laga ástandið þegar í stað að sækja um aðild að Evrópusambandinu (Gripið fram í: Það … rangt.) þannig að við getum metið stöðuna hvað það varðar. (Gripið fram í.) Það átti að gerast varðandi krónuna, gengið átti að lagast svo mikið við það eitt að senda aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Rifjum það upp.

Það er annar flötur á efnahagsmálunum sem ég ætla að fjalla um hér í dag, hv. þingmenn, það eru atvinnumálin. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnir eða stjórnvöld, Alþingi, eigi í sjálfu sér ekki að skapa ný störf en stjórnvöld og Alþingi eiga að stuðla að því að ný störf geti orðið til. Við höfum stöku sinnum fengið yfirlýsingar hér í þinginu um að þetta væri allt að batna, staðan í atvinnumálunum væri alveg að batna vegna þess að skráðum atvinnulausum fer fækkandi. Í morgun kom skýrsla Hagstofu Íslands um stöðu vinnumarkaðar í febrúar. Ég skora á hv. þingmenn að lesa þá skýrslu. Hún sýnir ýmsar athyglisverðar staðreyndir.

Í fyrsta lagi fer atvinnuþátttaka í landinu enn minnkandi. Það eru færri á vinnumarkaði en áður. Þeir sem eru utan vinnumarkaðar eru fleiri en áður, þar er um að ræða aukningu frá ári til árs. Fjöldi þeirra sem hafa vinnu stendur nokkurn veginn í stað milli febrúar 2011 og 2012. Niðurstaðan: Störfum er ekkert að fjölga. Lægri atvinnuleysisskráning sýnir því miður ekki (Forseti hringir.) bætt ástand í atvinnumálum, því miður ekki, það eru aðrar ástæður og aðrar skýringar sem valda því að sá mælikvarði lítur betur út en áður. (Gripið fram í: Rétt.)