140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og oft áður er búið að ræða eitt og annað undir þessum lið. Fyrsti ræðumaður dagsins var formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, sem ræddi hér af mikilli innlifun um skuldavanda heimilanna og vilja sinn til að koma til móts við þau og ég deili þeim vilja með hv. þingmanni. Ég vil því hvetja þingmanninn, hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, til þess að beita sér fyrir því að hraða frumvarpi sem er einmitt á hans borði, á borði nefndarinnar, sem við sjálfstæðismenn lögðum fram fyrr á þessu þingi og ber heitið Frumvarp til laga um ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð. Ef hv. þingmaður, sem ég trúi að hafi góðan vilja til að taka á þeim vanda, vill gera eitthvað í málinu sem virkar strax hefur hann þarna til þess tæki og tól. Við þurfum ekki annað en fylgjast með fréttum, síðustu daga og síðast í gær hækkuðu olíufélögin eldsneytið um 5 kr. á lítra og það sér hver maður að þegar bensínverð er komið í hæstu hæðir ber okkur skylda til að bregðast við og reyna að koma heimilunum og fyrirtækjunum í landinu til bjargar. Í þessu tilfelli höfum við tæki sem mun ekki leysa allan stóra vandann, ég geri mér algjörlega grein fyrir því, en þetta er tæki sem heimilin í landinu, og sérstaklega úti á landsbyggðinni sem hafa ekki um annað að velja en einkabílinn í mörgum tilfellum, munu finna fyrir strax plús það eins og við þekkjum að þetta hefur strax áhrif á verðtrygginguna og þau verðtryggðu lán sem heimilin í landinu berjast í bökkum með. Ég hvet því (Forseti hringir.) hv. þm. Helga Hjörvar til að setja þetta mál á dagskrá næsta fundar efnahags- og viðskiptanefndar og okkur á þinginu til að sameinast um að afgreiða það.