140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði, það er nauðsynlegt að í íslenskum stjórnmálum sé hægt að eiga efnisleg samtöl um það sem máli skiptir. Þá skiptir auðvitað máli að menn vandi sig í framsetningu þess sem þeir segja. Þá skiptir líka máli að á lokuðum nefndarfundum þar sem menn eru að ræða sín á milli sé ekki einn nefndarmaður með beina útsendingu á fésbók af því sem þar er í gangi. Það hlýtur hver maður að sjá. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að eiga í slíkum samtölum og það er það sem við erum að kalla eftir. Látum vera að hér fjúki eitt og annað uppnefni sagt í góðlátlegum stíl af hv. þm. Sigmundi Davíð. Ég ætla ekki að erfa það við hann. Það er hins vegar ekki umræðunni til framdráttar að nota slíkan munnsöfnuð þegar verið er að ræða efnislega um mál. (VigH: Málinu var lokið. Þú varst á þessum fundi.)