140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég vil segja um þennan lið að ég tel að forseti þingsins hafi tekið rétta ákvörðun í gær, sérstaklega ef maður horfir til þess sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði í viðtali við Bylgjuna í gær, með leyfi frú forseta:

„Að sjálfsögðu setur maður einn og einn gullmola inn á Facebook-síðuna hjá sér þegar maður er með svona stórfréttir.“

Ég segi við þingheim og það er mín skoðun að ef gestir á lokuðum nefndarfundum geta ekki treyst því að trúnaður ríki á því sem þeir segja þar inni erum við í vanda stödd (VigH: Ég gerði það ekki.) og þá munum við (Gripið fram í.) ekki fá það út úr nefndarstarfinu sem við þurfum. Við þurfum að fá upplýsingar frá fólki sem það gefur okkur um þá stöðu mála sem ríkir. Við þurfum að geta tekið vandaðar ákvarðanir og þess vegna verðum við að virða þann trúnað sem á að ríkja um nefndarstörf og þess vegna var þetta brot sem átti sér stað í gær, því miður. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Þetta er ekki sanngjarnt.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)