140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

netfærsla af nefndarfundi.

[15:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í 19. gr. þingskapa segir að óheimilt sé að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi. Ekkert af þessu var gert í títtnefndri Facebook-færslu og ég hvet þá sem hér hafa haldið öðru fram að lesa færsluna. Í fyrsta lagi er hvorki vitnað til einstakra nefndarmanna né gesta. Í öðru lagi er ekki verið að fjalla um efnislega afstöðu einstakra gesta sem voru á fundinum heldur er þingmaðurinn einfaldlega að lýsa upplifun sinni af fundinum.

Ég ætla að biðja þá þingmenn sem oft eru með tölvur sínar og annað uppi á nefndarfundum að velta aðeins fyrir sér hvort þeir hafi ekki sent tölvupósta eða farið á Facebook og póstað einhverju meðan þeir eru á fundum. En þingsköp voru ekki brotin samkvæmt þessari grein, (Forseti hringir.) það er alveg ljóst, og þau orð sem hér hafa fallið í dag og í gær eru ósönn, því miður, og það er verið að hafa þingmanninn (Forseti hringir.) fyrir rangri sök.