140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[16:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um að auka upplýsingaskyldu stjórnvalda við almenning og um leið að efla frumkvæðis- og viðbragðsskyldu opinberra eftirlitsaðila þegar frávik verða við losun mengandi efna og lífi og heilsu fólks er stefnt í hættu.

Þetta er mjög mikilvæg breyting á upplýsingarétti í umhverfismálum, breyting til bóta hvað varðar möguleika fólks til að taka upplýstar ákvarðanir um búsetu og athafnir og að varðveita þar með lífsgæði sín og heilsu á grundvelli upplýsinga. Nú þurfa opinberir aðilar og stjórnvöld ekki að velkjast í vafa um það lengur, verði þetta að lögum, hvort þeim beri að upplýsa almenning um það sem þeir vita, þ.e. þegar hætta stafar af mengun, heldur ber þeim héðan í frá að greina frá vitneskju sinni. Á þetta hefur reynt í ömurlegum málum sem upp hafa komið á síðustu missirum.

Ég tel (Forseti hringir.) að þetta sé mjög þarft skref sem hér er verið að stíga og vænti þess að Alþingi Íslendinga samþykki þetta eins og því ber. (Gripið fram í: Allt upp á borðið …)