140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:38]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um heildstæða rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn, sem er mjög gott skref. Eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gat um erum við hér að feta í fótspor nágrannaþjóða okkar sem við berum okkur saman við. Markmiðið með þessari rammalöggjöf er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn og tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur til heilbrigðisstarfsmanna og gera ákvæðin markvissari og hnitmiðaðri. Við í 1. minni hluta viljum leggja áherslu á að engin stétt verði tiltekin sérstaklega. Við erum hér að samþykkja rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn og viljum, eins og nágrannaþjóðir okkar, ganga það skref að tiltaka enga sérstaka heilbrigðisstétt vegna þess að önnur lög tryggja réttindi og skyldur bæði starfsmanna og sjúklinga fullkomlega. Ég legg því til að við samþykkjum breytingartillögur (Forseti hringir.) 1. minni hluta.