140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

raforkulög.

409. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum sem felast í virkjunarframkvæmdum í neðri hluta Þjórsár, þeim virkjunarkostum sem þar eru til staðar.

Áður en ég kem beint að frumvarpinu langar mig aðeins að hafa aðdraganda í ræðu minni að stöðunni og framtíðarhorfum á þessum markaði og í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar og styðst ég þar mikið við upplýsingar meðal annars úr framtíðarskýrslu Landsvirkjunar.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun er nýtanleg orka í vatnsafli um það bil 64 teravattstundir á ári en í háhita um 20 teravattstundir á ári eða samtals um 84. Vegna verndunarsjónarmiða verður þó aðeins hluti af þessu virkjanlega afli notað og virkjað en það má segja að nú þegar séu virkjuð um 20% af því þannig að 20% af þessari orku eru nýtt.

Miðað við framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er áætlað að virkjuð verði um 55% í vatnsafli og 45% í jarðgufu og að orkuframleiðslan verði aukin um 7 teravattstundir á árunum 2011–2021. Til viðbótar yrði framleiðslan síðan aukin um 4 teravattstundir árin 2021–2025, þ.e. á ári.. Þetta felur í sér tvöföldun orkuframleiðslu Landsvirkjunar á 15 ára tímabili eða aukning úr 12 í 23 teravattstundir og þar með yrði heildarraforkuframleiðslan í landinu komin í um 32 teravattstundir miðað við 17 í dag.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar yrðu fjárfestingar vegna þessara orkumannvirkja og samhliða uppbyggingu í iðnaði í þeim fyrirtækjum sem mundu kaupa þessa orku um 960 milljarðar til ársins 2020 og næðu hámarki á árunum 2015–2019 eða um 120 milljarðar á ári. Til samanburðar er talið að heildarfjárfesting í virkjun á Kárahnjúkum og álveri á Reyðarfirði hafi verið um 270 milljarðar á árunum 2004–2007 sem skiptist í því tilfelli nokkuð jafnt á milli virkjunar og vers. Miðað við þær forsendur mun fjárfesting í orku og iðnaði ásamt afleiddum áhrifum bæta samtals að meðaltali um 1,4% við hagvöxt á ári til ársins 2017.

Framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar byggir á rammaáætlun og er í góðri sátt við þau drög að henni sem voru lögð fram á síðasta ári eins og hún kom fram frá þeim sérfræðingum sem hana höfðu unnið á undanförnum árum. Virkjunarkostir eru vel skilgreindir og áætlað er að raforkuframleiðslan byggist upp jafnt og þétt þegar nýjar virkjanir komast í gagnið. Virkjunarkostir eru nokkuð smáir hver um sig í samanburði við margt annað sem við höfum ráðist í og því er hægt að stýra framkvæmdahraða og tímasetningum, m.a. með tilliti til stöðu hagkerfisins hverju sinni og aðgangi að fjármögnun á ákjósanlegu verði.

Því er oft velt fyrir sér, virðulegi forseti, hver áhrifin geti orðið af þessu í hagvexti og í almennu efnahagsástandi skiptir það höfuðmáli þegar hagvaxtaráhrif nýrrar fjárfestingar eru metin en hagvaxtarhvati af völdum stórfjárfestinga þarf ekki að skila sér alltaf að öllu leyti í raunverulegum hagvexti. Stundum geta áhrifin jafnvel verið neikvæð fyrir efnahagslífið. Almennt efnahagsástand eða staða hagsveiflunnar á hverjum tíma skiptir höfuðmáli þegar hagvaxtaráhrif stórfjárfestinga eru metin. Ef fjárfestingin á sér stað við fulla framleiðslu hagkerfisins eða jafnvel þenslu og vinnuaflið er þegar fullnýtt munu nýjar framkvæmdir aðeins taka fólk frá öðrum atvinnugreinum en ekki fjölga störfum í efnahagslífinu nema því aðeins að erlent vinnuafl sé flutt til landsins. Þá eru afleidd áhrif fjárfestingarinnar í raun og veru ruðningsáhrif sem hafa neikvæð áhrif á hagvöxt þegar litið er til lengri tíma. En ruðningsáhrif felast í þenslu á vinnumarkaði, launahækkunum umfram framleiðni og í framhaldi verðbólgu, vaxtahækkunum og styrkingu krónunnar. Við höfum svo sem reynslu af þessu frá fyrri árum þegar farið var í stórframkvæmdir á sínum tíma, nauðsynlegar stórframkvæmdir fyrir austan til að efla útflutningsverðmæti þjóðarinnar, en á sama tíma var mikil þensla á íbúða- og atvinnuhúsnæðismarkaði í landinu sem skapaði þá þenslu sem við erum hér að ræða um.

Ef hins vegar er samdráttur og atvinnuleysi til staðar og framleiðsluþættir hagkerfisins eru ekki fullnýttir munu fjárfestingarútgjöldin leggjast óskoruð til hagvaxtar án ruðningsáhrifa. Ýmis afleidd áhrif, margföldunaráhrif, munu þá einnig í framhaldi skapa umtalsverðan þjóðhagslegan bata þegar ný verkefni skapast fyrir vinnandi hendur er ella væru atvinnulausar. Sú er einmitt raunin núna. En miðað við þann slaka sem nú ríkir í þjóðarbúskapnum munu ruðningsáhrif vegna framkvæmda, miðað við framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar, verða takmörkuð og hagvaxtarhvatinn verður raunverulegur við þann mikla framleiðsluslaka sem er og verður samkvæmt áliti Seðlabankans meðal annars í hagkerfinu á næstu árum.

Um leið og framkvæmdum lýkur við slíkt átak í uppbyggingu orkumannvirkja sem hér er lýst munu verksmiðjur og orkuver taka til starfa og rekstur þeirra skila langvinnum áhrifum inn í efnahagslífið. Ef sú forsenda er gefin að sú iðnaðaruppbygging verði að mestu leyti á svipuðum nótum og verið hefur, þ.e. með vexti í orkufrekri stóriðju, er hægt að áætla hagvaxtaráhrif af nýjum rekstri samhliða margföldunaráhrifum af kaupum þessara fyrirtækja á innlendum framleiðsluþáttum öðrum en raforku. Ef sá áliðnaður sem þegar er starfandi hérlendis er notaður til að meta rekstraráhrif frá orkusæknum iðnaði eru innlendir liðir líklega um 30–40% af rekstrarkostnaði. Ljóst er því að áhrifin munu hafa mjög jákvæð áhrif á hagvöxt og allt efnahagslíf okkar.

Á tímum ákvarðana og uppbyggingar Kárahnjúkavirkjunar voru raddir andstæðinga virkjunarinnar háværar og fullyrt var að almenningur þyrfti að greiða fyrir mannvirkið með hærri orkureikningum til lengri framtíðar. Það sjá allir í dag hversu fáránleg sú umræða var og ekki þarf að fara mörgum orðum um að hér væri ástandið óbærilegt ef ekki hefði verið ráðist í þá miklu verðmætasköpun eða ef í dag nyti ekki þeirrar miklu verðmætasköpunar sem sú framkvæmd hafði í för með sér í samfélagi okkar.

Uppbygging í orkuframleiðslu og stóriðju hefur skilað gríðarlegum áhrifum á íslenskt efnahagslíf. Einn meginbati fjárfestinga bæði í virkjunum og stóriðju felst í sköpun umsvifa og starfa á samdráttarskeiðum með bæði beinum og afleiddum hætti. Á framkvæmdatíma samkvæmt framkvæmdaskýrslu Landsvirkjunar geta framkvæmdir í orku og iðnaði skilað um 1.000–2.000 störfum á hverju ári. Þegar mest verður munu um 11.000 manns hafa starfa af þessum framkvæmdum.

Hér á landi hefur myndast töluverð starfsemi í aðfangaiðnaði í kringum orku og iðnað, bæði á framkvæmdatíma sem og rekstrartíma. Það má nefna til dæmis að um 1.300 manns starfa á verkfræðistofum á Íslandi og rúmlega þriðjungur þeirra vinnur að orku- og iðnaðartengdum verkefnum. Þekking og reynsla íslenskra verkfræðinga af virkjunarframkvæmdum, hvort sem er vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir, hefur aukist ár frá ári og svo má segja að myndast hafi vaxandi klasi þar sem íslenskar verkfræðistofur eru farnar að sinna verkefnum utan landsteinanna og þannig hafið raunverulegan útflutning á orkuþekkingu landsmanna.

Metið er að íslenskar verkfræði- og jarðvísindastofur hafi haft hátt í 2 milljarða í erlendar tekjur árið 2010. Aukin þekking og tækni hefur líka þróast í kringum þjónustu við álverin til dæmis og er nú svo komið að íslenskar verkfræðistofur sem og önnur fyrirtæki flytja út þekkingu og vörur tengdar álverum. Það er því ljóst að áframhaldandi fjárfestingar í iðnaði og stóriðju munu styðja við þá klasamyndun sem hefur verið að þróast mjög öflugt á undanförnum árum sem felur í sér sjálfstæða verðmætasköpun með íslensku hugviti við hliðina á þeim verkþáttum sem við erum að tala hér um.

Efnahagslegur ábati sem felst í orkufjárfestingum ásamt samhliða fjárfestingum tilvonandi raforkukaupenda í iðnaði er tvíþættur, annars vegar aukin efnahagsleg umsvif og sköpun starfa á krepputímum og hins vegar aukin framleiðni í íslenska hagkerfinu.

Miðað við rekstraráætlun Landsvirkjunar sem unnið er eftir mun arðgreiðslugeta fyrirtækisins verða töluverð í framtíðinni ásamt stórauknum tekjuskattsgreiðslum þegar framkvæmdatímabili lýkur árið 2025. Þannig reiknar Landsvirkjun með því, að gefnum ákveðnum forsendum um þróun raforkuverðs sem á sér stað sérstaklega í Evrópu í dag, að hagnaður og arðgreiðslur fyrirtækisins eftir árið 2025 til íslenska ríkisins geti numið um 100 milljörðum kr. — eitt hundrað milljörðum króna. Fullyrt er í þessari skýrslu að ekki sé tekið djúpt í árinni, heldur séu menn með mjög varlegar áætlanir. Við getum sett þetta í samhengi við öll umsvif í okkar samfélagi. Þetta er mun meira en tekjuskattur af launum landsmanna. Þetta eru alveg gríðarlegar upphæðir og það er hægt að nýta þær til margra samfélagslegra þátta. Við getum séð fyrir okkur hvaða áhrif þetta getur haft á afkomu heimila, t.d. með því að lækka skatta. Hvað við getum aukið alla velferðarþjónustu í landinu. Þetta styður við bakið á því að veita hér þá bestu samfélagsþjónustu sem völ er á, sem er auðvitað framtíðarmarkmið okkar allra sem horfum til framtíðar Íslands. Við viljum skapa mannvænt samfélag sem býður upp á alla helstu og bestu samfélagsþætti sem við viljum hafa í lagi, eins og menntakerfi, heilbrigðiskerfi og traust félagskerfi fyrir eldri borgara og öryrkja í þessu landi.

Það mun verða mikill hagvöxtur í kringum þessa framleiðslu, mikil verðmætaaukning í framtíðinni. Það getur skapast fjölbreyttur iðnaður. Menn þurfa ekki að horfa eingöngu til álvera eins og við höfum í raun byggt okkar orkubúskap eða orkusölu á. Að stórum hluta höfum við byggt það upp á sölu til álvera. Aðstæður hafa breyst. Við erum komin á annan stað í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu 50 árum. Allir eru sammála um það sem skoða söguna að sú stefna sem rekin var af hálfu Landsvirkjunar á sínum tíma hafi verið kórrétt, þ.e. að við urðum að leita að fáum og stórum raforkukaupendum. Það var nauðsynlegt til að geta ráðist í þær miklu grunnframkvæmdir sem við búum að í dag, bæði í dreifikerfi og raforkuframleiðslu. Til þess þurftum við trausta kaupendur til langs tíma sem voru tilbúnir að kaupa af okkur orkuna til lengri tíma. Þannig gátum við fengið fjármögnun á tiltölulega hagstæðu verði. Sumar af þessum fjárfestingum eru búnar að borga sig upp og virka sem prentvélar inn í íslenskt samfélag. Þannig yrði um þessar virkjanir að þær borga sig upp á tiltölulega skömmum tíma. Þannig munu arðgreiðslur Landsvirkjunar bara aukast mjög frá því sem verður árið 2025 þegar fyrirtækið verður náttúrlega enn skuldsett eftir allar þessar framkvæmdir en mun samt geta greitt, samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir, um 100 milljarða til íslensks samfélags.

Þá er ótalin sú framkvæmd að leggja sæstreng til Evrópu sem er mjög áhugavert verkefni og er tímabært að fara að horfa til og leggja grunn að, a.m.k. að skoða alla fleti þess og hefja undirbúninginn. Það er ljóst að þar er um mikla hagsmuni að ræða. Þar erum við að nýta þá afgangsorku sem er til í kerfinu. Þar mun skapast vettvangur fyrir öðruvísi orkuframleiðslu en við eigum að venjast í dag, t.d. á vindorku og rekstrarforsendur fyrir smærri virkjunum þar sem þær geta selt inn á hinn samevrópska markað. Þetta mun ekki hafa áhrif á atvinnusköpun eða atvinnutækifæri á Íslandi vegna þess að svo lítill hluti orkunnar sem færi erlendis kæmi frá þeim virkjunum sem eru inni í þessu framkvæmdaplani, þ.e. fyrir utan þá viðbótarorku sem alltaf er til í kerfinu vegna þess að raforkukerfi okkar er lokað. Það skapar einnig mikið öryggisnet fyrir raforkudreifingu okkar og afhendingu raforku vegna þess að ef hér koma upp áföll getum við auðvitað tekið raforku frá Evrópu til Íslands, ef sú staða kynni að koma upp.

Það er gríðarlega mikilvægt að við reynum að endurheimta íslenska hagkerfið og koma því á lappirnar. Þær framkvæmdir sem hér er verið að tala um koma á tímum eins mesta slaka sem um getur í hagkerfinu og sögulega hæsta atvinnuleysi á Íslandi svo áratugum skiptir. Það er því í öllu tilliti mikilvægt að nýta þær orkuauðlindir sem eru til staðar á Íslandi á sem arðbærastan hátt. Framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar miðar að því að ná betri stöðu í framtíðinni og að Ísland njóti sem mests ábata af þessari þjóðareign sinni.

Ef við komum okkur saman um rammaáætlun mun margt geta breyst í okkar ytra umhverfi. Þar værum við að sýna þjóðum, nágrannaþjóðum okkar, áætlun um fjárfestingar á Íslandi til lengri tíma. Það er augljóst að slík framkvæmdaáætlun er eiginlega dæmd til þess að ganga upp vegna þess að eftirspurnin eftir þeirri grænu raforku sem við framleiðum gerir ekkert annað en aukast. Ef við erum komin með raunhæft framkvæmdaplan sem sátt er um í samfélaginu að stærstum hluta mun það væntanlega hafa áhrif á vaxtakjör Íslendinga erlendis. Það mun bæta lífskjör hér strax og við getum gengið frá slíkri framtíðarsýn.

Það er því þyngra en tárum taki, virðulegi forseti, að staða rammaáætlunar skuli vera í þeim farvegi sem raun ber vitni. Og mikil er ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna, ríkisstjórnarinnar og þeirra þingmanna sem hana styðja, að vera búin að koma þessari mikilvægu vinnu og mikilvægu sátt sem unnið var að með mjög faglegum hætti í uppnám. Það er einmitt vegna þeirrar ástæðu sem við sjálfstæðismenn leggjum fram þetta frumvarp. Það er nauðsynlegt að taka af skarið, hefjast handa og snúa vörn í sókn. Það verður enginn alvörubati í efnahagslífi Íslands nema til komi nýting á orkuauðlindunum. Góður gangur í ferðaþjónustu og þær framkvæmdir sem við horfum til og þær atvinnugreinar, góður gangur í sjávarútvegi sem við erum með í dag og vonandi auknar fjárfestingar á þeim vettvangi, dugar ekki til til að skapa þann hagvöxt sem nauðsynlegur er til að vinna okkur út úr því alvarlega efnahagsástandi sem þjóðin er í. Og ekki er hægt að horfa á það öðruvísi en staðreynd að orkuauðlindirnar munu verða lykillinn að því að skapa hér þann hagvöxt sem við þurfum og þess vegna verðum við að hefjast handa.

Eins og ég sagði er það á þeirri forsendu sem við nokkrir sjálfstæðismenn leggjum fram þetta frumvarp, sem gerir ráð fyrir því að hefja framkvæmdir við virkjanir í neðri hluta Þjórsár og taka ákvörðun um það strax á þessu ári.

Frumvarp sama efnis var flutt á 139. löggjafarþingi en varð ekki afgreitt. Umsagnir bárust frá meðal annars Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Sól á Suðurlandi og Vegagerðinni.

Það kemur meðal annars fram í þeim umsögnum að Orkustofnun hafi, með erindisbréfi ráðherra frá 10. júlí 2008, verið falið að fara með leyfisveitingarvald ráðherra samkvæmt ákvæðum laganna, þar með talið veitingu virkjunarleyfis. Með frumvarpinu er lagt til að þrátt fyrir það fyrirkomulag skuli ráðherra veita Landsvirkjun virkjunarleyfi til að ráðast í gerð þriggja virkjana sem eru Hvammsvirkjun, sem mun framleiða um 82 megavött, Holtavirkjun 53 megavött, Urriðafossvirkjun 130 megavött, í þeim tilgangi að efla atvinnulíf í landinu, á sunnanverðu landinu kannski fyrst og fremst. Við erum að horfa til virkjunarframkvæmda á norðanverðu landinu en ég hef lagt á það áherslu í allri minni umræðu um uppbyggingu á orkufrekum iðnaði að okkur beri skylda til þess að horfa fyrst og fremst til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni sem hefur setið allt of mikið eftir og þar sem breyttir atvinnuhættir í sjávarútvegi og landbúnaði hafa haft þau áhrif á byggðaþróun sem raun ber vitni. Þessi áform um virkjanir hafa þegar uppfyllt öll skilyrði umhverfissjónarmiða og hagkvæmnissjónarmiða. Virkjanirnar hafa þegar farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum án athugasemda, verið í tvígang settar í rammaáætlun og komið vel út í bæði skiptin, eru fjárhagslega hagkvæmar og munu styrkja mjög íslenskt atvinnulíf.

Sterk rök hníga að því að rétt sé að fullnýta tiltekið svæði áður en haldið er inn á ný svæði. Fjárfestingarstofa hefur lýst því yfir að fjöldamörg verkefni séu í undirbúningi, t.d. á sviði gagnavera og smærri iðnaðar. Landsvirkjun tilkynnti 9. nóvember 2007 að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að orkan úr neðri hluta Þjórsár ætti að fara til annarra verkefna en stóriðju. Í tilkynningunni segir:

„Stjórn Landsvirkjunar telur mikilsvert að fyrirtækið fái sem hæst verð fyrir raforkuna, dreifi áhættu og auki fjölbreytni viðskiptavina sinna. Landsvirkjun hefur því ákveðið að hefja viðræður um raforkusölu við fyrirtæki sem hyggjast byggja upp netþjónabú á Íslandi. Einnig eru í undirbúningi viðræður við fyrirtæki á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala. Ekki er enn hægt að greina frá því hver þessi fyrirtæki eru. Líkleg staðsetning þessarar starfsemi verður á Suðurlandi og Reykjanesi.“ — Við vitum í dag að það er fyrirhugað að byggja eitt slíkt upp í Þingeyjarsýslum einnig. — „Áhersla Landsvirkjunar á netþjónabú og sólarkísil byggist á því að vænta má hærra raforkuverðs í þeim viðskiptum en við aðra stórkaupendur. Landsvirkjun mun þess vegna ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi.“

Þetta sagði stjórn Landsvirkjunar árið 2007. Mikið hefur breyst í íslensku efnahagslífi og staðan er allt önnur nú en haustið 2007 og það er brýnna en nokkru sinni fyrr að tryggja orku til fjölbreyttra verkefna eins og vísað er til í framangreindri samþykkt stjórnar Landsvirkjunar. Mikilvægt er að Landsvirkjun endurskoði þessa samþykkt frá árinu 2007 og líti til allra mögulegra kosta þegar kemur að sölu raforku frá þessum svæðum. Landsvirkjun verður eins og aðrir að endurmeta stöðu sína í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem aukið atvinnuleysi hefur á samfélagið. Allra leiða verður að leita til að vinna bug á því þjóðarböli sem atvinnuleysi er. Augljóst er að ekki verður farið í uppbyggingu verkefna í orkufrekum iðnaði á sunnanverðu landinu nema orka frá Þjórsá sé tryggð.

Það segir hér í greinargerð með frumvarpinu að ríkisstjórnin hafi ekki enn komið sér saman um hvernig haga skuli orkunýtingu í landinu þrátt fyrir að hafa kveðið á um eftirfarandi í stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009: „Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, samanber þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, svo sem gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.“

Hindranirnar erum við að horfa á núna, virðulegi forseti. Hindranirnar felast í því að ríkisstjórnin er að gera breytingar á rammaáætlun sem framvæmdaáætlun Landsvirkjunar, sem ég fór hér yfir áðan, byggir á.

Þann 29. janúar 2010 synjaði umhverfisráðherra skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár staðfestingar. Annars vegar var um að ræða tillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps um breytingu á aðalskipulagi hreppsins og hins vegar aðalskipulag Flóahrepps 2006–2018, en ráðherra samþykkti skipulagið að öðru leyti en því sem laut að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Þessar ákvarðanir ráðherra höfðu alvarlegar afleiðingar á áform um þessar virkjanir. Í ljósi hæstaréttardóms nr. 579/2010 þar sem ákvörðun ráðherra var ógilt er nauðsynlegt og eðlilegt að Alþingi taki af allan vafa í málinu og kveði á um virkjun neðri hluta Þjórsár, enda hníga öll rök að því að ráðist verði í framkvæmdirnar sem fyrst.

Atvinnuleysi er mikið og vaxandi atvinnuleysi er nú um stundir en það sem kannski ber fyrst og fremst að horfa til eru þó fækkandi störf. Þá hafa þúsundir manna flust burt af landinu. Það er brýnt að sporna við þessari þróun með öllum tiltækum ráðum og skynsamleg nýting orkuauðlindanna, eins og ég kom inn á áðan, er þar mikilvægasta lóðið á vogarskálarnar. Aðilar vinnumarkaðarins kalla mjög eftir því að ákvarðanir verði teknar á þessu sviði og síðast á þessu ári hvatti miðstjórn Alþýðusambands Íslands til þess að áfram verði haldið í orkunýtingu.

Því er gjarnan haldið fram, virðulegi forseti, og það hefur heyrst í umræðunni núna að það sé allt í lagi að setja virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár á bið vegna þess að aðrir virkjunarkostir séu tilbúnir sem við getum snúið okkur að. Það er ekki raunin, virðulegi forseti, staðan er einfaldlega sú, eins og kemur fram í þessu frumvarpi, að virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár eru þeir einu hjá Landsvirkjun sem eru búnir að fara í gegnum það ferli, undirbúningsferli sem þarf að fara fram áður en hægt er að hefja framkvæmdir. Það verður því augljóslega mikil töf á því að farið verði af stað, a.m.k. af hálfu Landsvirkjunar, ef þær hugmyndir sem heyrast verða að veruleika að virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár verði settir í svokallaðan biðflokk í rammaáætlun þegar hún verður lögð fram.

Auðvitað eru aðrar virkjanir tilbúnar á Suðurlandi eins og Hagavatnsvirkjun og virkjanir austur í Skaftafellssýslum, þær eru komnar langt í undirbúningsvinnu, en þessir virkjunarkostir voru í drögunum að rammaáætlun, sem kom frá ráðherranum á sínum tíma og kynntir voru síðastliðið haust til umsagna, komnir í biðflokk án neinna sérstakra röksemdafærslna. Í þeim drögum var einnig búið að setja hagkvæmasta virkjunarkost landsins, Norðlingaölduveitu, í verndarflokk. Það er gert á grunni þess að vernda eigi Þjórsárver. Ég er alveg viss um að við erum öll í þessum sal sammála því að vernda Þjórsárver en Norðlingaölduveita hefur ekkert með Þjórsárver að gera. Það eru 10 kílómetrar frá Þjórsárverum að Norðlingaölduveitu. Í Norðlingaölduveitu fara 0,2 ferkílómetrar af grónu landi undir vatn. Þetta er hagkvæmasti virkjunarkostur okkar að mati mjög margra, þar á meðal forsvarsmanna Landsvirkjunar, í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti.

Virðulegi forseti. Þau hrossakaup sem eiga sér stað núna á rammaáætlun á borði ríkisstjórnarinnar eru með öðrum orðum að setja út af borðinu, eftir því sem heyrist, bestu og hagkvæmustu virkjunarkosti í landinu með tilheyrandi afleiðingum. Við slíkt getum við ekki búið. Hér liggur allt of mikið undir ef við getum ekki farið að koma framkvæmdum við þessi orkuver af stað. Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni náum við ekki vopnum okkar, við munum ekki koma á hér þeim efnahagsbata sem nauðsynlegur er öðruvísi en að til þessara framkvæmda komi.