140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í greinargerðinni stendur, og hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni, að lífeyrissjóðirnir hefðu fengið 170 milljarða eingöngu í verðbætur af lánum til heimilanna frá áramótunum 2007/2008.

Nú er það þannig eins og hv. þingmaður eflaust veit að lífeyrissjóðirnir greiða verðtryggðan lífeyri, 80 milljarða á síðasta ári, til lífeyrisþega. Ég hef ekki kannað það en þetta eru sennilega um 200 milljarðar sem lífeyrissjóðirnir hafa greitt í verðtryggðan lífeyri þessi þrjú ár. Verðbætur eru ekkert annað en rýrnun krónunnar, ég ætla að vona að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því. Lífeyrisþegar sem fá verðbætur ofan á lífeyri sinn eru ekkert ofsælir af því vegna þess að þeir þurfa að standa undir verðbólgunni líka.

Ef menn ætla sér að líta á þetta sem einhvers konar hagnað lífeyrissjóðanna sem þeir hafa fengið í verðbætur þá skil bara ég ekki hv. þingmann. Þetta er vegna þess að krónan hefur rýrnað. Lífeyrisþegarnir eru að fá uppbót á það hve verðlag í verslununum hefur hækkað. Ef hv. þingmaður lítur á þetta sem sérstakar tekjur hjá lífeyrissjóðunum þætti mér gaman að vita hvernig hann metur verðbólgu yfirleitt. Eru það einhvers konar tekjur fyrir verslunina þegar verðlag hækkar, eða hvernig sér hann það? Þetta er auðvitað bara rýrnandi mynt sem lífeyrissjóðirnir eru að fá og þeir borga þetta út í lífeyri. Þeir eru sennilega búnir að borga af þessum 200 milljörðum á þessum þrem árum, eingöngu vegna verðbólgu þeirra ára, um 40–50 milljarða í verðbætur til lífeyrisþega.

Finnst hv. þingmanni virkilega að lífeyrisþegar landsins séu þau sterku og breiðu bök sem hann ætlar að leggja álögur á?