140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

580. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er kunnugleg ræða frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem nauðsynlegt er að svara engu að síður. Hvað varðar verðtryggðan lífeyri er hann verðtryggður að nafninu til. Lífeyrissjóðir, allir nema hinir opinberu, hafa skert lífeyri vegna bágrar fjárhagsstöðu. Öll þessi umræða um að ekki sé hægt að færa niður lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum vegna þess að þær séu verðtryggðar er einfaldlega ekki rétt. Þeir skerða lífeyri eftir því sem þurfa þykir miðað við hvernig staða þeirra er hverju sinni.

Ég lít ekki á það sem svo að þessar verðbætur til lífeyrissjóðanna séu einhver hagnaður eða gróði. Þetta er millifærsla frá skuldurum til lífeyrissjóða, þetta eru ekki tekjur þeirra. En sú millifærsla er komin til vegna verðbólgu og vegna hruns og forsendubrests sem lántakendur gerðu ekki ráð fyrir. Þetta eru upphæðir sem hafa farið inn í lífeyrissjóðina, sem lífeyrissjóðirnir gerðu heldur ekki ráð fyrir í áætlunum sínum að þeir fengju. Þess vegna er minnst á þær upphæðir hér vegna þess að þetta eru ekki tölur sem lífeyrissjóðirnir gerðu ráð fyrir að fá á sínum tíma og hefðu því þurft að standa undir lífeyrisgreiðslum með einhverjum öðrum hætti.

Þessi gamalkunna tugga um að þetta sé aðför að lífeyrisþegum og gamla fólkinu, ég vísa henni heim til föðurhúsanna. Það er fullt af eldra fólki sem skuldar lán og skuldar í húsnæði sínu og fullt af eldra fólki sem er einfaldlega að fara á hausinn vegna þess að lánin hafa hækkað. Þau hafa hækkað hlutfallslega miklu meira en lífeyririnn sem fólk er að fá greiddan.

Þetta mun heldur ekki leiða til neinnar umtalsverðrar skerðingar á lífeyrisgreiðslum, eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni, og bið ég hv. þingmann að skoða það nánar.