140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

510. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (hesthús). Flutningsmenn auk þess er hér stendur eru Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Höskuldur Þórhallsson, Birkir Jón Jónsson og Eygló Harðardóttir.

Þetta frumvarp er ekki mjög flókið. Í 1. gr. segir:

A-liður 3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Allt að 0,5% af fasteignamati:

Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús og önnur útihús utan bújarða, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.

Í 2. gr. segir að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Hestamennska er ein vinsælasta tómstundaiðja og íþróttagrein sem íslenskar fjölskyldur stunda og hefur ástundun aukist undanfarin ár enda íslenski hesturinn fyrir löngu orðinn eitt af aðalsmerkjum þjóðarinnar. Eins og margar aðrar tómstundir og íþróttir getur hestamennskan verið kostnaðarsöm enda oft mikill metnaður lagður í þjálfun og umhirðu. Einn af kostnaðarþáttunum er kostnaður við húsnæði sem hefur í mörgum tilfellum batnað mjög undanfarin ár sem þýðir betri aðbúnað fyrir hesta og menn. Um árabil hafa verið vangaveltur um hvar skilgreina eigi hesthús þegar kemur að skattheimtu sveitarfélaga. Mismunandi er eftir sveitarfélögum hvernig þau flokka hesthús í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga og getur munað háum fjárhæðum milli sveitarfélaga. Kærur hafa verið lagðar fram og mál höfðuð til að reyna að fá úr því skorið í hvaða flokk eigi að setja þessi hús. Skemmst er að minnast úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 23/2010 þar sem fjallað var um hvort hesthús á deiliskipulögðu hesthúsasvæði í þéttbýli skyldu við álagningu fasteignagjalda vera flokkuð undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, eða c-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að eyða öllum vafa um hvernig eigi að flokka hesthús í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga og því er lagt til að þau verði felld undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna ásamt íbúðarhúsnæði, útihúsum o.fl.

Lögð er til sú breyting að í stað orðanna „útihús og“ í a-lið 3. mgr. 3. gr. komi „hesthús og önnur útihús utan bújarða“. Með þessari breytingu er ætlunin að taka af allan vafa um að hesthús og önnur útihús utan bújarða falli undir a-liðinn. Það að telja upp hesthús sérstaklega og síðan mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði líkt og liðurinn hljóðar í dag hefur þótt ruglingslegt þar sem hesthús á bújörðum eru jafnframt mannvirki á jörðunum. Því hefur jafnvel mátt túlka liðinn þannig að eingöngu hesthús á bújörðum ættu að falla undir þennan lið en önnur ekki. Með því að skýra þetta frekar eins og hér er lagt til er tekinn af allur vafi um hvernig túlka beri umrædda grein. Eflaust kunna að vera um þetta deildar meiningar því vissulega er hestamennskan að einhverju leyti atvinnugrein þótt langstærstur hluti hennar teljist til tómstunda.

Virðulegi forseti. Það eru fjórar til fimm vikur síðan við boðuðum að við mundum leggja fram þetta mál og var það sett saman og lagt fram fljótlega eftir að það var tilkynnt hér. Nú er búið að mæla fyrir málinu og mælist ég til að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar