140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

málefni SpKef.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrr í vetur ræddum við á þinginu að risið hefði ágreiningur á milli Landsbankans og stjórnvalda, ríkissjóðs, vegna færslu á Sparisjóði Keflavíkur yfir til Landsbankans og virðiseigna bankans. Okkur bárust síðan fregnir af því að ákveðið hefði verið að færa þann ágreining fyrir gerðardóm. Síðan er liðinn nokkur tími.

Mig langar að bera það upp við hæstv. forsætisráðherra hvort hún geti greint frá því hver staða málsins sé og í ljósi þess að hér er annars vegar um að ræða banka í meirihlutaeigu ríkisins sem við getum með réttu kallað ríkisbanka og hins vegar ríkissjóð, hvort ekki sé eðlilegt þegar greinargerðir aðila verða lagðar fram, ef það hefur ekki þegar gerst, að þær verði gerðar opinberar. Ég vil jafnframt bera undir hæstv. forsætisráðherra hvort henni þyki ekki eðlilegt að gerðardómsmeðferðin, sem að jafnaði er munnlegur málflutningur, fari fram fyrir opnum tjöldum. Ef svo verður ekki hljóta að vakna grunsemdir um að tilgangurinn með því að leggja málið í gerðardóm hafi verið sá að halda ágreiningnum frá almenningi, halda honum frá opinberu kastljósi og reyna að leiða umræðuna einhvern veginn í jörð án þess að við í þinginu, fjölmiðlar eða aðrir gætum fengið nákvæmar upplýsingar um hvers eðlis ágreiningurinn er.

Ég spyr sem sagt um stöðu málsins og hvort ekki sé eðlilegt að þetta sé allt uppi á borðum og fyrir opnum tjöldum.