140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

málefni SpKef.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu nákvæmlega ég get svarað þessari spurningu sem til mín er beint um stöðu málsins og hvenær meðferð þess lýkur, en það fór fyrir gerðardóm eins og allir vita. Mér er hreinlega ekki kunnugt um það, en ég geri ráð fyrir að menn hafi sett sér einhver tímamörk.

Varðandi síðari spurninguna um munnlegan málflutning fyrir opnum tjöldum er ég þeirrar skoðunar að í svona máli eigi sem mest að vera fyrir opnum tjöldum. Ég geri mér samt ekki grein fyrir því hvort eitthvað gæti hindraði það að hægt væri að hafa munnlegan málflutning fyrir opnum tjöldum, en ég get ekki séð að neinar hindranir þurfi að vera fyrir því að greinargerðir þessara aðila séu gerðar opinberar. Ég sé bara ekki í fljótu bragði hvernig það ætti að vera. Að minnsta kosti ættu nefndir þingsins sem um þetta hafa mikið fjallað á þessu þingi að geta fylgst með málinu og fengið með eðlilegum hætti greinargerðir sem um það koma. Ég get ekki séð fyrir mér að eitthvað gæti hindrað það. En það er það langt um liðið síðan málið fór fyrir gerðardóm að ég býst við að niðurstaða liggi fyrir fljótlega.