140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[10:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef ekki heyrt hæstv. forsætisráðherra nota þau orð sem hv. þingmaður leggur henni í munn (Gripið fram í: Í fjölmiðlum bara.) að íslenska krónan sé ónýt. Menn hafa haft ýmis ummæli um hana blessaða í gegnum tíðina og ekkert undarlegt við það vegna þess að hún hefur tekið miklar dýfur og verið óstöðug. Það má alltaf deila um það í hve miklum mæli eigi að heimfæra það upp á krónuna sem slíka eða það hvernig okkur hefur tekist til í hagstjórn í gegnum tíðina og að hafa stöðugt umhverfi í efnahagsmálum. Það er stundum sagt að árinni kenni illur ræðari. Ég hef oft leyft mér að halda því fram að fyrir ýmsum grundvallarhagstjórnarmistökum á umliðnum árum hafi menn hafi fundið auðvelda afsökun í því að kenna gjaldmiðlinum um, þegar hann var kannski fyrst og fremst mælir á tiltekna útkomu sem leiddi af óstöðugleika í hagkerfinu og því að mönnum voru mislagðar hendur um hagstjórn.

Ég hef lýst mínum viðhorfum og held mig við það. Ég tel að við þurfum auðvitað að vanda okkur í allri umfjöllun um þessi mál, tala út frá þeirri stöðu að krónan er lögeyrir okkar og við höfum engar tryggingar fyrir því að það verði öðruvísi, að minnsta kosti til nokkurra næstu ára litið. Það held ég að öllum sé ljóst. Þar af leiðandi þurfum við að móta peningamála- og gjaldmiðlastefnu okkar og ríkisfjármála- og efnahagsstefnu okkar með hliðsjón af því að hún geti gagnast okkur sem best að minnsta kosti svo lengi sem hún verður gjaldeyrir okkar.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að við getum afnumið gjaldeyrishöftin án þess að glata þeim stöðugleika sem hefur kostað okkur miklar fórnir að ná. Þess vegna þarf líka að tala af ábyrgð um það. Það þarf stjórnarandstaðan líka að gera og hún má velta fyrir sér hvort framlag hennar til löggjafar um (Forseti hringir.) afnám gjaldeyrishafta sem hún beitti sér fyrir síðastliðið vor hafi endilega verið skynsamlegt. Ég læt hv. fyrirspyrjanda það sjálfum eftir að bera saman ummæli mismunandi forsætisráðherra í heiminum.