140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[10:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það dugar ekki fyrir hæstv. ráðherra að þykjast heyra ekkert og sjá ekkert til að geta svo sagt ekkert um það sem hann er spurður um. Ég spyr hann út í ummæli hæstv. forsætisráðherra sem liggja fyrir og geta ekki hafa farið fram hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ef svo er þá þarf hæstv. ráðherra að fara að fylgjast betur með því sem gerist innan ríkisstjórnarinnar.

Til að fá það á hreint: Er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þeirrar skoðunar að íslenska krónan sé ekki ónýt og ef svo er, hvað finnst hæstv. ráðherra þá um slík ummæli? Eru þau til þess fallin að auka trúverðugleika gjaldmiðilsins? Eru þau til þess fallin að gengi krónunnar hækki eins og það ætti að gera miðað við hina miklu framleiðslu sem undir henni stendur, eða eru slík ummæli skaðleg? Þetta eru mjög einfaldar spurningar og ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði þeim í stað þess að temja sér að spyrja (Forseti hringir.) þingmenn spurninga. Ég hef oft nefnt það áður að ef ráðherrar vilja fá sérstakan lið fyrir fyrirspurnir til þingmanna þá má ræða það, en þetta eru fyrirspurnir til ráðherra.