140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[10:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra en í kjölfar ályktunar utanríkismálanefndar Evrópuþingsins frá 7. febrúar síðastliðinn um stöðu viðræðna við Ísland og ESB, þar sem einnig kemur fram hvað Ísland þurfi að gera til að uppfylla áframhaldandi vinnu vegna inngönguskilyrða í Evrópusambandið, óskaði ég eftir sérstakri umræðu á Alþingi og reyndar eftir lengri umræðu um stöðu þessa máls og ekki síst þá skýrslu þar sem þessi skilyrði eru tíunduð.

Umrædd skýrsla var nú í gær samþykkt af Evrópuþinginu að mestu óbreytt en þó eru þar áréttuð enn frekar tvö sérstök atriði. Þau eru annars vegar að ekki muni verða framhald viðræðna eða samninga nema Ísland fallist á hin sögulegu skilyrði sem nota á við lausn makríldeilunnar, þ.e. okkur er gert að fallast á þau skilyrði sem Evrópusambandið setur fyrir lausn makríldeilunnar, og hins vegar er hert á þeim miklu möguleikum sem Evrópusambandið eigi til áhrifa á norðurslóðum þegar Ísland verði komið í Evrópusambandið. Á þessu var þarna hnykkt.

Í þessu áliti eru í mörgum liðum rakin þau atriði í sjávarútvegi, í landbúnaði, í gjaldeyrismálum, í utanríkisviðskiptamálum og fjárfestingarmálum sem Íslendingar verða að uppfylla til að falla að þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur fyrir framhaldi viðræðnanna eða til aðlögunar og inngöngu í sambandið, t.d. fjárfestingar í sjávarútvegi, fjárfestingar í orkufrekum iðnaði o.s.frv.

Þessi skýrsla var send ríkisstjórn Íslands (Forseti hringir.) áður en hún var send fyrir Evrópuþingið og mér er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið athugasemdir við hana þannig að ég ítreka spurningu mína til forsætisráðherra um hvenær þessi umræða geti farið fram.