140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

fjölgun starfa.

[10:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur margoft lýst því yfir að það sé meðal helstu verkefna þessarar ríkisstjórnar að stuðla að fjölgun starfa í landinu. Fréttir undanfarna mánuði hafa bent til þess að skráðum á atvinnuleysisskrá fari fækkandi og við ýmis höfum talið að það væri til merkis um að ástandið væri að skána á atvinnumarkaðnum.

Í gær kom út skýrsla Hagstofu Íslands um vinnumarkað á Íslandi með samanburði við fyrri mánuði og fyrri ár. Úr þeirri skýrslu má lesa þá niðurstöðu að þrátt fyrir að atvinnulausum hafi samkvæmt skráningu vissulega fækkað hafi störfum í landinu ekkert fjölgað. Þeim sem eru utan vinnumarkaðar hefur fjölgað, þeir sem eru taldir utan vinnumarkaðar eru þeir sem hvorki eru í vinnu né á atvinnuleysisskrá, þeim sem eru fyrir utan þetta mengi fjölgar en störfunum fjölgar ekki neitt. Milli 2010 og 2011 fækkaði störfunum, milli 2011 og 2012 stendur talan í stað. Það er stöðnun á þessu sviði.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, í ljósi fyrri yfirlýsinga hennar um áform ríkisstjórnarinnar, um aðgerðir til að stuðla að fjölgun starfa, hvort þetta séu ekki vonbrigði og hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að bæta úr þessari stöðu.