140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[10:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði hér rétt áðan að það ætti að tala varlega um gjaldmiðil íslensku þjóðarinnar og ég tel að hann hafi með því verið að gefa hæstv. forsætisráðherra að minnsta kosti vinsamlega ábendingu um að stilla orðum sínum í hóf þegar kemur að umræðu um íslensku krónuna. Hæstv. forsætisráðherra sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi að íslenska krónan væri ónothæf og ég fullyrði að hvergi kæmist forsætisráðherra upp með slík ummæli án þess að það hefði einhver eftirmál í för með sér enda sá maður á viðbrögðum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að það er mikill vandræðagangur á ríkisstjórnarheimilinu vegna þessara gáleysislegu orða forsætisráðherrans um íslensku krónuna.

Hver er staða gjaldmiðilsins á þeim tímum þegar forsætisráðherra tjáir sig með þessum hætti? Jú, því miður hefur gengi krónunnar verið að veikjast og ekki mun tiltrúin aukast með þessum orðum hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Og hvað leiðir það af sér? Skuldir heimila munu hækka í ljósi þess að gengi krónunnar hefur veikst. Við horfum líka á það að kaupmáttur mun veikjast í ljósi þess að krónan hefur veikst. Við horfum líka til þess að þessi ummæli hæstv. forsætisráðherra munu trúlega leiða það af sér að það verður erfiðara en ella að aflétta þeim gjaldeyrishöftum sem þjóðin er bundin í um þessar mundir.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, ég tel rétt að gefa hæstv. ráðherra færi á því að útskýra fyrir Alþingi, hvernig standi á því að hæstv. ráðherra kemur fram fyrir alþjóð og gagnvart alþjóðasamfélaginu með þau orð um gjaldmiðil þjóðarinnar á mjög viðkvæmum tímum. Eru þetta ekki tímar þar sem forsætisráðherra þjóðarinnar ætti að tala kjark í þjóðina og byggja (Forseti hringir.) á trausti á gjaldmiðlinum okkar sem er íslenska krónan?