140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

598. mál
[11:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Tilefni þessa frumvarps er eins og fram kemur í máli hæstv. umhverfisráðherra athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi löggjöf á þessu sviði og ég held að full ástæða sé til að fara vel yfir þær athugasemdir og meta hvaða breytingar eru nauðsynlegar. Á þessu stigi máls ætla ég ekki að fara efnislega í málið en ég vil hins vegar árétta að ég held að umhverfis- og samgöngunefnd þingsins verði að fara vel yfir þetta. Það er auðvitað sagt af ákveðinni reynslu vegna þess að innleiðing gerða ESB sem gildi hafa samkvæmt EES-samningnum getur verið með margvíslegu móti. Oft er svigrúm til innleiðingarinnar og þess vegna þarf að greina vel hvað er nauðsynlegt, hver lágmarksskilyrðin eru eiginlega og síðan þarf að taka afstöðu til þess hvað menn vilja setja sem landsreglur sem aukakröfur ef það er vilji löggjafans. Þetta er atriði sem við þurfum að fara vandlega yfir.

Eins tel ég að við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfum að fara vel yfir áhrif þessa máls á framkvæmdir, framkvæmdaraðila og málsmeðferðartíma. Það er jákvætt að í frumvarpinu er að finna reglur sem gera ráð fyrir styttri málsmeðferðartíma í ákveðnum tilvikum en það þarf að meta þetta varðandi málsmeðferðartíma og kostnað. Staðreyndin er sú að við höfum á undanförnum árum samþykkt fjöldamargar nýjar reglur sem að mínu mati flækja framkvæmdina þegar sótt er um leyfi til ýmiss konar framkvæmda og satt að segja hef ég áhyggjur af því að við séum í raun og veru að búa til frumskóg sem erfitt verður fyrir framkvæmdaraðila, hvort sem um er að ræða fyrirtæki, sveitarfélög, vegagerð eða aðra opinbera aðila eða hvern sem er, að rata um. Menn þurfa mikinn fjölda leyfa, mikill fjöldi umsagna er nauðsynlegur í mismunandi tilvikum og úr þessu verður frumskógur sem mjög erfitt er að átta sig á. Ég játa það sem þingmaður í þeirri nefnd sem fer með þessi mál að ég á oft mjög bágt með að átta mig á þeim skriffinnskukröfum sem ég vil kalla svo sem gerðar eru í sambandi við aðdraganda framkvæmda.

Með þessu er ég ekki að draga úr nauðsyn þess að ákvarðanir séu teknar að vel yfirlögðu ráði og að fram komnum þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að taka upplýsta ákvörðun. En í mörgum tilvikum finnst mér að stjórnsýslan sé of flókin, of snúin og að mínu mati er raunveruleg hætta á því að þetta fæli menn einfaldlega frá framkvæmdum. Þetta eru atriði sem ég vil athuga en ég tek það fram að ég tel rétt að við bregðumst við þeim athugasemdum sem fram hafa komið eins og nauðsyn ber til, en ég held að í samhengi við þetta mál þá þurfum við líka að huga að hinni stærri mynd, þ.e. hvaða skilyrði við erum að setja í hinum ýmsu lagabálkum sem geta flækt stjórnsýslulega meðferð mála á þessu sviði. Ég hef töluverðar áhyggjur af því og þær áhyggjur fara bara vaxandi, eiginlega með hverri nýrri löggjöf sem samþykkt er á Alþingi. Áhyggjur mínar fara vaxandi vegna þess að það liggur við að hver einasti lagabálkur sem hér er samþykktur á þessu sviði, hvort sem um er að ræða umhverfismálin eða skipulagsmálin, feli í sér nýjar flækjur. Það má eiginlega segja að fyrir hvert höfuð ófreskjunnar sem höggvið er af spretti tvö ný. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra eða aðra hv. þingmenn um að nauðsynlegt sé að ákvarðanir séu teknar að vel yfirlögðu ráði en það er líka hægt að búa til svo miklar stjórnsýsluflækjur að hin raunverulegu efnisatriði verði aukaatriði og málsmeðferðarreglurnar verði sjálfstætt vandamál.