140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi frá atvinnuveganefnd.

Í upphafi þessa nefndarálits, sem er allítarlegt, er getið um þá sem komu á fund nefndarinnar og sendu inn umsagnir og vísa ég til þeirra hér í þingskjalinu.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að stýra mótun aðgerðaáætlunar um grænt hagkerfi á grundvelli tillagna nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins. Framangreindu til viðbótar inniheldur ályktunartillagan átta stefnumótunaratriði sem lagt er til að verði lögð til grundvallar í aðgerðaáætluninni og fjörutíu og átta tillögur sem lagt er til að fái framgang með samþykkt ályktunarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að aðgerðir samkvæmt áætluninni miði að því að Ísland skipi sér á alþjóðavettvangi í fremstu röð sem grænt hagkerfi með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni. Í stuttu máli stefnir tillagan að aukinni verðmætasköpun samfara því að dregið verði úr álagi á náttúruna. Þannig verði komið upp grænu hagkerfi sem byggist á virðingu fyrir náttúrunni og gæðum hennar með hliðsjón af hagsmunum komandi kynslóða, auk þess að svara kröfunni um jafnræði og jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda. Þá byggist tillagan á þeirri sýn að fjölbreytt atvinnulíf sé mikilvæg forsenda sjálfbærrar hagsældar.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og tók, eins og fram hefur komið, á móti töluverðum fjölda gesta. Þá barst nefndinni nokkur fjöldi umsagna. Í máli gesta og í umfjöllun umsagnaraðila komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin tók til skoðunar og ræddi. Málið er viðamikið og í eðlilegu samhengi við það voru þær athugasemdir og tillögur sem komu fram nokkuð fjölbreyttar.

Efni þingsályktunartillögunnar kallast á við efni skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins frá því í september síðastliðnum en meðal flutningsmanna tillögunnar eru nefndarmenn í téðri nefnd. Málið er flutt af fulltrúum allra flokka á Alþingi.

Almennt voru nefndarmenn nokkuð samstiga við meðferð og afgreiðslu málsins. Þó er sérstaklega gerð grein fyrir sjónarmiðum eins nefndarmanns í skýringum á fyrirvörum hans síðar í álitinu.

Nokkur sjónarmið og athugasemdir tók nefndin til sérstakrar umræðu.

Vík ég fyrst, virðulegi forseti, að tímasetningum. Í nokkrum umsögnum kemur sú skoðun fram að rétt kunni að vera að fara yfir tímaramma sem settir séu í tillögunni og tryggja að fjármagn verði til staðar til að innleiða tillögurnar. Benda sumir þeirra á að óraunsætt sé að hefja framkvæmd meginhluta tillagnanna á einu og sama árinu og því kunni að vera eðlilegt að fara nánar yfir forgangsröðun þeirra með tilliti til þess hve hratt eigi að innleiða græna hagkerfið í ljósi jafnræðis, sjálfbærni kostnaðar, fjárlagagerðar og fjármögnunar verkefna.

Af 24. tölulið 3. mgr. tillögunnar má sjá að flutningsmenn hennar virðast hafa gert ráð fyrir því að tillagan yrði samþykkt sem ályktun Alþingis þegar á árinu 2011. Þar sem svo hefur ekki farið telur nefndin rétt að bæta einu ári almennt við allar tímasetningar tillögunnar. Hlýtur slík tillaga einnig stoð í þeirri staðreynd að samkvæmt fjárlögum ársins 2012 er aðeins gert ráð fyrir 3,1 millj. kr. vegna eflingar græna hagkerfisins.

Margir umsagnaraðilar sakna þess að ekki sé minnst á skógrækt sem vænlega leið til að ná markmiðum tillögunnar. Hefur komið fram að útbreiðsla skóga hafi stórminnkað hér á landi frá landnámstímanum, úr 25–30% niður í 1%.

Að mati málsmetandi umsagnaraðila nýta fáar greinar innan íslensks hagkerfis sólarorku, vatn og jörð til verðmætasköpunar betur en skógrækt. Af þeim sökum megi segja að hún sé meðal umhverfisvænstu fjárfestingarleiða hér á landi. Mat sumra umsagnaraðila er að það sé raunhæft að ætla að skógrækt skapi þau skilyrði sem þarf til að Ísland taki forustu á sviði grænna hagkerfa verði rétt á málum haldið. Nefndinni bárust meðal annars útreikningar frá Skúla Björnssyni, framkvæmdastjóra Barra hf. á Egilsstöðum, þar sem farið var yfir mögulegan viðarvöxt stafafuru og sitkagrenis í Breiðdal. Virðast þeir útreikningar gefa tilefni til bjartsýni. Til að efla möguleika skógræktar bendir umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands meðal annars á nauðsyn þess að samræma lagabálka og endurskoða lög þannig að sömu fjárhagslegu hvatar verði til að endurheimta náttúruskóga á Íslandi og votlendi og nýttir hafa verið þegar kemur að plöntun barrtrjáa.

Einnig er bent á að í tillögunni sé ekkert fjallað um gróðureyðingu og jarðvegsrof sem þó séu meðal stærstu umhverfisvandamála Íslendinga. Virðast margir umsagnaraðilar telja að aukið vægi vistkerfa og vistheimtar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda jarðvegs og gróðurs sé grundvallaratriði í grænu hagkerfi, meðal annars með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar koltvíoxíðs. Er því til stuðnings meðal annars bent á að gróður, jarðvegur og ástand lands séu mikilvægir þættir í flestum umhverfissáttmálum Sameinuðu þjóðanna. Hefur komið fram að gróið land hafi á landnámstímanum farið úr 60–70% niður í 40% auk þess sem 50–70% votlendis hafi verið ræst út og þurrkað.

Að mati nefndarinnar skortir nokkuð á að skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis fái þá athygli í þingsályktunartillögunni sem þau eiga skilið. Í greinargerð tillögunnar er reyndar komið stuttlega inn á að sjálfbær skógrækt teljist til grænna starfa sem feli í sér framleiðslu vöru sem hafi í för með sér að stuðlað sé að verndun náttrúruauðlinda. Á fundum nefndarinnar var títt bent á mikilvægi þessara þátta við bindingu kolefnis og í því samhengi meðal annars bent á þá framtíð sem kaup og sala á losunarheimildum muni hafa í för með sér og þau áhrif sem kolefnisbinding mun mögulega hafa á þörf fyrirtækja til kaupa á slíkum heimildum. Hefur Landgræðsla ríkisins meðal annars staðið fyrir mælingum á kolefnisbindingu í landgræðslusvæðum með það að leiðarljósi að slík binding verði viðurkennd sem frádráttur frá losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum.

Að mati nefndarinnar er ómögulegt að líta fram hjá framkomnum athugasemdum umsagnaraðila. Telur nefndin til dæmis að fjárfesting í skógrækt hljóti að skila Íslendingum arði, hagrænum og umhverfislegum, til lengri tíma litið. Þá virðist raunhæft að vistheimt feli í sér óbein fjárhagsleg verðmæti. Af þeim sökum leggur nefndin til að við 3. mgr. ályktunarorða tillögunnar verði bætt nýjum tölulið sem feli í sér tillögu um að stuðlað verði að framgangi skógræktar og vistheimtar með sjálfbæra nýtingu og bindingu kolefnis að leiðarljósi. Unnar skuli skógræktar- og vistheimtaráætlanir til 20 ára þar sem samræmdar verði fyrri áætlanir og unnið út frá þeim markmiðum að efla úrræði til stöðvunar gróðureyðingar og auka skóga og skapa með því sjálfbærar auðlindir.

Á fundum nefndarinnar var rætt um kosti og galla þess að brenna íslenskum við, meðal annars til að knýja kyndistöðvar og bræðsluofna stóriðjufyrirtækja. Fram kom að þeir aðilar sem helst hafa brennt trjákurli í ofnum sínum hér á landi hafi að langmestu leyti brennt innfluttu kurli. Bent var á að af þeim sökum væri ekki fyrirsjáanlegt að innlend framleiðsla ylli aukningu í viðarbrennslu heldur kæmi hún aðeins í stað innflutts trjákurls. Af þeim sökum ætti ekki að verða aukning í útblæstri mengandi efna undir slíkum kringumstæðum.

Þá kem ég, virðulegi forseti, að kafla um varúðarregluna, sem var mikið rædd í nefndinni og voru mörg aðvörunarorð sett fram um það.

Í d-lið 2. mgr. ályktunarorða tillögunnar er lagt til að stefnumótun græna hagkerfisins byggist meðal annars á því að varúðarreglan verði óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Í greinargerð tillögunnar kemur fram sú skýring á inntaki varúðarreglunnar að skorti á vísindalega fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skuli þeim upplýsingaskorti ekki beitt sem rökum til þess að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.

Margir umsagnaraðila benda á að skilningur manna á inntaki reglunnar sé ekki einhlítur og jafnvel að síðustu ár hafi óheppilegur skilningur unnið á meðal almennings. Meðal ástæðna þessara ábendinga nefna þeir hættu á að rangur skilningur á reglunni kunni að skapa hættu á að stjórnvöld láti stjórnast af blaðaskrifum, þrýstingi frá hagsmunasamtökum, ótta almennings og upphrópunum, til dæmis þegar komi að því að taka ákvarðanir um hvort leyfa skuli einhver nýmæli. Þannig telja sumir þeirra raunverulega hættu á að duttlungar ráði í stað raka og að slík beiting reglunnar geti leitt til stöðnunar.

Í viðauka 2 við þingsályktunartillöguna er bókun frá Illuga Gunnarssyni, alþingismanni og nefndarmanni í nefnd Alþingis um eflingu græna hagkerfisins, vegna varúðarreglunnar.

Virðulegi forseti. Ég hef vísað til þeirra fyrirvara sem hv. þingmaður setti þar fram en við gerum því hér aðeins skil. Þar segir:

„Telur hann að þessi skilningur reglunnar bjóði heim hættu á að beiting hennar innan stjórnkerfisins dragi úr möguleikum þjóðarinnar til að nýta náttúruauðlindir jafnvel þegar engar vísindalegar sannanir liggja fyrir um skaðsemi tiltekinnar starfsemi.“

Nefndin ræddi inntak varúðarreglunnar og gerði af því tilefni nokkra könnun á því hvaða skilning mætti finna í ritum fræðimanna, lögum og þingmálum lögðum fram á Alþingi.

Af lestri fræðirita má sjá að þau eru oft rituð í skugga ágreinings um það hvort reglunni skuli framfylgt af varúð eða harðfylgi. Þannig virðast þeir sem aðhyllast varúðarbeitingu hennar helst byggja þá skoðun sína á því að beiting hennar geti leitt til ósveigjanleika og jafnvel stöðnunar. Aftur á móti telja fylgjendur strangrar beitingar reglunnar að hún tryggi að eðlilegt mat á hættu á óæskilegum heilsu- eða umhverfisáhrifum sé gert áður en teknar eru ákvarðanir sem hafa í för með sér að ráðist verði í framkvæmdir eða framleiðslu.

Við framangreinda könnun kom meðal annars í ljós að fjallað er um varúðarregluna í lögum um erfðabreyttar lífverur, með síðari breytingum. Í 1. gr. þeirra kemur meðal annars fram að tryggja skuli að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðislega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við varúðarregluna. Í 4. gr. kemur fram sú skilgreining að varúðarreglan feli í sér að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Það feli í sér að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar aðgerða fyrir umhverfið skuli náttúran njóta vafans. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp það er varð að framangreindum lögum kemur fram að tilgangur skilgreiningarinnar sé að hnykkja á varúðarreglunni. Lögin taka til notkunar og starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Eiga lögin rót sína að rekja til skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Að sama skapi hafa verið lögð þrjú lagafrumvörp fyrir Alþingi um meginreglur umhverfisréttar þó án þess að nokkurt þeirra hafi orðið að lögum og þau lítið verið rædd. Slíkt frumvarp var meðal annars lagt fram á 133. löggjafarþingi en í því var sérstaklega lagt til að varúðarreglan yrði útfærð með almennum hætti í íslenskum lögum og undir það er hér tekið.

Í nánast allri umfjöllun um varúðarregluna er vísað til tilvistar hennar í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar en þó er oft sleginn sá varnagli að sú útgáfa hennar hafi verið afrakstur málamiðlunar. Fræðimenn virðast almennt sammála um að Ríó-yfirlýsingin frá 1992 hafi ekki stöðu þjóðréttarsamnings en að margar meginreglna hennar hafi haft afgerandi áhrif á þróun umhverfisréttar, bæði hvað varðar þróun alþjóðlegs umhverfisréttar og umhverfisréttar einstakra ríkja.

Varúðarreglan er ein af fimm meginreglum sem fjallað er um í 73. gr. EES-samningsins. Þá er hnykkt á henni í aðfaraorðum samningsins. EES-samningurinn hefur lagagildi á Íslandi.

Helsta röksemdin að baki varúðarreglunni sem nefnd hefur verið er að óvissa — yfirleitt vísindaleg óvissa, og skortur á upplýsingum, um hvort ákveðnar athafnir, eftir atvikum athafnaleysi, muni hafa óæskileg umhverfisáhrif — eigi ekki að leiða til þess að ekki sé gripið til fyrirbyggjandi ráðstafana, varúðarráðstafana, jafnvel þótt ekki sé mögulegt að sýna fram á orsakatengslin á milli tiltekinna athafna og áhrifa þeirra.

Nefndin minnir á að í þingmálinu er lagt til að varúðarreglan verði eitt af þeim atriðum sem leggja verði til grundvallar við mótun efnahags- og atvinnustefnu. Þannig er verið að leggja til að svigrúm stjórnvalda til stefnumótunar verði þrengt að þessu leyti. Skoðun nefndarinnar hefur leitt í ljós að þrátt fyrir að varúðarreglan virðist með hverju árinu sem líður öðlast meira vægi, bæði lagalegt vægi og vægi þegar kemur að stefnumótun, virðist skilningur manna á inntaki hennar ekki alltaf vera sá sami, sérstaklega hvað varðar þær vísindalegu kröfur sem gera verður til upplýsinga sem ákvörðunartaka samkvæmt reglunni byggist á. Virðast fræðimenn hafa talið að einstök ríki hafi ákveðið svigrúm til útfærslu reglunnar í löggjöf.

Að mati nefndarinnar er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi álykti að varúðarreglan skuli lögð til grundvallar við stefnumótun á sviði efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Engu að síður er ljóst að slík takmörkun á stefnumótunarkostum verður alltaf háð þeirri óvissu sem ríkir um inntak reglunnar og því svigrúmi sem ríki virðast njóta við mótun stefnu og innleiðingu hennar í landsrétt. Þrátt fyrir að umræða hafi átt sér stað á Alþingi um lagafrumvörp sem innihalda umfjöllun um almenna varúðarreglu eða sérstakar útfærslur hennar hefur slík umræða yfirleitt farið fram innan afmarkaðra sviða löggjafar sem um er rætt hverju sinni. Því er nauðsynlegt, eigi að binda hendur stjórnvalda frekar hvað stefnumótunarkosti varðar, að fram fari almenn umræða á Alþingi sem stefni að því að sammælast um mörk slíkrar reglu. Slík umræða verður þó alltaf háð þeim takmörkunum sem leiða má hverju sinni af alþjóðlegum skuldbindingum. Að þessu sögðu er það mat nefndarinnar að ekki verði að svo komnu máli gengið lengra en að árétta hér það sjónarmið fræðimanna og vettvangs alþjóðasamstarfs að varúðarreglunni skuli því aðeins beita að vísbendingar um hættu séu mögulega til staðar og henni megi aldrei beita á handahófskenndan hátt.

Virðulegi forseti. Næsti kafli fjallar um tekjur af hækkun kolefnisgjalds á eldsneyti, en í 43. tölulið 3. mgr. tillögunnar er lagt til að Alþingi álykti að stuðla beri að því að kolefnisgjald á eldsneyti verði hækkað um þriðjung og tekjum af hækkuninni verði ráðstafað til verkefna sem stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Í athugasemdum tillögunnar kemur meðal annars fram að með aukinni gjaldtöku sé stefnt að því að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Framangreindu til stuðnings er bent á þjóðhagslega þýðingu þess að dregið verði úr innflutningi kolefnaeldsneytis. Þá kemur fram að nágrannaþjóðir okkar hafi nýtt styrkjakerfi til að flýta enn frekar fyrir slíkri umbreytingu og því sé skynsamlegt að ráðstafa tekjuaukningunni til verkefna sem stuðli að orkuskiptum í samgöngum.

Ýmsar athugasemdir koma fram um framangreindan lið tillögunnar. Gróflega má flokka þær athugasemdir í þrennt. Í fyrsta lagi er bent á að kolefnisgjald hafi nýlega verið hækkað og því sé engin ástæða til að hækka það frekar. Í öðru lagi kunni að vera skynsamlegt að ráðstafa þegar innheimtu kolefnisgjaldi eða hluta þess til verkefna sem tengjast orkuskiptum. Í þriðja lagi er tekið undir markmið að baki aukinni innheimtu kolefnisgjalds en jafnframt lagt til að ráðstöfun þess þurfi að taka mið af misjöfnum tækifærum íbúa landsins til þess að bregðast við gjaldtökunni með breyttum samgönguvenjum. Í fjórða lagi er kolefnisgjöldum hafnað á þeim grundvelli að ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamhengi slíkrar gjaldtöku og breyttra samgönguvenja og bent á að hætta sé á að gjaldtakan verði hrein viðbót í vopnabúr almennrar tekjuöflunar ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Með lögum nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var gerð breyting á ákvæðum ýmissa skattalaga, meðal annars laga um umhverfis- og auðlindaskatta. Fólu fyrrgreindu lögin meðal annars í sér ríflega 30% hækkun kolefnisgjalds á fljótandi jarðefnaeldsneyti. Í frumvarpi til þeirra laga var hækkunin útskýrð sem sérstök tekjuöflunaraðgerð og hluti af ábyrgri umhverfisstefnu.

Ljóst er að framangreint frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum var lagt fram tæplega einum og hálfum mánuði eftir framlagningu tillögunnar. Þá er í 43. lið 3. mgr. ályktunargreinar tillögunnar einnig að finna í skýrslu nefndar Alþingis um græna hagkerfið. Meðal annars af þeim sökum telur nefndin óþarft að gera ráð fyrir hækkun kolefnisgjalds enda hefur sú hækkun þegar átt sér stað, og á þetta er lögð mikil áhersla. Ekki er þó að sjá að lagðar hafi verið nokkrar línur um ráðstöfun hækkunarinnar sem umrædd lög höfðu í för með sér. Í athugasemdum tillögunnar er bent á hindranir sem standi í vegi orkuskipta í samgöngum. Er hluta þeirra hindrana lýst sem sjálfhelduvanda, skorti á innviðum til að mæta þörfum nýrra samgöngutækja. Í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga er vakin sérstök athygli á því að aðgengi að vistvænum orkugjöfum sé eingöngu til staðar á höfuðborgarsvæðinu og það sé allsendis óljóst hvenær slíkir orkugjafar verði aðgengilegir íbúum landsbyggðarinnar. Af þeim sökum leggur sambandið til að ráðstöfun kolefnisgjalds til uppbyggingar dreifikerfis verði sett í forgang. Að sama skapi leggur sambandið áherslu á að aðrar endurgreiðslur gjalda og styrkveitingar til eflingar grænum atvinnu- og lífsháttum taki mið af þeim aðstöðumun sem er á milli íbúa landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Þá verði að tryggja fjármagn til að mæta væntum samdrætti fjármagns til framkvæmda, viðhalds og þjónustu við vegakerfið.

Á fundum nefndarinnar kom það sjónarmið fram að mögulega hefðu höfundar tillögunnar verið fullbjartsýnir varðandi þróun og framgang tækni þegar kemur að vistvænum orkugjöfum. Mat nefndarinnar er að það sjónarmið eigi rétt á sér. Hefur nefndin ákveðnar áhyggjur af því að of mikil áhersla á orkuskipti geti óbeint komið niður á öðrum kostum sem mögulegir eru til að draga úr orkunotkun og mengun. Telur nefndin að rétt sé að koma til móts við aðra kosti sem varðað geta leiðina að því markmiði sem tillagan stefnir að.

Nefndin tekur að meginhluta undir allar framangreindar athugasemdir umsagnaraðila. Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til þá breytingu á 43. tölulið 3. mgr. tillögunnar að í honum verði lagt til að tekjum af hækkun kolefnisgjalds samkvæmt lögum nr. 164/2011 verði ráðstafað til verkefna sem stuðla að orkuskiptum og orkusparnaði í samgöngum. Við þá ráðstöfun verði jafnræði milli íbúa landsins haft sérstaklega í huga — eins og við eigum að sjálfsögðu alltaf að hafa.

Í umsögn auðlindadeildar Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri koma fram athyglisverð sjónarmið. Þar er meðal annars gagnrýnt að ekki sé í tillögunni eða greinargerð hennar minnst á möguleika íslensks landbúnaðar í umfjöllun um tækifæri atvinnugreina til að nýta umhverfistækni og græna tækni. Telur hún það miður þar sem rannsóknir og tilraunir hafi sýnt að landbúnaður geti framleitt alla orku til eigin nota, t.d. með því að nota skógarafurðir, lífmassa, búfjárafurðir, seyru eða annan lífrænan úrgang sem til verði á bændabýlum. Þá telur hún brýnt að auka þekkingu á framleiðslu og nýtingu orku framleiddri á bújörðum þannig að mögulegt verði að nýta sem mest af henni.

Í umræðum á fundum nefndarinnar kom fram að Landbúnaðarháskóli Íslands og Bændasamtök Íslands hefðu unnið að áhugaverðu verkefni á sviði nýsköpunar í orkuvinnslu og orkuskiptum. Kom fram að verkefnið miði að því að innleiða í íslenskan landbúnað þekkingu á framleiðslu og nýtingu orku úr lífrænum hráefnum. Þannig væri stefnt að því að nýta sem orkugjafa hráefni sem falla til á búum eða í nágrenni þeirra eða hráefni væru sérstaklega framleidd í ákveðnum tilgangi. Væri ætlun þeirra að greina orkunotkun á bændabýlum og veita ráðgjöf um aðferðir til að minnka orkunotkun og auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku. Takmarkið væri að draga úr nýtingu aðkeyptrar orku um 20% fyrir árslok 2015 og um 80% fyrir árslok 2020. Væri það mat Landbúnaðarháskólans og Bændasamtakanna að með þessu mundi landbúnaðurinn leggja sitt af mörkum til að hvetja til nýtingar innlendrar endurnýjanlegrar orku. Til grundvallar þessum áætlunum lægi mat sem gæfi til kynna að úr þeim búfjáráburði sem þegar félli til mætti auðveldlega framleiða allt það eldsneyti sem þörf væri á til að halda vélum og tækjum meðalbús gangandi. Því til viðbótar væri einnig mögulegt að íslenskur landbúnaður gæti framleitt eldsneyti í formi metans sem selja mætti á almennum markaði og slíkt gæfi færi á að auka verðmæti framleiðslunnar enn frekar. Forsenda slíks væri þó að dreifistöðvum um landið yrði fjölgað og þannig að metanvæðing í almennum samgöngum færi hraðar fram.

Skilningur nefndarinnar er sá að landbúnaður eigi sinn hlut í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Fyrirsjáanlegt má telja að framleiðsla metans á bændabýlum geti beint eða óbeint dregið úr slíkri losun og því haft áhrif á heildarkolefnislosun á Íslandi. Efling orkuvinnslu í íslenskum landbúnaði krefst aðkomu margra aðila bæði við uppbyggingu og rekstur. Má sjá fyrir að til verði margvísleg afleidd störf í tengslum við þá uppbyggingu og mörg þeirra græn. Verði áætlanir Landbúnaðarháskólans og Bændasamtakanna að veruleika verður fleiri stoðum rennt undir atvinnu í dreifbýli. Því ættu orkuvinnsla og framleiðsla orku að verða meðal þeirra þátta sem gætu stuðlað að eflingu og styrkingu íslensks landbúnaðar á sama tíma og stuðlað er að eflingu græna hagkerfisins. Ef rétt er á haldið getur vinnsla orku úr lífrænum hráefnum stuðlað að aukinni hringrás næringarefna í íslensku umhverfi. Slíkt getur dregið úr þörf fyrir tilbúinn áburð og minnkað álag á umhverfið vegna förgunar efna sem ónýtt eru. Að mati nefndarinnar er hringrás næringarefna afar mikilvægur þáttur í aukinni sjálfbærni samfélagsins. Þá bendir nefndin á að víða til sveita má finna smávirkjanir, vatnsafls-, jarðvarma-, eða vindorkuvirkjanir sem telja verður að skapi verulegan ávinning fyrir eflingu græns hagkerfis.

Að framangreindu sögðu leggur nefndin til að við 3. mgr. ályktunarorða tillögunnar verði bætt nýjum tölulið sem feli í sér þá tillögu að stutt verði við verkefni sem stefni að sjálfbærri orkunýtingu í íslenskum landbúnaði og/eða framleiðslu orku úr hráefni sem verður til við landbúnaðarframleiðslu og á landbúnaðarjörðum.

Virðulegi forseti. Þá kemur hér kafli um lífræna ræktun og hefðbundinn landbúnað, sem ég sé að ég hef ekki tíma til að fara í gegnum í því mikla nefndaráliti sem hér er en vísa til þess í nefndarálitinu, sömuleiðis í kafla sem settur er hér fram um ferðaþjónustu.

Í umsögnum umhverfisdeildar Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, umhverfisráðuneytisins og Landverndar koma fram athugasemdir um að á skorti að fjallað sé um ferðaþjónustu í tillögunni. Þannig kemur fram í umsögn Landbúnaðarháskólans að viðurkenna þurfi mikilvægi ferðaþjónustu í íslensku hagkerfi og efla þróun og nýsköpun á því sviði.

Að lokum er í þessu mikla yfirliti fjallað um hinn græna samkeppnissjóð en í 18., 19. og 28. töluliðum 3. mgr. tillögunnar er fjallað um stofnun nokkurra sjóða. Lagt er til að settur verði á fót grænn samkeppnissjóður sem deild í Tækniþróunarsjóði, að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði falið að vinna að stofnun og rekstri Græns fjárfestingasjóðs og að stofnaður verði sérstakur sjálfbærnifræðslusjóður.

Það er vert að nefna að á fund nefndarinnar og í mörgum athugasemdum komu fram athugasemdir um þetta og menn töldu frekar að efla ætti deild innan Tækniþróunarsjóðs í stað þess að stofna nýjan.

Einnig er fjallað hér um kostnaðarmat. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. þingskapalaga skal fastanefnd sem mælir með samþykkt þingsályktunartillögu láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ályktunina hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hinn 1. nóvember 2011 var óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að það gerði kostnaðarmat á tillögunni enda var þá fyrirséð að nokkrar líkur væru á því að nefndin mundi mæla með því að hún yrði samþykkt. Erindinu var svarað með bréfi sem barst skrifstofustjóra Alþingis í desembermánuði síðastliðnum þar sem beiðni nefndarinnar var hafnað á þeim grundvelli að ráðuneytið hefði ekki bolmagn til að takast á við kostnaðarmatið. Beiðnin var ítrekuð í febrúar en þá var henni hafnað á ný með vísan til fyrra bréfs.

Um þetta er fjallað frekar í kaflanum um kostnaðarmat en það varð niðurstaðan að fara ekki betur yfir það atriði. En þegar ráðuneytin fara að vinna eftir þeim tillögum sem hér eru settar fram, alveg eins og með dagsetningar um hvenær eigi að vinna þær, verða þau að forgangsraða með tilliti til þeirra fjármuna sem þau hafa til að leggja í verkefnið.

Virðulegi forseti. Hér í lokin í þessu nefndaráliti er settur fram fyrirvari af hálfu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það eru afar athyglisverðir punktar um varúðarregluna og annað. Ég hef því miður ekki tíma til að lesa það en geri ráð fyrir að hv. þingmaður geri því skil hér á eftir. En ég tek heils hugar undir þá og í nefndinni var tekið undir þá þó að við höfum ekki gert sérstakar tillögur um það, þ.e. um það sem kemur hér fram um kostnað við að breyta lögum um umhverfismat og umhverfismat áætlana sem hér er fjallað um með tilliti til þeirrar fjárhagsstöðu sem ríkissjóður er í og sveitarfélög og aðrir. Það er samt sem áður hér inni en ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, og fram kom hjá mörgum aðilum í nefndinni, að menn skyldu fara varlega í það vegna þess að það gæti haft mjög mikinn kostnaðarauka í för með sér, sem við hreinlega kannski höfum ekki efni á um þessar mundir.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er það mál sem hér hefur verið flutt, efling græns hagkerfis, yfirgripsmikið, stórt og mikið framfaramál. Við höfum rætt þetta á einum 10 til 15 fundum í nefndinni og skilað því ítarlega nefndaráliti sem hér er sett fram — ég vil þakka ritara nefndarinnar sérstaklega fyrir og öðrum þeim nefndarmönnum sem þar lögðu hönd á plóg. Ég vil líka þakka nefndarmönnum sérstaklega vel fyrir mjög gott vinnulag og samvinnu við að koma þessu máli til þingsins í þessum búningi þar sem ég tel að full samstaða sé um málið.

Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali, sem er þskj. 994.

Þetta er gert á Alþingi, 13. mars 2012. Undir þetta skrifa sá sem hér stendur, Kristján L. Möller, formaður nefndarinnar og framsögumaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Einar K. Guðfinnsson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, með fyrirvara, og Þór Saari.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu um þetta mikla nefndarálit og um þá mikilvægu og góðu þingsályktunartillögu sem hér er verið að fjalla um.