140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[12:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ábendingar hans og get tekið undir margt sem þar kemur fram. Ég vildi einungis vekja athygli á einu atriði sem tengist umræðunni um framfarastuðulinn, GPI-stuðlinn, og sömuleiðis tillögunni um kostnaðar- og ábatagreiningar sem fylgi kostnaðarmati framkvæmda.

Varðandi GPI-stuðulinn er mikilvægt að hafa í huga að hann er hugsaður til fyllingar hagvaxtarmælingunni um verga landsframleiðslu og þegar eru farnar af stað í umhverfis- og auðlindafræði við háskólann rannsóknir á því hvernig megi staðfæra þennan alþjóðlega stuðul íslenskum aðstæðum. Ég held að það sé mjög forvitnileg vinna sem þar fer fram. Hugmyndin er auðvitað sú að við tökum umhverfiskostnaðinn inn í mat á kostnaði við framkvæmdir og reyndar ýmsa aðra þætti sem yfirleitt eru látnir liggja utan garðs í slíkum mælingum. Ég held að það sé mikilvægt framtíðarmarkmið í tengslum við báðar þessar tillögur, 6. og 7. tölulið, að við reynum að stíga skref sem gefa okkur fyllri og nákvæmari mynd af því hver kostnaðurinn er við framkvæmdir en við höfum gert með þeim tækjum sem við höfum í dag, en auðvitað þarf vinnan og þróun þessara mælitækja að ná lengra áður en við getum tekið þær upp. Ég get tekið undir það sjónarmið í máli hv. þingmanns.