140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[13:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við tillöguna og fagna því að atvinnuveganefnd hefur afgreitt það frá nefndinni hingað til síðari umræðu. Hafa helstu efnisatriði verið rakin alveg prýðilega af hv. þingmönnum sem hér hafa mælt á undan mér í þessari umræðu.

Ég vil staldra við eitt tiltekið atriði sem snýr að skógrækt og vistheimt og lýsa ánægju minni og stuðningi við það að þingnefndin hefur tekið það inn í tillöguna, þó að það hafi auðvitað ekki verið tilgangur tillöguhöfunda undir forustu hv. þm. Skúla Helgasonar — ég óska öllum 21, og honum sérstaklega, til hamingju með þessa frábæru tillögu — að skilja það eftir eða láta mæta afgangi. En það er ástæða til að halda því sérstaklega til haga af því að skógræktin hefur aðeins átt undir högg að sækja á liðnum árum.

Mikilvægt er að halda samfellu og stíganda í fjárfestingum í skógrækt af því að ef dregur úr á tímabilum í plöntun og nýframkvæmdum í skógrækt kemur niðursveifla í vinnslu nytjaviðar eftir nokkra áratugi og það kemur sér mjög illa. Það er svo margt sem styður skógræktina sem landnýtingu inn í grænt hagkerfi til framtíðar. Það er mjög ánægjulegt hvernig leiðarljósið er dregið upp í nefndarálitinu og af tillöguhöfundum fyrir stjórnvöld með aðgerðaáætlun um grænt hagkerfi á grundvelli þessarar tillögu. Þó að grænt hagkerfi verði sumpart til af sjálfu sér, öll okkar orkuvinnsla er meira og minna með sjálfbærum hætti í gegnum jarðvarmann og vatnsaflið, og vatnsaflið þá sérstaklega. Við búum að sjálfbærum orkubúskap og ýmiss konar nýsköpun og sjálfbærni í því öllu saman en þá þarf samt að marka heildstæða stefnu sem unnið er eftir af stjórnvöldum á hverjum tíma með langtímahugsun að leiðarljósi til áratuga, og það tókst mjög vel til með þessa tillögu. Á bak við hana standa þingmenn allra flokka og hreyfinga sem fulltrúa eiga á Alþingi og er alveg augljóst þegar maður les nefndarálitið að vinnan í nefndinni hefur verið mjög málefnaleg og mikil samstaða um málið. Í þessu felast auðvitað líka mikil fjárhagsleg og umhverfisleg verðmæti með margvíslegum hætti.

Ég ætla að nefna aftur sérstaklega landbúnaðinn, skógræktina og landnýtinguna í heild sinni því að ég tel að skógrækt sé mjög vanmetin leið til farsællar og verðmætrar landnýtingar. Fram hefur komið og bent er á það í tillögunni að útbreiðsla skóga hefur stórminnkað. Fyrir um 1100 árum var álitið, eins og allir þekkja, að fjórðungur landsins plús væri skógi vaxinn en nú er það rétt um 1% sem er auðvitað allt of lítið. Farið hefur verið í margar ágætlega heppnaðar aðgerðir og gerð gangskör að því að efla skógrækt í landinu. Bændaskógarnir fyrir nokkrum áratugum eru að byrja að skila sér inn í hagkerfið og landbúnaðinn sem landnýting vel heppnuð, nytjaskógar og ýmislegt annað. Við þurfum að koma skógræktinni og öllum hennar málefnum fyrir undir atvinnuveganefnd því að þó að skógrækt sé auðvitað mjög stórt umhverfismál og landnýtingarmál þá ber að líta á þetta sem fullburða öfluga og vaxandi atvinnugrein. Ég held að mjög mikilvægt sé að svara kalli skógræktarinnar um það og vista öll hennar málefni undir atvinnuvegaráðuneytinu.

Segja má að skógræktin sé meðal umhverfisvænstu fjárfestingarleiða sem nokkur völ er á. Í nefndarálitinu er bent á margt sem það styður. Einnig skiptir það náttúrlega miklu máli í okkar landi sem er á köflum og stórum svæðum örfoka og hefur gengið illa að vinna gegn jarðvegsrofi og gróðureyðingu. Í nefndarálitinu er bent sérstaklega á að grænt hagkerfi er það hvernig landnýtingunni er háttað, þ.e. að nýting á landinu sem er okkar alverðmætasta auðlind sé sjálfbær og við stoppum uppfok og gróðureyðingu með öllum tiltækum leiðum. Það er inntakið í grænu hagkerfi, að við nýtum landið með sjálfbærum og endurnýjanlegum hætti hvað þetta varðar. Þar kemur skógræktin mjög inn sem landnýtingarform sem getur skilað miklum verðmætum, mörgum störfum og miklum arði auk hinna umhverfislegu áhrifa af aukinni og öflugri skógrækt þar sem stefnt er að því að útbreiðsla skóga fari úr 1% upp í að minnsta kosti 5% á næstu 20 til 30 árum. Það er háleitt markmið en við eigum að setja stefnuna á það.

Eins er mjög mikilvægt að fara mjög markvisst og kerfisbundið í það að endurheimta votlendi samhliða breyttri landnýtingu. Framrás mýranna og það að þurrka upp mýrlendi til túnnytja og betri og öðruvísi beitar fyrir nokkrum áratugum var mjög mikilvægt þá fyrir landbúnaðinn og hefur skilað miklum árangri og skipti miklu máli þá. En mikið af því landi núna er komið út úr þeim hefðbundnu greinum og er ekki lengur nýtt til heyframleiðslu eða beitar. Öll rök standa til að aðstoða landeigendur til að endurheimta votlendið með því að fylla aftur upp í, það skilar sér beint aftur sem sérstaklega góð fjárfesting til okkar sem samfélags af því að kolefnisbindingin er að verða og er orðin fyrir löngu að sjálfstæðu verðmæti. Við þurfum að mæta ýmsum markmiðum og kvótum í kolefnislosun og þess vegna skiptir máli að draga fram, eins og gert er í nefndarálitinu, mikilvægi á bindingu kolefnis. Í því samhengi er meðal annars bent á þá framtíð sem kaup og sala á losunarheimildum muni hafa í för með sér og þau áhrif sem kolefnisbinding mun mögulega hafa á þörf fyrirtækja til kaupa á slíkum heimildum. Hefur Landgræðsla ríkisins meðal annars staðið fyrir mælingum á kolefnisbindingu í landgræðslusvæðum með það að leiðarljósi að slík binding verði viðurkennd sem frádráttur frá losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum. Þetta eru verulegir hagsmunir, þjóðhagslegir og fjárhagslegir hagsmunir. Þess vegna vil ég hvetja Alþingi og ríkisstjórn, um leið og við samþykkjum þessa tillögu vonandi sem fyrst, til að efla grænt hagkerfi á Íslandi og fara í fjárfestingarátak til langs tíma, sem við sjáum vonandi fara af stað fljótlega, í skógrækt og endurheimt votlendis, bæði sem umhverfismál, kolefnisbinding, en einnig og ekki síður sem öflug og vaxandi græn atvinnugrein sem við erum að taka sérstaklega utan um og mun skila okkur miklum verðmætum á komandi árum.

Þá vildi ég nefna að vissulega stendur yfir mikil og oft heit umræða um hvað skuli vernda og hvað skuli virkja. Vonandi tekst okkur að ná breiðri sátt um það með gerð rammaáætlunar. Margir stórir og miklir orkukostir hvort heldur er í vatnsafli eða jarðvarma eru núna í biðflokki og þingið á eftir að úrskurða um hvort fari upp í nýtingu eða hreyfist öðruvísi á milli flokka, Búlandsvirkjun og Hólmsárvirkjun við Atley í Skaftafellssýslu, Hagavatnsvirkjun, Þjórsárvirkjanirnar og svo margt annað sem mætti nefna sem eru stórir, verðmætir og alveg sérstaklega hagkvæmir virkjanakostir en auðvitað vega þeir alltaf á við umhverfisáhrifin af þeim, hverju viljum við fórna o.s.frv. Þetta býður rammaáætlunin upp á og vonandi tekst að ná samstöðu um það ferli þannig að þar líka séum við að teikna upp farveg til framtíðar og áratuga um hvernig við leiðum með málefnalegum hætti til lykta hvað skuli vernda og hvað skuli virkja. Náttúruverndarsjónarmiðin skipta auðvitað mjög miklu máli. Okkur verður það æ betur ljóst eftir því sem árin líða og menningartengd og umhverfistengd ferðaþjónusta eykst hvað ósnortin víðerni og óspillt náttúra eru gríðarlega mikil verðmæti, hún er alltaf sem verðmæti í sjálfu sér líka þó að hún sé ekki að skila öðrum ábata en þeim að verið sé að vernda svæði sem á ekki að snerta. Hins vegar er margt annað þess efnis að öll rök standa til að það beri að nýta, t.d. Hagavatnsvirkjun, sem talið er að muni skila miklum áhrifum í landrækt, landbótum og uppgræðslu, og svo aftur öðrum rennslis- og vatnsaflsvirkjunum sem hafa ekki teljandi eða stórkostleg neikvæð áhrif á umhverfið og þá að mörgu leyti afturkræf og stundum jákvæð.

Jarðvarminn er mál sem við þekkjum ekki eins vel en erum að feta okkur áfram með og stendur það undir því að höfuðborgarsvæðið allt, suðvesturhornið, er knúið áfram með þeim hætti, með heitt vatn og rafmagn úr þessum glæsilegu og miklu virkjunum þó að þær hafi vissulega sína ágalla líka.

Þetta er það sem ég vildi helst nefna í þessari umræðu, að við skulum taka sérstaklega inn í umhverfis- og náttúrutengda og jafnframt menningartengda ferðaþjónustu, skógrækt, landnýtingu og landbúnað af því að þessar greinar eru lykilgreinar, kjarnagreinar og kjölfesta í grænu hagkerfi til framtíðar ekki síður en raforkuvinnsla með sjálfbærum og endurnýtanlegum hætti. Við verðum vonandi farin að selja umframorkuna um sæstreng til Evrópu eftir fáein ár með miklum ábata af því að verð á grænni orku mun ekkert gera annað en að hækka. Þetta er einstök auðlind.

Með þessari tillögu er verið að taka utan um málið með alveg sérstaklega vandvirknislegum og málefnalegum hætti. Ég vil aftur og í lok máls míns þakka tillöguflytjendunum öllum, og hv. þm. Skúla Helgasyni sérstaklega, fyrir þessa eftirtektarverðu og góðu vinnu sem er að skila sér núna sem ályktun Alþingis til ríkisstjórnarinnar um græna atvinnustefnu og grænt hagkerfi og sem leiðarljós til ríkisstjórna framtíðarinnar og Alþingis um hvernig markmið eru sett og hvernig við eigum að bera okkur að við að byggja upp öflugt grænt hagkerfi sem stendur fullkomlega undir nafni.