140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[13:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Atvinnuveganefnd fór mjög ítarlega yfir það plagg sem hér er verið að ræða og skilaði sömuleiðis vönduðu efnislegu nefndaráliti þar sem fram kemur að nefndin velti upp mjög mörgum spurningum sem augljóslega koma upp þegar verið er að ræða þessa hugmynd, hið græna hagkerfi. Ég hef ekki tíma til að fara mjög ítarlega yfir málið en ætla þó að koma inn á allnokkra þætti þess. Í sjálfu sér er tillagan metnaðarfull tilraun til að reyna að setja þessi mál í nýtt samhengi og fá ákveðna sýn á ýmislegt af því sem við erum að gera. Það er ánægjulegt að býsna mikil samstaða tókst um málið, svona í meginatriðum, þó að því sé ekki að leyna, og það kemur meðal annars fram í bókunum og sérálitum sem fylgja málinu, að sýnin á ýmsa þætti málsins er dálítið mismunandi, við verðum að átta okkur á því.

Ég nefndi að ég ætlaði að fara yfir tvö, þrjú atriði og kannski fáein önnur sem ég tel ástæðu til að árétta og ætla ekki að ræða þetta plagg allt efnislega. Fyrst langar mig að nema aðeins staðar við það hugtak sem skiptir mjög miklu máli og kemur við sögu í þeim tillögum sem nefndin, sem undirbjó þessa þingsályktunartillögu, lagði fram og gengur í raun áfram í gegnum málið með nefndaráliti sem atvinnuveganefnd skrifar upp á. Það er varúðarreglan sem heilmikið hefur verið rædd á síðustu árum.

Ýmislegt hefur þróast í þessum efnum en engu að síður er þetta hugtak alls ekki skýrt að öllu leyti. Í umfjöllun um þessi mál er að vísu vísað í Ríó-sáttmálann og í ýmislegt annað sem skrifað hefur verið um efnið en þegar dýpra er kafað ofan í þau kemur á daginn að uppi er ágreiningur um það hvað þessi regla þýðir nákvæmlega. Nefndin fór mjög rækilega ofan í þetta, leitaði upplýsinga til dæmis frá Evrópuþinginu sem fjallað hefur mjög rækilega um málið. Við skoðuðum þetta með hliðsjón af EES-samningnum og líka með hliðsjón af þeirri lagasetningu hér á landi þar sem þessi hugsun kemur með einhverjum hætti við sögu. Meðal annars er fjallað um varúðarregluna í lögum um erfðabreyttar lífverur, þar er gerð tilraun til þess að skilgreina hugtakið en engu að síður er það dálítið á reiki. Þeir sem hafa viljað ganga lengst í því að túlka hugtakið hafa gengið svo langt að segja að sönnunarbyrðin verði eiginlega að vera í öllum tilvikum hjá þeim sem raska vilja einhverju í lífríkinu eða náttúrunni, til dæmis með framkvæmdum eða einhverju slíku. Þá blasir við að það er mjög sjaldan sem það hefur ekki einhverja minnstu mögulegu röskun í för með sér þegar menn fara í einhverjar framkvæmdir og annað slíkt.

Ég hygg að flestir hljóti að verða sammála um að þó að menn vilji fylgja einhverri varúðarreglu sem tekur tillit til þarfa náttúrunnar eru menn væntanlega ekki að tala um að beiting hennar eigi við í öllum tilvikum í þeim skilningi að það meini mönnum nánast allar framkvæmdir í landinu. Engu að síður hafa menn talað um í sambandi við varúðarregluna að það kunni að vera að við beitingu hennar komi upp ágreiningur þar sem menn verði nánast að sanna að hvers konar röskun í náttúrunni hafi ekki óafturkræf áhrif í för með sér og þá geta menn komist í ógöngur. Illugi Gunnarsson, sem var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni sem undirbjó þessa tillögu, fjallaði talsvert um það í bókun sem hann lét fylgja með lokaáliti nefndarinnar. Ég ætla að leyfa mér aðeins að grípa niður í hluta af þeirri bókun sem hv. þingmaður lét gera. Í bókuninni segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Ef sá skilningur er lagður í þessa skilgreiningu að gert sé ráð fyrir að fortakslaust beri að grípa til varúðarráðstafana, jafnvel þótt ekki sé mögulegt að sýna fram á orsakatengslin á milli tiltekinna athafna og áhrifa þeirra, þá er reglan að mínu mati ekki heppileg sem grunnur að vinnulagi opinberra aðila. Ljóst má vera að alltaf verður um einhverja óvissu að ræða vegna framkvæmda. Vistkerfi og náttúra eru gríðarlega flókin fyrirbæri og því gefið mál að ætíð verður hægt að benda á einhverja vísindalega óvissu í tengslum við framkvæmdir. Sé þessi skilningur lagður til grundvallar er hætt við að reglunni verði þannig beitt innan stjórnkerfisins að verulega dragi úr möguleikum þjóðarinnar til að nýta náttúruauðlindir landsins, án þess að fyrir liggi vísindalegar sannanir um að um sé að ræða starfsemi sem valdi skaða eða óásættanlegu raski.“

Hér er verið að hreyfa við því sem oft kom upp í huga okkar í nefndinni þegar við vorum að ræða þessi mál. Þess vegna eyddum við talsvert mikilli orku og púðri og vonandi einhverju hyggjuviti til að reyna að glöggva okkur á þessu máli, eins og fram kemur í nefndarálitinu. Við veltum við ýmsum steinum, eins og ég nefndi áðan, með því að skoða löggjöfina eins og hún er og þær yfirlýsingar og skuldbindingar sem við höfum undirgengist með einhverjum hætti. Niðurstaða okkar að yfirlegu lokinni var sú sem fram kemur í lokakaflanum í nefndarálitinu þar sem fjallað er um varúðarregluna. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Að mati nefndarinnar er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi álykti að varúðarreglan skuli lögð til grundvallar við stefnumótun á sviði efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Engu að síður er ljóst að slík takmörkun á stefnumótunarkostum verður alltaf háð þeirri óvissu sem ríkir um inntak reglunnar og því svigrúmi sem ríki virðast njóta við mótun stefnu og innleiðingu hennar í landsrétt. Þrátt fyrir að umræða hafi átt sér stað á Alþingi um lagafrumvörp sem innihalda umfjöllun um almenna varúðarreglu eða sérstakar útfærslur hennar hefur slík umræða yfirleitt farið fram innan afmarkaðra sviða löggjafar sem um er rætt hverju sinni. Því er nauðsynlegt, eigi að binda hendur stjórnvalda frekar hvað stefnumótunarkosti varðar, að fram fari almenn umræða á Alþingi sem stefni að því að sammælast um mörk slíkrar reglu. Slík umræða verður þó alltaf háð þeim takmörkunum sem leiða má hverju sinni af alþjóðlegum skuldbindingum. Að þessu sögðu er það mat nefndarinnar að ekki verði að svo komnu máli gengið lengra en að árétta hér það sjónarmið fræðimanna og vettvanga alþjóðasamstarfs að varúðarreglunni skuli því aðeins beita að vísbendingar um hættu séu mögulega til staðar og henni megi aldrei beita á handahófskenndan hátt.“

Hér er sem sagt vakin athygli á því að sú umræða sem þarf að eiga sér stað til þess að við skiljum, flest að minnsta kosti, sama skilningi þetta hugtak hefur ekki átt sér stað. Sú umræða sem þó hefur farið fram hefur verið bundin við mjög afmarkað svið eins og þegar verið var að setja löggjöf um erfðabreyttar lífverur, svo dæmi sé tekið. Hin almenna umræða um hugtakið er þess vegna ekki nægilega vel þroskuð. Það er með öllum þessum fyrirvörum sem varúðarreglan er sett inn í þessa tillögu og er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að með henni er ekki verið að opna fortakslaust á þann skilning að ekkert megi gera nema búið sé að eyða allri óvissu um hvort það hafi einhver tiltekin áhrif á lífríkið að fara í tilteknar framkvæmdir á vegum ríkisins eða einstaklinga.

Annað atriði sem ég vil líka nefna í þessu sambandi er að í 43. tölulið þingsályktunartillögunnar var lagt til að Alþingi stuðlaði að því að kolefnisgjald á eldsneyti yrði hækkað um þriðjung og að tekjum af hækkuninni yrði síðan ráðstafað til verkefna sem stuðlað gætu að orkuskiptum í samgöngum. Það mál var sömuleiðis mikið rætt. Við þekkjum þá þróun sem orðið hefur á eldsneytisverði í landinu, það er ískyggileg hækkun sem orðið hefur á eldsneyti sem er þegar farið að hafa mjög alvarleg áhrif mjög víða á atvinnustarfsemi. Leigubílstjórar segja til dæmis að rekstrargrundvöllur þeirrar atvinnugreinar sé í miklu uppnámi. Í öðru lagi hefur hækkunin haft þau áhrif að verð í almenningssamgöngum, til dæmis á innanlandsflugi, hefur hækkað gríðarlega mikið. Hækkunin hefur haft mjög alvarleg áhrif á afkomu fiskiskipaflotans og síðast en ekki síst hefur hún haft mjög alvarleg áhrif á afkomu heimilanna, eins og við vitum. Þess vegna hefði að mínu mati verið algjörlega óðs manns æði við þessar aðstæður að leggja til að kolefnisgjald á eldsneyti yrði hækkað um þriðjung, jafnvel þó að tekjum af þeirri hækkun yrði varið til góðs málstaðar.

Þess vegna skiptir mjög miklu máli að mínu mati að nefndin komst sameiginlega að einni niðurstöðu um þetta mál og niðurstaða nefndarinnar var sú að nú þegar hefði þessu markmiði verið náð. Fyrir áramót var kolefnisgjald á eldsneyti hækkað með samþykkt tekjuöflunarþáttar fjárlagafrumvarpsins. Ég tek fram að ég var á móti því og er jafnandsnúinn því núna og ég var þá en það er engu að síður staðreynd. Nefndin sammælist um tiltekinn skilning, að sú hækkun á kolefnisgjaldinu sem mælt er fyrir um í tillögum nefndarinnar sem undirbjó þingsályktunartillöguna sé orðin að veruleika, þ.e. að þessu markmiði hafi þegar verið náð, við séum sem sagt búin að hækka kolefnisgjaldið um þann þriðjung sem nefndin lagði til. Það er þá ágætt, þá er kominn niðurnjörvaður skilningur sem vonandi verður þá innsiglaður með samþykkt Alþingis þegar málið verður afgreitt frá þinginu að lokinni þessari umræðu.

Það sem skiptir þá máli er að átta sig á því að tillagan felur í sér, ekki bara að hækka kolefnisgjaldið, heldur líka hitt að ráðstafa þeim tekjum sem af hækkuninni leiða til verkefna sem stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Þær tekjur eru nú þegar komnar inn í ríkissjóð eða koma inn í ríkissjóð á þessu ári. Þá er komið að næsta versi. Nú er sem sagt búið að leggja á skattana, það er búið að búa til tekjur fyrir ríkið í samræmi við hækkun á kolefnisgjaldinu, en þá er næsta vers eftir og það er það að sjá til þess, verði þessi tillaga samþykkt, að þessum peningum verði varið til orkuskipta í samgöngum. Gert er ráð fyrir að þær tillögur komi til framkvæmda á árinu 2013, að vísu með ákveðnum fyrirvörum. Við hljótum að vænta þess að við fjárlagagerð næsta árs verði séð til þess að þessari tekjuaukningu sem ríkissjóður hefur fengið í gegnum hækkun kolefnisgjaldsins um þriðjung verði þá varið til orkuskipta í landinu. Á því er þó einn hængur, hann er sá að við vitum að aðgengi að hinum svokölluðu vistvænu orkugjöfum, metani og því öllu saman, er ekki til staðar í dag nema á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem vilja nota sér þá orkugjafa verða að búa á höfuðborgarsvæðinu ef þeir leggja upp úr þeim lífsmáta sínum að nýta eingöngu hina svokölluðu vistvænu orkugjafa. Fjórðungssamband Vestfirðinga bendir á það í nefndarálitinu að þá þurfi með einhverjum hætti að gera ráðstafanir til að aðgengi fólks að þessum orkugjöfum verði jafnað. Nefndin tekur undir þá ábendingu Fjórðungssambands Vestfirðinga að uppbygging á þessum vistvænu orkugjöfum verði sett í forgang.

Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því og það verður athyglisvert að fylgjast með hvernig stjórnvöld munu á næstu mánuðum og missirum hrinda þessu máli í framkvæmd úr því að tekjurnar eru til staðar og fjármunirnir eru til staðar í gegnum hækkað kolefnisgjald.

Þriðja atriðið sem mig langar að nefna sem kom mjög oft fram í máli umsagnaraðila um tillöguna er hlutur skógræktar og landgræðslu í þessu sambandi. Mjög margir bentu á að ekki væri gott að í tillögunni væri ekki vikið að fagþætti skógræktar og landgræðslu varðandi bindingu kolefnis. Nefndin tekur undir það með breytingartillögu á sérstöku þingskjali þar sem sett er inn ákveðið ákvæði sem kemur til móts við þessar ábendingar. Það held ég að hafi verið mjög skynsamlegt. Við vitum að það eru miklir möguleikar í þessu sambandi, að nýta skógræktina og landgræðsluaðgerðir til að auka bindingu kolefnis. Þar höfum við Íslendingar mikla sérstöðu. Að minnsta kosti hefur landgræðsluþátturinn, ef ég veit rétt og ég hygg reyndar skógræktin líka, verið samþykktur í alþjóðlegum sáttmálum sem við erum aðilar að þannig að þar er búið að stíga fyrsta skrefið. Þarna er þá áréttað að það sé stefnumótun Alþingis, ef þetta verður samþykkt sem ég geri ráð fyrir, að skógræktar- og landgræðsluhlutinn verði nýttur í þessu sambandi.

Ég tek síðan undir það sem hv. 1. þingmaður Suðurkjördæmis, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sagði áðan, að nú væri skynsamlegt, meðal annars af þessu tilefni, að hverfa frá því sem breytt var á sínum tíma þegar skógrækt ríkisins og landgræðsla ríkisins voru tekin undan atvinnuvegaráðuneytinu og færð undir umhverfisráðuneytið. Ég stóð að vísu að því á sínum tíma, þar var þessum málum skipað þannig að atvinnuvegaþáttur þessara mála, þ.e. Bændur græða landið, verkefnið annars vegar og hins vegar skógrækt bænda, landshlutabundnu skógræktarverkefnin, voru áfram í atvinnuvegaráðuneytinu en Landgræðsla ríkisins, ríkisstofnun, og Skógrækt ríkisins, ríkisstofnun, og skyldir aðilar voru hins vegar undir umhverfisráðuneytinu. Nú hafa skógræktarbændur óskað eftir því að frá því verði horfið og það sett undir eitt ráðuneyti. Ég er sammála því, það er betra þegar reynslan er fengin af þessu og ég mundi vel styðja þessar hugmyndir skógræktarbændanna og styð það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði í þessum efnum.

Að lokum langar mig að koma inn á umræðu sem var dálítið fyrirferðarmikil í nefndinni og varðar þátt svokallaðrar lífrænnar ræktunar. Það er mjög áhugavert verkefni sem hefur verið að hasla sér völl innan íslensks landbúnaðar og verður að mínu mati hluti af íslenskum landbúnaði til frambúðar. Við vildum hins vegar árétta í því sambandi að eðlilegt væri að þar gilti jafnræði, það ætti ekki að vera þannig að það væri nánast eins og stjórnvaldsskipun að menn ættu að hverfa frá hinum hefðbundna landbúnaði og að lífrænni ræktun. Sú umræða hefur stundum verið á dálitlum villigötum. Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um þessi mál í mjög gagnlegri umsögn sem nefndinni var send og við áttum þess líka kost að ræða við þessa umsagnaraðila um þessi mál. Þar kemur meðal annars fram, samkvæmt ábendingum auðlindadeildarinnar, að lífræn ræktun gefi að jafnaði 25–50% minni uppskeru en hefðbundin ræktunarkerfi. Hvað þýðir það? Það þýðir almennt talað að hagkvæmni slíkrar ræktunar er lægri nema því aðeins að það skili sér í hærra verði. Það er auðvitað það sem lífrænir bændur eru að gera, þeir sækjast eftir hærra verði á þeim forsendum að þeir bjóði annars konar vöru en hina hefðbundnu. Þá getur það auðvitað átt rétt á sér og á það sannarlega í ýmsum tilvikum. Þá verða menn líka að hafa í huga að ef við mundum hverfa algjörlega að slíkri ræktun mundi það hafa aðrar afleiðingar í för með sér, það þyrfti þá væntanlega að raska í meira mæli náttúrulegum vistkerfum sem mögulega væri eftirsjá að. Það er því ekki alveg sjálfgefið að hin lífræna ræktun, þó að hún nýti ekki tilbúinn áburð, sé endilega í heildina séð vistvænni þegar á allt er litið.

Ég segi þetta ekki til að tala niður lífræna ræktun, öðru nær, ég tel að hún eigi fyllilega rétt á sér, en ég vil í þessu sambandi benda á það sem nefndin vekur athygli á, að íslenskur landbúnaður er að verulegu leyti miklu vistvænni en sambærilegur landbúnaður erlendis og af ástæðum sem við öll þekkjum. Vandi lífrænnar ræktunar hefur meðal annars falist í þeim umþóttunartíma sem líður frá því að bóndi sem stundar hefðbundinn búskap tekur ákvörðun um að hverfa að lífrænni ræktun og þar til það verður að veruleika. Nokkur ár líða þar sem bóndinn er í þeirri stöðu að hann uppfyllir ekki skilyrðin um lífræna ræktun vegna þess að jarðvegurinn sem hann vinnur úr hefur ekki jafnað sig á þeirri áburðarnotkun og -gjöf sem hann hefur búið við. Þá verður til umþóttunartími, aðlögunartími sem getur verið ansi kostnaðarsamur. Ég tel það fyllilega réttlætanlegt innan til dæmis vébanda búvörusamninganna að veittur sé einhver sérstakur stuðningur til að komast yfir það tímabil, en að öðru leyti er eðlilegt að landbúnaður, hvort sem hann kallast lífrænn eða ekki, búi að því leytinu við sambærileg skilyrði.