140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir með hv. þingmanni sem talaði hér áðan um mikilvægi þess að umhverfismál væru ekki flokkspólitískt umræðuefni, heldur að menn reyndu að nálgast þau með öðrum hætti. Þetta mál er það mikilvægt að það liggur alveg á borðinu að menn eigi ekki að lenda í því að þrasa um það á grundvelli flokkapólitíkur á Íslandi. Það er þannig vaxið að það er auðvitað bæði miklu stærra og víðfeðmara en svo og ég held að sú orðræða sem flokkapólitíkin hefur þróað með sér nái einfaldlega ekki utan um það. Þess vegna er nauðsynlegt að nálgast það með sæmilega opnum hug og átta sig líka á því að löng saga er hér að baki.

Það má til dæmis rifja upp að sú hugmynd Malthusar að með því að mannkyninu fjölgaði og að því gefnu að náttúruauðlindirnar væru allt að því fastar, væri óumflýjanlegt að það yrðu hungursneyðir og plágur. Það sem Malthusi yfirsást var auðvitað að tækniþróun, hugvit mannsins, breytir nýtingu náttúruauðlinda. Það er lykilatriðið í allri þessari umræðu. Það er lykilatriði að átta sig á því að vandinn er, með leyfi forseta, dýnamískur en ekki fastur í einhverri punktstöðu í tíma. Með öðrum orðum, breytingarnar sem verða vegna tækniframfara og nýrra hugmynda gera það að verkum að umfjöllunarefnið, þ.e. náttúruvernd, fær á sig stöðugt nýjar víddir. Þess vegna á það svo ósköp illa við þegar menn missa umræðuna um náttúruvernd niður í flokkspólitískar skotgrafir.

Ég er ósammála hv. þm. Magnúsi Orra Schram um að hingað til hafi það bara verið vinstri flokkarnir á Íslandi sem hafi velt þessum málum fyrir sér. Þegar menn skoða sögu stjórnmála á 20. öldinni er einmitt hægt að finna mörg dæmi um að hægri menn hafi sinnt þessum málaflokki af miklum áhuga og verið þar brautryðjendur. Til dæmis vil ég nefna menn eins og Birgi Kjaran sem var mikill áhugamaður um náttúruvernd og þann málaflokk og skrifaði um þau mál. Ég vil benda á að það voru sjálfstæðismenn sem höfðu forgöngu um að byggja upp hitaveitu til að losa okkur við þann kostnað sem fylgdi olíukyndingu í Reykjavík og þeirri leið að nýta heitt vatn til húshitunar fylgdu auðvitað miklu betri umhverfisleg áhrif. Svona dæmi mörg má telja.

En ég er sammála því að borið hefur á því á undanförnum árum að menn hafi sagt til einföldunar: Vinstri menn vilja styðja umhverfisvernd, hægri menn ekki. Hægri menn berjast fyrir stóriðju og miklum virkjunum, vinstri menn berjast fyrir náttúruvernd. Ég tel að þessi mynd sé mikil einföldun og til skaða og hafi í raun og veru einmitt skaðað náttúruverndarumræðuna á Íslandi og þróun hennar. Viðfangsefnið er miklu flóknara eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu, vegna þess að grænt hagkerfi er miklu meira en bara spurningin um hvar á að virkja og hvort á að virkja o.s.frv. Grænt hagkerfi er miklu flóknara viðfangsefni en það.

Hvað, herra forseti, er grænt hagkerfi? Í mínum skilningi er það það að við náum jafnvægi á milli nýtingar á náttúruauðlindum annars vegar og hins vegar leit okkar mannanna að því að gera líf okkar bærilegt. Það er jafnvægið sem við þurfum að ná.

Orðið hagvöxtur þýðir ekkert annað en að hagur okkar sé að batna. Auðvitað geta menn deilt um hvernig slíkur hagur er mældur. Það er eitt af því sem við ræðum í þingsályktunartillögunni, nákvæmlega þá spurningu hvernig við mælum bættan hag. Vandinn við núgildandi mælikvarða er meðal annars sá að það geta komið upp jafnundarlegir hlutir eins og gerðust þegar Exxon Valdez slysið varð, þar sem hin mikla vinna sem fór fram við að þrífa upp eftir slysið mældist sem aukning á þjóðarútgjöldum og þar með sem einhvers konar hagvöxtur. Það segir sig auðvitað sjálft að mjög erfitt er að komast að þeirri niðurstöðu að hagur manna hafi batnað við þetta hörmulega slys og þau umhverfisspjöll sem af því hlutust. Því skiptir máli að menn horfi á þessa mælikvarða og nálgist þá út frá þessari spurningu: Hvað eigum við við þegar við segjum bættur hagur fólks?

Ég vil líka nefna, vegna umræðunnar áðan um hægri og vinstri, að á enskri tungu nota menn um hægri menn einmitt orðið, með leyfi forseta, „conservative“ eða íhaldssamur. Hvað er það? Það er að vernda það sem reynist vel. Það er að gæta þeirra hluta sem hafa verðmæti fyrir okkur; verndunarstefna. Hún á bæði við fyrirkomulag þjóðskipulagsins sem við höfum komið okkur upp, en ekki síður náttúruna af því hún er svo stór hluti af daglegu lífi okkar.

En hitt er líka, og er alveg nauðsynlegt að nefna það og án þess að detta í flokkspólitískar skotgrafir, að ég get tekið undir með hv. þm. Magnúsi Orra Schram að það er einmitt ríkisvaldið sem er svo hættulegt þegar kemur að umhverfismálum.

Fyrir ekki svo löngu var birt í einu af dagblöðum sem hér eru gefin út umfjöllun um tíu menguðustu staði á jarðríki. Hvaða staðir voru það, herra forseti, og hvar voru þeir? Jú, þeir voru einmitt í þeim ríkjum þar sem frjáls markaður hefur hvað minnst áhrif, þar sem ríkisvaldið er raunverulega ægisvald. Þeir eru þar þar sem óvandaðir stjórnmálamenn með mikil völd hafa valdið alveg skelfilegum umhverfisskaða. Þetta er rétt að hafa í huga þegar menn velta fyrir sér áhuga mismunandi stjórnmálaarma eða stjórnmálaskoðunum. Það er augljóst í mínum huga að hagsmunirnir eru algjörlega sameiginlegir, en síðan greinir menn oft á um aðferðir. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að færa fyrir því mjög veigamikil rök að markaðslausnirnar svokölluðu séu best til þess fallnar að drífa áfram hið græna hagkerfi.

Aðalforsenda þess að markaðslausnir geti virkað er að skilgreindur eignarréttur liggi fyrir. Það er grundvallaratriði. Mörg þeirra vandamála sem við er að fást vegna náttúruverndar snúa að því að eignarréttur er ekki skilgreindur. Með öðrum orðum, menn geta mengað án þess að bera kostnaðinn. Besta dæmið auðvitað um þetta og um leið erfiðasta er mengun andrúmsloftsins þar sem nær ógerningur er að koma á einhvers konar eignarrétti, sennilega er það ógerningur. Það kallar fram þá nauðsyn að einhvers konar fjölþjóðlegt samstarf náist um það hvaða regluverk við viljum setja til að draga úr mengun andrúmsloftsins. Margt annað er hægt að leysa með því að koma á séreignarrétti og þar með draga úr þeim vanda sem uppi er.

Mengunarbótareglan sem reifuð er í þessu plaggi snýr nákvæmlega að þeirri hugsun að sá sem mengar verði að greiða fyrir það, að menn geti ekki sett vörur á markað, haldið niðri framleiðslukostnaði á þann hátt að að framleiðslukostnaðurinn lendi á öðrum, að aðrir verði að bera kostnaðinn sem gæti t.d. falist í því að þurfa að hreinsa upp og grípa til ráðstafana til að venda náttúruna vegna slíkrar framleiðslu. Hugmyndin er ekki sú að menn geti notað slíka nálgun sem einhvers konar afsökun eða réttlætingu fyrir hækkandi sköttum eða noti hugsunina á bak við mengunarbótaregluna til að réttlæta aukin inngrip ríkisvaldsins. Þar reynir auðvitað á stjórnmálamenn. Það þarf að grípa til aðgerða ef menn geta ekki komið á eignarrétti og ef um er að ræða mengandi starfsemi sem setur kostnað á aðra borgara. Þetta skiptir miklu máli.

Síðan er það hitt, herra forseti, og það er það sem ég er svo ánægður með í þessum tillögum, að hugsunin á bak við þetta allt saman er sú að saman fari hagvöxtur eða bættur hagur fólksins og verndun náttúrunnar í víðasta skilningi þess orðs. Þetta er ekki hugsunin um að ekkert megi gera, til engra framkvæmda megi grípa, að engar breytingar geti orðið á landslagi eða að öll mengun verði útilokuð. Þetta er ekki sú sýn, herra forseti, heldur hugsunin um það að ekki sé hægt að byggja á því til framtíðar að við bætum hag okkar jafnt og þétt á kostnað náttúrunnar. Það er lykilatriði. Þessir hlutir verða að fara saman.

Ég hef verið ósammála málflutningi þeirra sem hafa talað þannig að það sé einhvers konar ósamrýmanleg og óbrúanleg gjá á milli markaðsfyrirkomulagsins annars vegar og hins vegar náttúruverndar. Ég tel að þeir horfi algjörlega fram hjá því að lykillinn að bættri nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd almennt felst einmitt í mannvitinu, í nýrri tækni. Það er nákvæmlega það sem Malthusi yfirsást hér í gamla daga að mannvitið, hugmyndirnar og tæknin gera að verkum að við getum nýtt náttúruna og staðið undir hagvexti fleiri og fleiri manneskja án þess að eyðileggja náttúruna.

Um þetta má nefna fjölmörg dæmi. Til dæmis er hægt að benda á bílaiðnaðinn og hvernig framleiðsla á bílum hefur gjörbreyst á síðustu áratugum vegna kröfunnar um náttúruvernd, vegna þess að olía er takmörkuð auðlind. Hvað gerist? Það er verið að leggja gríðarlega vinnu út um allan heim í að finna upp bíla sem nota minni og minni orku, menga minna og minna.

Ég hef oft í þessari umræðu, herra forseti, nefnt dæmi um þær áhyggjur sem menn höfðu af framboði af silfri, en þannig var á árum áður að menn höfðu miklar áhyggjur af því að eftir því sem ljósmyndatækni yrði útbreiddari og fleiri og fleiri íbúar jarðarinnar gætu farið að taka ljósmyndir, mundi ganga æ meira á silfurbirgðir heimsins af því að silfur er notað í filmurnar. Um þetta voru skrifaðar lærðar ritgerðir og af þessu höfðu menn miklar áhyggjur. En það sem gerist síðan, herra forseti, er að með tilkomu stafrænnar tækni, með tilkomu tölvutækninnar, breytist algjörlega hvernig menn taka ljósmyndir. Nú er það orðið þannig að allur fjöldi þeirra sem taka ljósmyndir notar til þess stafrænar myndavélar. Og áhyggjurnar sem við höfðum af því að silfurbirgðir heimsins þryti við það að vera allar notaðar í filmu — menn höfðu alveg sérstakar áhyggjur af því þegar Kínverjar mundu allir eignast ljósmyndavél — hafa ekki gengið fram vegna tæknibreytinga. Það er lykilatriðið.

Herra forseti. Ég ætlaði að nota síðustu fimm mínúturnar mínar til að hnykkja á þeim fyrirvörum sem ég gerði á þeim tillögum sem hér er rætt um. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem vann þessa vinnu. Fyrsti fyrirvari sem ég gerði og ég tel kannski einna mikilvægastan, snýr að hinni svokölluðu varúðarreglu. Varúðarreglan er auðvitað mikilvæg regla sem skiptir verulega miklu máli, þ.e. hvaða grunn ætlum við að setja stjórnsýslunni í landinu þegar kemur að því að meta hvort grípa eigi til einhvers konar ráðstafana vegna framkvæmda sem menn hafa áhyggjur af að hafi áhrif á umhverfið.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna í hvítbók um náttúruvernd á Íslandi. Þar er röksemdin að baki varúðarreglunni reifuð. Þar segir:

„Röksemdin að baki varúðarreglunni er óvissa, í flestum tilvikum vísindaleg óvissa og skortur á upplýsingum, um hvort ákveðnar aðgerðir eða eftir atvikum aðgerðaleysi muni hafa óæskileg áhrif á umhverfið. Þrátt fyrir óvissu ber eftir sem áður að grípa til fyrirbyggjandi varúðarráðstafana jafnvel þótt ekki sé mögulegt að sýna fram á orsakatengslin á milli tiltekinna athafna og áhrifa þeirra.“

Ég endurtek þetta, herra forseti, „jafnvel þótt ekki sé mögulegt að sýna fram á orsakatengslin á milli tiltekinna athafna og áhrifa þeirra.“ Þetta skiptir máli.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi túlkun á reglunni sé ekki góður grunnur undir stjórnsýslu. Ég reifa sjónarmið hér í þessari bókun og um leið líka set ég fram þær tillögur sem ég hef um hvernig rammi slíkrar reglu ætti að vera. Ég tel að varúðarreglan eigi að vera sú að ætíð fari fram vel ígrundað og vísindalegt mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda og síðan verði lagt mat á þjóðhagslegt eða byggðatengt mikilvægi framkvæmdarinnar annars vegar og hins vegar mat á áhrifum á umhverfið.

Síðan segi ég, og leyfi ég mér að grípa niður í bókun mína, með leyfi virðulegs forseta:

„Við mat á því hvort nauðsynlegt sé að grípa til fyrirbyggjandi varúðarráðstafana verður að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta á grunni þeirra vísindalegu upplýsinga sem liggja fyrir hverju sinni.“

Með öðrum orðum er ekki hægt að nálgast það þannig, og það er mikilvægt að mínu mati að þessi skilningur komi fram, það er ekki nóg að sagt sé bara: Ég hef áhyggjur af því að eitthvað geti gerst, þar af leiðandi verður framkvæmdaraðilinn að grípa til ráðstafana. Það verður auðvitað að sýna fram á það með sæmilega haldbærum rökum að slíkar áhyggjur eigi rétt á sér vegna þess að með þessari túlkun sem ég hef áhyggjur af er þetta of opið. Það er hætta á því að þetta verði túlkað þannig í verki eða þróunin verði sú að Íslendingar geti ekki nýtt náttúruauðlindir sínar með eðlilegum hætti.

Ég gerði, herra forseti, fleiri athugasemdir. Ég lagði fram bókun vegna tillögu nr. 29, sem snýr að mengunarbótareglunni sem ég ræddi áðan. Ég vildi taka fram að vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í efnahagsmálum þjóðarinnar teldi ég og vildi árétta að ef lagðir yrðu á einhverjir nýir skattar eða gjöld yrði að hafa tvennt mjög svo í huga. Í fyrsta lagi er það tímasetning slíkrar álagningar. Við verðum að horfast í augu við það að einhver stærsti efnahagsvandi þjóðarinnar er skortur á fjárfestingu, menn verða því að horfa til þessa. Í öðru lagi er það samspil við önnur gjöld. Ég er þeirrar skoðunar að ef lagðir verða á nýir skattar eigi að lækka aðra skatta á móti. Ef ríkið tekur til sín aukin gjöld vegna mengunarbótareglunnar eigi að lækka tekjur ríkisins á móti.

Síðan, herra forseti, gerði ég athugasemd og bókun vegna tillögu nr. 43, en í henni eru lagðar til hækkaðar álögur á bifreiðaeigendur. Ég tel að álögur á þá séu óhóflega miklar og bensínverðið mjög hátt. Þó að tilgangurinn sé ágætur, sem er sá að leggja á gjald og nota það til að stuðla að orkuskiptum eða nýjum lausnum hvað varðar orku fyrir bíla, er ég ekki tilbúinn að styðja að lagðir verði auknir skattar á bifreiðaeigendur, nóg er nú samt og sennilega ástæða til þess að lækka þá.

Síðan geri ég athugasemd við bókun varðandi tillögu 40 sem snýr að stofnun auðlindasjóðs. Ég hef reifað á öðrum vettvangi, bæði hér og annars staðar, skoðanir mínar á þeim hugmyndum sem liggja að baki stofnun slíks sjóðs og auðvitað þeim miklu deilum sem snúa að eignarhaldi á auðlindum o.s.frv. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér en vek eingöngu athygli á bókuninni.

Síðan að lokum, herra forseti, hvað varðar fjárútgjöld til þess að hrinda þessum hugmyndum og fleirum úr vör er rétt að við horfumst í augu við að staða ríkissjóðs er erfið. Þeim fjármunum sem við ætlum að nota til þessara verka þarf að verja með mikilli hugkvæmni og að vanda sig mjög, vegna þess að aðrir þættir eins og menntamálin og heilbrigðismálin kalla líka mjög á aukin fjárútgjöld.

Samantekið, herra forseti, styð ég þessa þingsályktunartillögu, vegna þess að ég tel að með henni séum við að stíga heillaskref í þá átt að saman fari í umræðunni krafan um hagvöxt og bættan hag þjóðarinnar og um leið líka að vernda náttúruna og tryggja að komandi kynslóðir fái sömu tækifæri og helst meiri (Forseti hringir.) en við sem nú lifum.