140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Skúli Helgason fór yfir það í ræðu sinni um nefndarálitið að þessi breyting á stöðu neytenda yfir í einstaklinga og heimila var gerð með það að leiðarljósi að fyrirtæki og ýmsir lögaðilar teldust líka til neytenda. Ætlunin var fyrst og fremst sú að veita einstaklingum og heimilum sterkari stöðu og betri upplýsingar um rétt sinn. Ég er algjörlega sammála þessari áherslubreytingu.

Hvað varðar aðila á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán fór hv. framsögumaður líka yfir af hverju þessi víkkun var gerð. Það kemur til af því að ef eingöngu er talað um fyrirtæki á fjármálamarkaði sem veita allra handa þjónustu, jafnt innlán sem útlán sem og aðra fjármálagjörninga, nær það ekki til allra þeirra sem veita neytendalán. Ýmsir aðilar sem veita lán mundu ekki falla undir þá skilgreiningu sem var í fyrstu tillögunni. Það þýðir ekki að sparifjáreigendur séu útilokaðir þó að tillagan sé orðuð með þessum hætti.

Ég tel að nefndin hafi unnið mikið gagn með vinnu sinni og sett tillöguna í góðan búning. Ég lít svo á af lestri nefndarálitsins að það liggi ljóst fyrir að hér sé átt við alla þá sem eiga, einstakling eða heimili, í samskiptum við fjármálastofnanir og þá aðila sem veita neytendalán og enginn hópur sé þar sérstaklega undanskilinn.