140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér þykir leitt að tefja og lengja umræðuna, en mér finnst yfirgengilegt hvað menn huga lítið að stöðu þeirra Íslendinga sem með ráðdeild og sparsemi hafa lagt fyrir og eru að leggja fyrir. Spara fé, fresta neyslu, kaupa ekki, fara ekki í ferðalög o.s.frv., og standa ekki í þeim glannaskap sem mjög margir stóðu í á sínum tíma þegar þeir keyptu sér bíla sem þeir höfðu ekki efni á. 40 þús. landsmenn keyptu sér bíla með mjög áhættusömum lánum, sem reyndust reyndar seinna vera ekki eins dýr, og vissu af áhættunni. Ég veit að ráðgjafar bankanna fóru í gegnum það með mörgum og sögðu að ef gengið félli svo og svo mikið væri viðkomandi enn í gróða eftir fimm ár — en þeir reiknuðu ekki með því gengisfalli sem síðan varð. Farið var mjög vel í gegnum áhættuna með mjög mörgum þó að kannski hafi verið misbrestur á því.

Ég hef líka heyrt sögur um það að hringt hafi verið í fólk sem átti sparifé og því ráðlagt að kaupa jafnvel hlutabréf eða í peningamarkaðssjóðum eða öðrum fjárfestingarmöguleikum sem voru miklu áhættusamari. Það voru 55 þús. heimili — bara venjuleg heimili — sem töpuðu 80 milljörðum í hruninu, bara á hlutabréfum. Ég er ekki að tala um innstæðurnar sem rýrnuðu í erlendri mynt þannig að menn geta ekki lengur keypt sér þann bíl sem þeir gátu keypt sér á þeim tíma, eða aðrar erlendar vörur sem hafa hækkað í takt við gengishrunið.

Þannig að sparifjáreigendur hafa verið að tapa auk þess sem 75–80% af sparnaði heimilanna er inni á óverðtryggðum reikningum. Menn geta spurt sig af hverju hann sé á óverðtryggðum reikningum ef það á að vera svona ógurlega gróðavænlegt að eiga þá á verðtryggðum reikningum. Það er vegna þess að menn þurfa að binda peningana í þrjú ár og sumir geta það kannski ekki, þurfa á þeim að halda áður, eða þeir treysta ekki bönkunum í þrjú ár.

Nú standa margir í þeirri trú að það sé ríkisábyrgð á innstæðum. Svo er ekki. Hæstv. fyrrv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon svaraði því hreint út þegar ég spurði hann beint að því: Að sjálfsögðu væri ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Það er yfirlýsing ráðherra um að innstæður séu tryggar, en ríkið mun aldrei í lífinu geta tryggt allar þær innstæður sem eru á Íslandi, 2.000 milljarða, ef eitthvað kæmi fyrir. Ég vildi bara að þetta kæmi fram þannig að sparifjáreigendur standi ekki í þeirri trú að það sé ríkisábyrgð á innstæðum.

Þannig að til viðbótar við mjög lága vexti, langt undir verðbólgu, vextir á bestu bókunum eru kannski komnir upp í 4% í 6,5% verðbólgu, svo eru þessir 3 eða 4% vextir eða hvað það nú er skattaðir um 20%, þannig að 4% verða 3,2% í 6,5% verðbólgu.

Þessi þingsályktun hefði getað verið góð ef áherslan verið tekin af þessum eina hópi, skuldurum, og horft á hinn hópinn líka sem er ekkert síður mikilvægur, og í mínum huga jafnvel mikilvægari, vegna þess að þar er uppsprettan. En það er ekki gert. Þessi ríkisstjórn heldur áfram að skattleggja sparifjáreigendur.

Svo eru sögur um að þeir sem áttu spariskírteini eða húsbréf og innleystu þau eftir skattahækkunina þurfi að borga skatta aftur í tímann, 13 ár frá upptöku fjármagnstekjuskattsins. Þeir borga 18% eða jafnvel 20% skatta aftur í tímann þó að stjórnarskráin banni afturvirkni skatta. Þetta er komið í málaferli, það þarf að bíða eftir niðurstöðu þeirra og menn þurfa að leggja í óheyrilegan kostnað til að standa í þeim málaferlum til að verja sig fyrir þessari ásælni ríkisins. Ríkið leyfir sér að skattleggja þessar fjármagnstekjur með 18% eða 20% 13 ár aftur í tímann, frá 1997 þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp.

Ég hefði gjarnan viljað sjá eitt orð um sparifjáreigendur í þessari þingsályktun, eitt orð. Hér er bætt inn orðalagi sem útilokar að menn geti túlkað þetta sem svo að þetta sé líka fyrir sparifjáreigendur. Það á því að halda áfram að hrekkja sparifjáreigendur. Það má vel vera að eftir einhvern tíma, kannski fjögur, fimm eða tíu ár þegar útlendingarnir eru flúnir með allt sitt fé, þá 1.000 milljarða sem við þurfum að afla gjaldeyris fyrir, verði skortur á sparifé eins og ég þekkti svo vel þegar ég kom frá námi, þá var hvergi nokkurs staðar lán að hafa.