140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

greiðsluþátttaka ríkissjóðs vegna uppbyggingar Helguvíkurhafnar.

113. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna uppbyggingar Helguvíkurhafnar.

Framhald umræðu, sagði virðulegur forseti. Það sérstæða er að þegar ég hóf að mæla fyrir þessu frumvarpi, ég hafði byrjað á að mæla fyrir því fyrir allnokkru, kom í ljós að á frumvarpið vantaði flutningsmenn svo ég dró mig í hlé og síðan eru liðnir reyndar nærri fjórir mánuðir. Það er mjög sérstakt. Þetta mál fór í rauninni niður á milli skips og bryggju. Ég taldi að af því að ég hafði byrjað á að mæla fyrir því hefði það farið til nefndar en það gerði það ekki svo nú hefjum við leikinn. Málið féll niður á milli skips og bryggju en þetta varðar reyndar eina af stóru höfnunum í landinu svo það er kannski við öllu að búast.

Þetta frumvarp snýst um það, virðulegi forseti, að Helguvíkurhöfn njóti sömu réttinda í íslensku samfélagi og allar aðrar hafnir á Íslandi hafa notið, þ.e. að hluti af framkvæmdinni sé styrkhæfur með þátttöku ríkissjóðs, enda er slík höfn og hafnir landsins náttúrlega byggðar til þess að afla tekna fyrir þjóðarbúið. Ætla má að þegar Helguvíkurhöfn verður fullbyggð, með þeim mannvirkjum sem má ætla að þar verði, verði tekjur ríkissjóðs af Helguvíkurhöfn um einn milljarður á mánuði. Það er ekki lítið. Því skiptir miklu máli að fylgja þessu eftir og láta réttlætið ganga sinn veg.

Þegar farið var af stað með Helguvíkurhöfn var sú staða á Suðurnesjum að Bandaríkjaher hafði horfið af Keflavíkurflugvelli án nokkurs fyrirvara og sýndi í rauninni þar með íslensku samfélagi mikinn dónaskap og ódrengskap að ekki skyldi farið fram í þeim efnum með eðlilegri aðlögun. Þetta var með ólíkindum og sýnir einfaldlega hverjum við eigum að treysta og hverjum við getum treyst. Þá var farið í ýmsar aðgerðir á Suðurnesjum sem því miður hafa margar strandað vegna þráteflis í kerfinu, bæði pólitísks og af öðrum ástæðum. Forsvarsmenn sveitarfélaganna á Suðurnesjum brugðust mjög snarpt við því hruni sem varð á atvinnumarkaði þar þegar Bandaríkjaher hvarf á braut en það olli uppnámi sem ekki sér fyrir endann á.

Sveitarstjórnarmenn, ekki síst í Reykjanesbæ, brugðust mjög fast við og markvisst og komu með hvert innleggið á fætur öðru til að bæta úr og koma hlutunum aftur í réttan farveg með eðlilegu framboði af atvinnu og uppbyggingu á svæðinu. Þetta hefur tekið tímann og ekki því miður fengið þann framgang sem skyldi hjá stjórnvöldum landsins.

Mörg fordæmi eru fyrir því frá fyrri áratugum að farið sé í framkvæmdir í ýmsum þáttum sveitarfélaga, bæði vegaframkvæmdum, hafnarframkvæmdum og öðru, í samskiptum og samstarfi við stjórnvöld, rétt stjórnvöld í landinu, án þess að í upphafi sé endanlega gengið formlega frá þáttum sem tryggja eðlilegan gang. Auðvitað á slíkt að gerast í leiðinni að því að framkvæmdir hefjist eða áður en þeim lýkur.

Þannig var með Helguvíkurhöfn, sem er uppskipunarhöfn, öflug uppskipunarhöfn fyrir Suðurnesin, fyrir margar byggðir þar, olíuuppskipunarhöfn, loðnuuppskipunarhöfn, frakthöfn og flytur vonandi áður en langt um líður varning bæði heiman og heim tengt stórvirkum atvinnufyrirtækjum, svo sem eins og kísilverksmiðju og álverksmiðju.

Það verður bara að segja hlutina eins og þeir eru. Þegar þetta gekk allt yfir við erfiðar aðstæður undir miklum þrýstingi og vilja stjórnenda á Suðurnesjum til að bæta úr fljótt og vel brugðust þrír ráðherrar sem áttu að tryggja framgang málsins í kerfinu í samræmi við það sem þeir höfðu lofað á fundum með sveitarstjórnarmönnum. Þetta voru hæstv. ráðherrar, virðulegi forseti, Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra. Þeir hnýttu ekki upp þá enda sem þeir áttu að hnýta og þess vegna hefur mikill tími farið í vangaveltur og tog um það að þetta gæti gengið eftir.

Hafnalögunum var breytt í byrjun þessarar aldar, um 2003, 2004, og samt eru enn í gildi ákvæði sem tryggja rétt hafna til að njóta fyrirgreiðslu sem hefur tíðkast hjá öllum höfnum landsins eins og ég gat um áðan. Þetta er vandamál Helguvíkurhafnar sem er eina höfnin á landinu sem hefur ekki fengið sömu fyrirgreiðslu og jafnræði og aðrar hafnir landsins. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, hvort sem um er að ræða eðlilegt ástand eða erfitt og óeðlilegt sem nú er með miklu atvinnuleysi og miklum vandamálum. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram. Enn þá eru í gildi þau lög sem heimila að unnið sé samkvæmt fyrri hafnalögum, það gildir út þetta ár, og því skiptir miklu máli að Alþingi grípi nú í taumana og sýni jafnræðisreglunni virðingu.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að ríkissjóði verði heimilt að styrkja hafnarframkvæmdir í Helguvíkurhöfn í samræmi við það sem gert hefur verið áður. Samkvæmt eldri hafnalögum var stækkun hafna styrkhæf. Með setningu gildandi hafnalaga 2003 var greiðsluþátttöku ríkissjóðs breytt þannig að þetta hlutfall breyttist. Reyndar var það gert að mínu mati af miklum misskilningi vegna þess að þá byggðist breyting á hafnalögum á því að allar hafnir landsins væru taldar samkeppnishafnir. Þetta er náttúrlega slík fásinna að það er með ólíkindum að þetta skyldi vera gert. Það er hægt að tala um slíkt á ákveðnum svæðum í Mið-Evrópu. Þar eru samkeppnishafnir en þær eru ekki á Íslandi. Menn eru búnir að sjá það núna að þetta voru mistök. Vonandi verður því breytt innan tíðar til fyrri vegar, því að með þessu er verið að setja margar hafnir, sérstaklega smáar hafnir, í algjöra klemmu og stefnir í að sumum litlu höfnunum verði hreinlega lokað vegna þess að ekki er hægt að halda þeim úti. Við vitum alveg hvað höfn þýðir fyrir eina byggð, höfn er lífæð hverrar byggðar á landsbyggðinni.

Eins og fram kemur í greinargerð með lögunum sem ég gat um takmarkast þátttaka ríkisins í þeim tilfellum við skjól í höfnum en þetta frumvarp miðar við það að í núgildandi hafnalögum var bráðabirgðaákvæði sett við 24. gr. sem gerir ráð fyrir að þrátt fyrir ákvæði í þeirri grein sé ríkissjóði heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum, samanber ákvæði um greiðsluþátttöku í eldri hafnalögum. Sem sagt að jafnræði gildi áfram að minnsta kosti í ákveðinn tíma og hann er ekki liðinn. Það gengur ekki að láta eina höfn í landinu standa út af og lúta í lægra haldi og njóta ekki sama réttar og aðrar hafnir.

Vandinn er hins vegar sá að þegar kemur að framkvæmdum í Helguvíkurhöfn kemur upp sú staða að þar sem framkvæmdir þar voru ekki komnar inn á samgönguáætlun 2005–2008 geta þær ekki hlotið styrk á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins. Með frumvarpi þessu eru því settar sérreglur um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna hafnarframkvæmda í Helguvíkurhöfn og byggist frumvarpið á ákvæðum III. kafla eldri hafnalaga, nr. 23/1994, um greiðslu kostnaðar við hafnargerð og umsóknir um ríkisframlag.

Allir þættir sem skilgreindir eru fyrir þátttöku ríkissjóðs í slíku mannvirki eru til staðar í Helguvíkurhöfn, allir þættir. Þar er sjálfstæður hafnarsjóður og höfn. Þar hefur hafnarsjóður tryggt sér eignarrétt á landsvæðinu og þar er unnið samkvæmt tæknilegri og fjárhagslegri áætlun um útgjöld og greiðslu kostnaðar sem eigendur hafna hafa samþykkt, svo og ráðuneytið að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingamálastjóra. Þar vantar að hnýta upp, hnykkja á því sem menn vita allir að búið var að lofa en ekki búið að setja með traustum hætti á blað. Reyndar eru eins og ég sagði í upphafi máls míns mörg dæmi þess að slík vinnubrögð séu ekki fordæmislaus. Um þau eru mörg fordæmi, bæði í vegagerð og hafnargerð.

Eins og fram hefur komið er uppbygging Helguvíkurhafnar nauðsynleg, bráðnauðsynleg og lífsnauðsynleg fyrir atvinnulíf á svæðinu. Með tilkomu álvers, sem byrjað er að byggja og verður eins og allt bendir til lokið þó að seinkanir hafi orðið á framkvæmdinni, og annarra stóriðjuframkvæmda og stórverkefna á svæðinu aukast atvinnu- og skatttekjur sveitarfélagsins sem og ríkissjóðs. Í ljósi efnahagslegra forsendna og mikils atvinnuleysis á svæðinu er mikilvægt að styrkja nauðsynlegar framkvæmdir sem munu hafa góð áhrif á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi.

Flutningsmenn telja að uppbygging Helguvíkurhafnar sé lífsnauðsynleg fyrir eðlilega uppbyggingu á svæðinu og þar að auki séu fullkomin rök fyrir því að Helguvíkurhöfn verði ekki skilin út undan, ein hafna landsins, þegar kemur að þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu á slíku verkefni.

Framkvæmdatíminn á dæminu er langur, lítil hætta á ofþenslu vegna þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru, en öllu máli skiptir að tryggja að þetta hangi ekki í lausu lofti eins og það hefur gert núna í mörg ár. Því er mikilvægt að samþykkja þetta frumvarp og tryggja þannig jafnræði með sveitarfélögum landsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til samgöngunefndar.