140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

253. mál
[16:32]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við það mál sem hér hefur verið talað fyrir og málflutning hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í ræðu hennar. Ég er raunar á þeirri skoðun að ganga ætti lengra og Alþingi ætti að taka sig til og afnema í heild sinni umrædd lög. Það væri hreinlegast, það væri sterkast, þannig mundum við búa til einn samleitan og skilvirkan vinnumarkað þar sem launafólk gæti flætt frjálst á milli starfa í opinberri þjónustu og starfa á almennum vinnumarkaði. Það mundi líka vera hvati til meiri samstöðu um að bæta réttindi launafólks á almennum vinnumarkaði og líka þess launafólks sem vinnur hlið við hlið en tilheyrir tveimur mismunandi stéttarfélögum í þjónustu sveitarfélaganna og þjónustu ríkisins. Þetta yrði aukinn hvati til að auka og bæta réttarstöðu þeirra. En fyrst og síðast lýsi ég yfir eindregnum stuðningi við þetta þingmál.