140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um útgáfu virkjanaleyfa, breytt eignarhald Landsvirkjunar og félagsform fyrirtækisins, verkefnafjármögnun og undirbúningsvinnu vegna lagningar rafstrengs til Evrópu. Eins og fram kemur er þetta fjórskipt þingsályktunartillaga og hún byggist á því að Alþingi samþykki að fela ríkisstjórninni að skipa fimm manna nefnd sem geri úttekt á eftirfarandi þáttum.

Ég ætla að fara fyrst í úthlutun virkjanaleyfa, síðan í eignarhlut í Landsvirkjun, þ.e. hvort komi til greina að selja 30% hlut til lífeyrissjóðanna. Síðan í verkefnafjármögnun, hvernig standa eigi að henni, og að lokum að skoða kosti og galla sæstrengs. Þetta byggir allt á því að við sem leggjum þetta fram, sem eru auk mín hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Siv Friðleifsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, leggjum til að ríkisstjórnin skipi fimm manna nefnd til að gera úttekt á þessum þáttum.

Ef ég fer til að mynda í fyrsta liðinn, um úthlutun virkjanaleyfa, þá býr Ísland yfir miklum hreinum og endurnýjanlegum orkuauðlindum. Ætla má að arðsemi af nýtingu náttúrulegra auðlinda geti í fyrirsjáanlegri framtíð orðið mikil. Mikilvægt er að tryggja að almenningur á Íslandi njóti umtalsverðs hluta af afrakstri þeirra og að nýting orkuauðlindanna stjórnist af heildarhagsmunum landsmanna. Í Noregi, sem lengi hefur verið í fararbroddi ríkja sem framleiða og selja orku, virðist áberandi það samfélagssjónarmið að almenningur njóti mjög stórs hluta af þeim ábata sem til verður við nýtingu náttúrulegra orkuauðlinda. Varla verður öðru haldið fram en að þessi stefna Norðmanna hafi reynst þeim vel og ábatinn sem almenningur nýtur sé mikill. Í um hundrað ár fylgdu norsk stjórnvöld þeirri opinberu lögbundnu stefnu að þó svo að einkaaðilum væri að ákveðnu marki heimilt að fjárfesta í raforkuvinnslu skyldu allar virkjanir í eigu einkaaðila, í fyllingu tímans, renna endurgjaldslaust til ríkisins. Hins vegar var nýlega, með lögum, lokað á nýfjárfestingar einkaaðila í greininni og var það gert í kjölfar þess að EES-dómstóllinn dæmdi fyrirkomulag Norðmanna andstætt EES-rétti. Samkvæmt hinum nýju lagabreytingum sem samþykktar voru til að bregðast við dómnum geta einkafyrirtæki ekki aukið hlutdeild sína í raforkuframleiðslunni í Noregi frá því sem nú er og einkaaðilar geta ekki fengið nein ný leyfi fyrir virkjunum sem eru stærri en tæp 3 MW. Aftur á móti geta einkaaðilar fengið leyfi til að byggja minni virkjanir. Vegna hækkandi raforkuverðs hefur áhugi fyrir byggingu slíkra rafstöðva aukist mjög í Noregi á síðustu árum og stefnir í að mikill fjöldi lítilla virkjana verði byggður.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að sérstaklega verði skoðað hvort ekki sé ástæða til að Íslendingar feti svipaða braut og Norðmenn og að hér verði við úthlutun virkjanaleyfa til raforkuframleiðslu sem byggist á nýtingu náttúruauðlinda, jafnt á eignarlöndum sem þjóðlendum, við það miðað að virkjanir stærri en 5–10 eða jafnvel 15 MW séu í eigu orkufyrirtækja sem eru í eign ríkis eða sveitarfélaga, eða félaga í þeirra eigu, að a.m.k. 2/3 hlutum. Nýtingarréttur á eignarlöndum verði metinn á sanngjarnan hátt og hvati verði skapaður fyrir landeigendur til að nýta orkukosti á sínu landi til að byggja smáar virkjanir, þeim til hagsbóta.

Það má nefna að ég kom við á ráðstefnu í dag sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík þar sem voru meðal annars norskir sérfræðingar sem fjölluðu um þennan þátt. Þeir voru reyndar að tala um að það væru allt að 5 MW sem minni aðilar mættu fjárfesta í og byggja, en annars mundi ríkið, stóri aðilinn koma þar inn og byggja upp þær virkjanir. Það er mikilvægt að skoða þennan lið og velta honum fyrir sér. Tilgangurinn er auðvitað sá að tryggja að afraksturinn fari til almennings í landinu, afraksturinn af auðlindinni, en jafnframt að hvetja til þess að nýta þessar minni virkjanir. Þó að menn séu að tala í Noregi um 3–5 MW finnst okkur sjálfsagt að skoða hvort 5, 10 eða jafnvel 15 MW væri eðlileg stærðargráða hér á landi og byggist það meðal annars á því að hér er víða jarðvarmi sem er í einkaeigu á einkalandi og ekki óeðlilegt að slíkir aðilar geti nýtt þá auðlind til að framleiða rafmagn.

Varðandi b-liðinn, þ.e. um sölu á hlut í Landsvirkjun, er rétt að geta þess að ef tekið er mið af þeirri framtíðarsýn sem forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa kynnt á undanförnum missirum virðist ljóst að fyrirtækið muni á næstu árum ráðast í verulegar fjárfestingar í nýjum vatnsafls- og jarðhitavirkjunum. Til að hrinda svo umfangsmiklum fjárfestingum í framkvæmd, og í ljósi mikillar óvissu á erlendum lánamörkuðum bendir ýmislegt til þess að styrkja þyrfti eiginfjárgrunn Landsvirkjunar með nýju eigin fé. Í Noregi eru fyrirtæki í eigu hins opinbera (ríkis, sveitarfélaga og fylkja) með um 90% af allri raforkuframleiðslu og fer þetta hlutfall að óbreyttum lögum hækkandi á næstu árum. Norska fyrirtækið Statkraft sem er langstærsti raforkuframleiðandi í Noregi með um 34% af heildarraforkuframleiðslunni er að fullu í eigu norska ríkisins. Í olíu- og gasvinnslu er norska fyrirtækið Statoil með á sínum snærum um 80% af allri olíu- og gasvinnslu á norska landgrunninu. Árið 2001 ákváðu norsk stjórnvöld að skrá Statoil á hlutabréfamarkað og er fyrirtækið nú bæði skráð á hlutabréfamarkaði í Noregi og í New York. Norska ríkið er hins vegar áfram ráðandi aðili í félaginu og á 67% af hlutabréfum í því. Auk hagnaðar af rekstri Statoil hefur norska ríkið gríðarlegar tekjur af skattlagningu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu í Noregi og má áætla að fyrirtæki í þessum geira greiði allt að 78% skatt beint eða óbeint af rekstrarhagnaði. Hagnaður af rekstri Statoil og skatttekjur frá fyrirtækjum í olíu- og gasvinnslunni í Noregi hafa lagt grunninn á undanförnum áratugum að gríðarlegri sjóðsuppbyggingu svokallaðs „Statens pensjonsfond“, eins og við þekkjum.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að skoðað verði hvort hagkvæmt sé fyrir ríkissjóð og landsmenn að gefa öflugum innlendum langtímafjárfestum eins og lífeyrissjóðunum kost á að koma inn í Landsvirkjun, t.d. á næstu fimm árum, sem eigendur að fyrirtækinu með eignarhlut sem væri samtals allt að 30%. Hins vegar verði með skýrum hætti kveðið á um í lögum að ríkið geti ekki selt stærri hlut en að framan greinir. Ljóst er að við núverandi aðstæður hafa lífeyrissjóðir landsmanna mjög takmarkaðan aðgang að góðum fjárfestingarkostum. Langtímafjárfesting í hlutabréfum fyrirtækis eins og Landsvirkjunar ætti að falla mjög vel að fjárfestingarstefnu og hagsmunum lífeyrissjóðanna auk þess sem slíkt mundi styðja með mikilvægum hætti við uppbyggingu atvinnulífsins hér á landi og auknum útflutningstekjum. Jafnframt þyrfti að skoða vel á hvern hátt væri hægt að tryggja að sá eignarhlutur væri ekki framseljanlegur og gæti ekki gengið kaupum og sölum á almennum markaði. Þetta væri sem sagt langtímafjárfesting lífeyrissjóðanna og markmiðið væri að arðsemi af þeim væri nægileg til að standa undir þeim kröfum sem lífeyrissjóðirnir gera til fjárfestinga. Þetta markast ekki síst af því að ekki er að finna í lögum skýra stoð fyrir því að eigendur sameignarfélags séu með takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess en ábyrgð eigenda fyrirtækisins er nú mjög takmörkuð eins og kunnugt er.

Ég hef takmarkaðan tíma til þess að fara í alla þessu miklu liði en ætla að nefna hér aðeins verkefnafjármögnunina, þann þátt. Við þekkjum það að á undanförnum árum hafa komið hér upp af og til hugmyndir um að hið opinbera og fyrirtæki í þess eigu, svo sem Landsvirkjun, fjármagni einstakar framkvæmdir með svokallaðri verkefnafjármögnun. Það má líka benda á Orkuveitu Reykjavíkur og Hverahlíð svo dæmi sé tekið.

Í stuttu máli má útskýra hefðbundna verkefnafjármögnun þannig að hún felist í því að stofnað er sérstakt félag um viðkomandi framkvæmd sem fjármagna á. Eigendur félagsins leggja því til eigið fé en verkefnið er síðan fjármagnað með lánsfé. Lánveitendur fá veð í eignum félagsins, þar með talið í viðkomandi verki, og ef tekjur af verkefninu standa ekki undir endurgreiðslum af lánum vegna þess geta lánveitendur oftast tekið yfir stjórnun á viðkomandi fyrirtæki eða verkefni og eignarhald þess. Eftir gjaldþrot íslenska bankakerfisins, á haustmánuðum 2008, hefur aukin umræða orðið um verkefnafjármögnun, t.d. hjá Landsvirkjun, og fjölmargir stjórnmálamenn lagt til að þessi leið verði farin við fjármögnun nýrra virkjanaframkvæmda, eins og ég nefndi áðan Orkuveitu Reykjavíkur og Hverahlíð og fleiri þætti. Nokkuð virðist skorta á, oft og tíðum, að viðkomandi aðilar hafi kynnt sér hvaða kosti og ókosti slíkt fyrirkomulag hefur og hvaða afleiðingar slíkt kann að hafa í för með sér ef til dæmis viðkomandi framkvæmd gengur ekki fjárhagslega eins og ætlað var.

Hér á landi hafa opinberir aðilar (ríki og sveitarfélög) og fyrirtæki í opinberri eigu enga skýra stefnu eða almennar reglur um hvaða viðmiðanir eða heimildir þurfi að vera til staðar þegar ráðist er í verkefnafjármögnun einstakra verkefna. Í þessu sambandi þarf að skoða fjölmörg atriði, svo sem hver eignarhlutur opinberra fyrirtækja á að vera í þeim félögum sem stofnuð eru í kringum verkefnafjármögnun eða hvort eignarhlutur þeirra á yfir höfuð að vera einhver. Einnig þarf að kanna hvort ekki sé skynsamlegast að takmarkanir eigi að gilda um einstaka þætti í virkjunum sem eru verkefnafjármagnaðar. Nauðsynlegt er að hefja þá umræðu strax.

Hér er ég auðvitað að velta því fyrir mér ef verkefni gengur ekki upp og verkefnið renni með einum eða öðrum hætti til þess sem fjármagnar, þá þarf að vera búið að tryggja það að við séum ekki að tapa auðlindinni, vatnsréttindunum eða öðru með þeim hætti.

Að lokum vil ég nefna hér d-liðinn, þ.e. um sæstrenginn. Möguleikar á beinum útflutningi raforku frá Íslandi hafa verið í umræðu hér á landi af og til undanfarna áratugi. Árið 1993 kom út á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins skýrsla um þetta efni undir heitinu Submarine Cable from Iceland: Export of Electricity to Europe, þar sem m.a. voru skoðaðir ýmsir efnahags- og fjárhagsþættir slíkrar framkvæmdar. Á haustfundi Landsvirkjunar nú í haust 2011 sagði framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs fyrirtækisins að sæstrengur væri „hugsanlega stærsta viðskiptatækifæri Landsvirkjunar“. Jafnframt sagði hann að það sem gerði sæstrengsverkefnið sérstaklega áhugavert væri svokallað 20/20 markmið Evrópusambandsins. Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að kannað verði hvort ástæða sé til þess að ríkið hafi frumkvæði að því að marka skýra stefnu um hvernig best verði staðið að vinnu, undirbúningi og hagkvæmnisathugun vegna lagningar rafmagnskapals frá Íslandi til Evrópu og með hvaða hætti eðlilegt er að helstu raforkufyrirtæki landsins komi að því undirbúningsstarfi. Hér er í öllu falli um svo umfangsmikið mál að ræða að stjórnvöld geta ekki látið það afskiptalaust. Kanna þarf til hlítar jákvæð sem neikvæð áhrif þess að selja orku úr landi í gegnum sæstreng, m.a. áhrif á rafmagnsverð til neytenda og áhrif á samkeppnishæfni til atvinnusköpunar hérlendis en einnig hærri tekjur raforkufyrirtækja og arð- eða skattgreiðslur til ríkisins.

Þar sem öll framangreind málefni hljóta að verða til umræðu á þessu ári er þýðingarmikið að sú nefnd, sem hér er lagt til að verði skipuð, hefji störf sem fyrst og ljúki þeim ekki síðar en næsta sumar.

Við vinnu sína og tillögugerð leggjum við til að nefndin hafi meðal annars hliðsjón af þeim lögum og því fyrirkomulagi sem er annars staðar á Norðurlöndunum, einkum í Noregi, og jafnvel víðar. Varðandi rekstrarfyrirkomulag Landsvirkjunar hafi nefndin meðal annars hliðsjón af stöðu sambærilegra fyrirtækja annars staðar á Norðurlöndum svo og þeim reglum og samningum sem Ísland hefur undirgengist á alþjóðavettvangi í raforkumálum eftir því sem við á, t.d. hvað varðar eignarhald samkeppnisraforkufyrirtækja í opinberri eigu og samkeppni almennt.

Það sem okkur finnst mikilvægast sem leggjum þetta fram hér er að það sé ríkisstjórnin sem skipi þessa fimm manna nefnd, að þetta sé gert að frumkvæði Alþingis og málið sé ekki eingöngu í höndum til að mynda Landsvirkjunar að skoða kosti og galla sæstrengs, heldur komi að því öll önnur raforkufyrirtæki landsins sem og aðrir aðilar.

Sá sem hér stendur getur sagt það sem sína persónulegu skoðun að ég efast mjög um að sú staða sé komin upp að það sé skynsamlegt að flytja orku um sæstreng til útlanda vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem það hefði á verð til neytenda og lakari samkeppnisstöðu á Íslandi. Í því sambandi er rétt að benda á að sérfræðingur hefur sagt mér og hefur skotið á það lauslegri tölu að sá arður sem hefur runnið til neytenda í landinu, heimila og fyrirtækja, með þeim hætti að við höfum haft mjög lágt raforkuverð alveg frá 1970, frá Búrfellsvirkjun, gæti numið 2.000–2.200 milljörðum á þessu tímabili ef við hefðum þurft að kaupa orkuna til að mynda á dönskum raforkutaxta eða norskum eins og hann er í dag, að þetta sé uppsafnaður arður á þessu tímabili. Því má ekki gleyma að sú stefna sem verið hefur, að hafa lágt raforkuverð, eins lágt og hægt er, en með engu að síður hæfilegri arðsemi Landsvirkjunar og þeirra fyrirtækja sem í greininni hafa verið, hefur nýst okkur mjög vel til að skapa góð lífsskilyrði og góða samkeppnisstöðu fyrir að skapa störf í landinu. Þess vegna þarf að skoða þetta ítarlega af hópi sem ekki er eingöngu undir hatti eins orkufyrirtækisins.

Það má líka nefna í sambandi við fyrsta hlutann sem ég nefndi hérna, um úthlutun virkjanaleyfa, að mjög áhugaverðir hlutir komu fram á ráðstefnunni sem Háskólinn í Reykjavík hélt í dag um virði vatnsréttinda og hvernig það hefur verið að breytast í því umhverfi sem Norðmenn hafa skapað. Ég held að það væri mjög áhugavert að feta í fótspor þeirra, a.m.k. að kanna hvort það sé skynsamlegt að feta í fótspor þeirra, kanna alla kosti og galla áður en við tökum ákvarðanir. Það liggja stórar ákvarðanir rétt fyrir framan okkur og við þurfum að undirbyggja þá vinnu sérstaklega vel. Það teljum við best gert með þessari þingsályktunartillögu og lýk ég máli mínu á því að leggja til að málinu verði vísað til viðeigandi nefndar til umfjöllunar.