140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mér finnst þetta vera mjög áhugaverð þingsályktunartillaga. Hún tekur á mörgum þáttum og hægt væri að ræða hvern og einn sérstaklega með sérstakri þingsályktunartillögu. Ástæðan fyrir því að við viljum að þetta sé kannað er einmitt sú að öllum þeim þáttum sem ég nefndi fylgja bæði kostir og gallar — hv. þingmaður nefndi bann við að selja auðlindina til lengri tíma en 65 ára eða að leigutekjurnar af henni renni til þjóðarinnar.

Við erum að kanna aðra leið. Við segjum: Þetta er gert svona í Noregi. Er það skynsamlegri leið? Ef við seljum allt að 30% hlut úr Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna sem langtímafjárfestis viljum við líka tryggja að sá hlutur fari síðan ekki á flakk. Hverjir eru lífeyrissjóðirnir? Það eru auðvitað landsmenn. Það er að vísu ekki einn lífeyrissjóður í landinu, þetta gæti verið einhver hluti þeirra en hugsanlega gætu þeir allir komið að verkinu. Við þurfum að kanna hvort þetta sé skynsamleg leið til að koma fjármagni inn í Landsvirkjun og til að koma peningunum frá lífeyrissjóðunum í áhugaverðan fjárfestingarkost við núverandi aðstæður. En við þurfum líka að skoða gallana á þessu. Þurfum við þá að breyta þeim lögum sem við höfum, ef kostirnir vega þyngra en gallarnir? Ellegar hættum við við þetta. Til þess er leikurinn gerður að kanna hlutina vel áður en við tökum ákvörðun.

Það síðasta sem ég gerði væri að taka nýtingarrétt af bændum eða leggja það til. Í Noregi er þessi réttur 3–5 megavött. Ef virkjanir eru stærri en það þurfa opinberir aðilar að koma að verkinu. Við erum að tala um að 10 jafnvel 15 megavött þurfi hér vegna þess að við höfum fjölbreyttari möguleika, meðal annars í jarðvarmavirkjunum. Þess vegna þurfum við að skoða það. Ef virkjunarkosturinn er mjög áhugaverður hjá bóndanum hefur hann alltaf réttinn. En þá gæti verið að hann þyrfti að fara í samstarf við opinberan aðila til að nýta þann rétt ef um mjög stóra auðlind væri að ræða, þ.e. samkvæmt þessari tillögu.